Hvað er UngSAFT?

UngSAFT er ungmennaráð SAFT sem er miðstöð netöryggisfræðslu barna og unglinga á Íslandi. Ráðið samanstendur af ungmennum  á aldrinum 12-18 ára sem koma allstaðar af á landinu. Ungmennaráðið starfar sem ein heild sem hittist 1- 2 á ári en þess á milli hittist ráðið á fjarfundum. Ungmennaráðið fjallar um fjölmörg málefni sem tengjast tækni og ungu fólki. Meðal annars er ungmennaráðið mótandi afl í starfsemi SAFT, er til ráðgjafar við gerð nýs námsefnis, kemur að hönnun saft.is og lætur í sér heyra þegar málefni ungs fólks og netsins eru efst á baugi.

Hvað er SAFT?

SAFT – Samfélag, fjölskylda og tækni, er vakningarátak um örugga og jákvæða tölvu- og nýmiðlanotkun barna og unglinga á Íslandi. Verkefnið er rekið af Heimili og skóla – landssamtökum foreldra. Verkefnið var hluti af Safer Internet Programme, aðgerðaáætlun Evrópusambandsins um öruggari netnotkun og styrkt af framkvæmdastjórn ESB, en þeirri áætlun lauk 2014. Verkefnið er nú hluti af netöryggishluta samgönguáætlunar Evrópusambandsins og er styrkt af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og Félags-og barnamálaráðuneytinu.

Hvaða málefni eru tekin fyrir í UngSAFT?

UngSAFT lætur sig öll málefni stafræns veruleika ungmenna varða, svo sem tölvuleiki, samskipti á netinu, samfélagsmiðla, neteinelti, sexting, kynferðislega áreitni á netinu, persónuvernd, hatursorðræðu á netinu, hvað er að vera ábyrgur stafrænn borgari og margt fleira sem er hluti af veruleika ungmenna. Meðlimir ráðsins vinna saman að verkefnavali hverju sinni.

Hvað græði ég á að taka þátt í UngSAFT?

Ávinningur þeirra sem taka þátt í UngSAFT er margvíslegur. Þau fá tækifæri til að kynnast öðrum ungmennum, læra ýmislegt nýtt sem gagnast þeim í framtíðinni og fá vettvang til að hafa jákvæð áhrif á samfélagið. Þá efla þau eigin samskipta- og samvinnuhæfni og þjálfast í að láta málefni ungmenna sig varða. Þátttaka í ungmennaráðinu getur byggt þau upp fyrir framtíðina með nýjum tengslum, nýrri þekkingu og nýrri hæfni.

Hvernig sæki ég um?

Fylltu út skráningarformið sem er fyrir neðan myndbandið. Passaðu að allar upplýsingar séu réttar áður en þú smellir á „senda” Allar persónuuplýsingar  munu aðeins berast starfsfólki SAFT og verða ekki áframsendar til þriðja aðila.