Verslun

Mikilvægt er að skilja að stór hluti viðskipta fer fram stafrænt. Þeir sem stunda slík viðskipti þurfa að gera sér grein fyrir því hvað ber að varast í þeim efnum. Auðvelt er að kaupa og selja hluti yfir netið en margt af því sem er í boði með þeim hætti er ólöglegt eða ósiðlegt í mörgum löndum. Nefna má dæmi um ólöglegt niðurhal, fjárhættuspil ofl. Notendur þurfa að læra að vera ábyrgir neytendur í hinu stafræna hagkerfi.

Kaup og sala

Í dag fer mikið af kaupum og sölu fram á netinu. Fólk er orðið mikið opnara fyrir því að kaupa og selja hluti á netinu en þrátt fyrir það er margt sem þarf að hafa í huga þegar þessi viðskipti fara fram. Einn af megin þáttum í viðskiptum á netinu er traust og öruggt umhverfi, bæði fyrir seljanda og kaupanda. Auk þess verður að kenna þeim sem eru nýir þátttakendur í þessu samfélagi hvernig er best að bera sig að í því að kaupa og selja hluti á netinu.

Fyrirtæki og einstaklingar eru farnir að nota netið mikið meira í sínum viðskiptum en áður. Þetta er það hagkerfi í heiminum sem stækkað hefur hraðast síðustu ár og talið er að það geti orðið að fimmta stærsta hagkerfi heims árið 2016. Þetta mun leiða af sér að fleira fólk fer að stunda sína verslun aðallega í gegnum internetið.

Kaup og sölu á netinu má flokka í tvo flokka en það eru bein kaup/sala og óbein kaup/sala. Þegar átt er við bein kaup á netinu er átt við að allt ferlið er á netinu, það er að segja val á vöru eða þjónustu sem greitt er fyrir í gegnum internetið. Í þessum tilfellum skapast ákveðin hætta, bæði fyrir seljandann og kaupandann, þar sem oftast er verið að nota kreditkort í þessum viðskiptum sem gera þau áhættu meiri. Fyrir seljandann leynist hættan í því að kaupandi sé að villa á sér heimildir, oftast með stolnu korti. Fyrir kaupanda er hættan tvenns konar, í fyrsta lagi hvort sá sem hann kaupir af afhendi vöruna og síðan að hinn sami fari ekki að misnota kortanúmer á kortinu sem kaupandinn gaf upp. Þegar talað eru um að kaupa óbeint af netinu þá er átt við að varan er skoðuð á netinu, t.d í gegnum heimasíðu hjá fyrirtækinu eða hjá einstaklingum líkt og á bland.is. Síðan er farið til einstaklingsins eða fyrirtækisins til að skoða betur og ákveða hvort eigi að kaupa hlutinn. Auk þessa er fólk farið að bera saman verð áður en lagt er af stað og vanalega er farið á staðinn þar sem hægt er að gera bestu kaupin.

Til eru margar mismunandi leiðir til að kaupa af netinu. Oftast er hægt  að kaupa vöruna beint af vefsvæðum fyrirtækja og er það í flestum tilfellum mjög örugg leið. Eitt af því sem hefur notið mikilla vinsælda hér á landi eru kaup af þriðja aðila sem sér um að auglýsa vöruna eða þjónustuna fyrir söluaðilann og oft er hægt að gera góð kaup þar sem varan er vanalega á tilboði. Í þessum tilvikum sér þriðji aðilinn um að rukka og afhenda vöruna sem er gott fyrir báða aðila, þá fá yfirleitt báðir aðilar það sem þeir eru að leita eftir.

Að mörgu er að huga fyrir nýja neytendur sem eru að kaupa og selja á netinu. Oft er fólk hrætt við að versla á netinu og því mjög tvístígandi hvernig er best að haga sér í þeim efnum. Í fyrstu er gott að kynna fyrir þeim síður þar sem hægt er að skoða yfirlit yfir þær netverslanir sem eru til, eins og t.d ResellerRatings.com en þar má sjá umsagnir um netverslanir. Gott er að vafra um með nýjum neytendum og sýna þeim reglur um sendingar og skilafrest hjá nokkrum fyrirtækjum. Best er að versla við þekkta seljendur sem eru með skýrar reglur. Þrátt fyrir að auðvelt sé að kaupa á netinu er gott að kenna nýjum neytendum að vera gagnrýnir kaupendur og ekki sætta sig við fyrsta verðið sem þeir sjá, heldur skoða sig betur um og sjá hvort varan fáist ekki á betra verði.

Mikilvægt er að hafa flesta af þessum þáttum sem nefndir eru hér að ofan á hreinu þegar kaup og sala fer fram á netinu. Ávallt skal gera sína eigin könnun á aðilanum sem keypt er af, til að vera viss um að allt sé öruggt. Einnig er mikilvægt að vera heiðarlegur í sinni nálgun svo hagkerfið á netinu geti haldið áfram að vaxa og dafna.

Heimildir.
Anonymous (2011). Just Ask Gemalto: What should I teach my children about shopping online? McClatchy – Tribune News Service. Washington.

Smith, D. (2011). How can I tell which online sellers to trust? South Wales Echo. Cardiff (UK): 4.

Passyn, K. A., et al. (2011). “Images Of Online Versus Store Shopping: Have The Attitudes Of Men And Women, Young And Old Really Changed?” Journal of Business & Economics Research 9(1): 99-110.