Siðferði

Sömur kröfur eru gerðar til siðgæðisvitundar notenda tafrænnar tækni og annarra. Tækninotendur sjá þetta oft sem helstu áskorun starfænnar borgaravitundar. Við þekkjum slæma hegðun þegar við sjáum hana en oft hefur fólk ekki lært hvað telst ábyrg nethegðun áður en það byrjar að nota tæknina. Dæmi um óábyrga hegðun er stafrænt einelti. Sífelld þróun nýrra möguleika og breytt notkun tóla skapar áskoranir. Stundum er gripið til þess ráðs að banna notkun tækninnar sem um ræðir en mikilvægara er að kenna fólki að vera ábyrgir notendur tækninnar. 

Siðgæðisvitund notenda

Stafrænn borgari þarf alltaf að hafa í huga hvaða afleiðingar gjörðir hans geta haft og vera meðvitaður um bæði áhættur og ávinning þess sem sett er á netið.

Siðgæðisvitund felur í sér að við getum sett okkur í spor annarra og áttum okkur á því hvað er rétt og hvað er rangt. Öll höfum við rétt á okkar skoðunum en eins þurfum við að kunna að taka siðferðislega afstöðu í ýmsum málum og bera virðingu fyrir öðrum, eignum og skoðunum þeirra. Það verður aldrei of oft sagt að netið gleymir engu, það sem fer á internetið, verður þar alltaf.

Mikil ábyrgð hvílir því á stafrænum borgurum og gott er að hafa eftirtalda þætti í huga:

 • Virða og vernda sjálfan sig
 • Virða og vernda aðra
 • Virða og vernda höfundarrétt og aðrar eignir

Stafrænir borgarar þurfa að hafa í huga að það sem þeir setja á netið getur haft áhrif á það hvernig fólk upplifir þeirra persónu. Að virða sjálfan sig byrjar með þeirri persónu sem fólk kynnir á netinu. Hafa þarf í huga að allt sem við segjum og gerum á netinu getur elt okkur allt okkar líf.

Saklausir hlutir geta haft óvæntar afleiðingar í för með sér. Myndir af börnunum okkar geta til dæmis endað á síðum þar sem við viljum alls ekki sjá þær og saklausar yfirlýsingar á persónulegri stöðu geta haft óútreiknanlegar afleiðingar í för með sér.

Virða og vernda aðra
Ábyrgir stafrænir borgarar bera virðingu fyrir öðru fólki. Áður fyrr fór einelti, baktal og slúður fram á staðnum en nú á tækniöld breiðist það út sem eldur í sinu. Í dag eru möguleikarnir til að ráðast á aðrar persónur óteljandi, meðal annars með óviðeigandi myndböndum sem tekin eru af fólki við óþægilegar aðstæður. Komdu fram við náungann eins og þú vilt að hann komi fram við þig, á vel við hér.
Einnig þurfum við að hafa í huga hvaða netsíður við heimsækjum. Partur af því að virða og vernda aðra er sá að fara ekki inn á síður sem lítillækka annað fólk á nokkurn hátt. Með því að vera meðvituð um það, erum við að koma í veg fyrir vinsældir þessara síðna.
Okkur ber skylda sem stafrænir borgarar að vernda annað fólk og taka ekki þátt í óæskilegri hegðun, slúðri, misnotkun, einelti eða öðru slíku sem áhorfendur. Við megum ekki sitja kyrr og horfa á fólk þjást.

Virða og vernda höfundarrétt og aðrar eignir
Internetið er stútfullt af upplýsingum sem við nýtum okkur. Margar þeirra eru mjög góðar en eins eru margar mjög slæmar og beinlínis kolrangar. Við verðum að vera gagnrýnin á það sem við lesum. Eins verðum við að gæta að því að virða eignir annarra sem liggja á netinu jafnt eins og veraldlegar eignir. Ef við notum gögn annarra, hvort sem það eru myndir, texti eða annað, verðum við að biðja um leyfi ef þess þarf og gæta að heimildaskráningu.

Heimildir:
Ribble, M.,  Bailey, G., & Ross, T. (2004). Digital Citizenship: Addressing Appropriate Technology Behavior. Sótt 15. apríl 2014 af: www.digitalcitizenship.net/uploads/1stLL.pdf

Educational origami- The digital Citizen (e.d). Sótt 15. apríl 2014 af: http://edorigami.wikispaces.com/The+Digital+Citizen

Stafrænt einelti

Picture

Stafrænt einelti
Einelti er samfélagslegt vandamál sem hefur alltaf verið og verður líklega alltaf til staðar. Það þarf ákveðin skilyrði en einelti þrífst á aðgerðarleysi fjöldans, einkum þar sem afskiptaleysi og sinnuleysi er mikið og ekki er tekið á málunum. Einelti snertir allt samfélagið. Rannsóknir hafa sýnt að einelti er að einhverju leyti að færast úr skólum yfir í netheima þar sem börn og unglingar eiga samskipti á ýmsum félagsnetsíðum, s.s.  Myspace eða Facebook, og gera lítið úr öðrum einstaklingum. Þetta getur skaðað heilsu og haft neikvæð áhrif á líðan, námsárangur, samskipti og skólabrag fórnalambanna.

Tíðni og birtingarmyndir stafræns eineltis
Í nýrri SAFT– könnun (2013) á notkun farsíma og netsins í eineltismálum, sögðust 9%íslenskra barna í 4.-10. bekk hafa orðið fyrir einelti og 5% þeirra í gegnum farsíma sl. 12 mánuði. Rúm 3% þeirra sögðust hafa sent texta- eða myndskilaboð, sem voru andstyggileg í garð annars einstaklings, í gegnum farsíma.

Rannsóknin EUKids Online (2011) á netnotkun evrópskra barna og ungmenna á aldrinum 9 – 16 ára, benti til þess að 12% þátttakenda hafi orðið fyrir áreitni eða komist í uppnám vegna einhvers sem þau höfðu séð á internetinu.

Stafrænt einelti helst í hendur við mikla netnotkun. Um það bil 6% svarenda sagðist hafa orðið fyrir stafrænu einelti og 3% viðurkenndu að hafa lagt aðra í stafrænt einelti.  Einelti er þó ekki bundið við netnotkun, því mun fleiri höfðu orðið fyrir einelti utan netsins eða 19%. 12% barnanna sögðust hafa lagt aðra í einelti. Fram kom að einelti er misjafnlega algengt í þeim löndum sem rannsóknin tók til.

Af skýrslunni má ráða að einelti sé hvorki bundið við stund né stað því um það bil helmingur (56%) þeirra sem viðurkenndu að hafa lagt aðra í einelti á netinu lögðu líka í einelti augliti til auglitis. Svipað hlutfall (55%) þeirra sem lagðir voru í einelti á netinu höfðu einnig lent í því í beinum samskiptum. Það getur því verið erfitt fyrir fórnarlömbin að komast hjá eineltinu með því að flytja á milli svæða þar sem netið eltir mann.

Það að vera þolandi og gerandi í senn virðist haldast að nokkru leiti í hendur. Samkvæmt skýrslunni var u.þ.b. bil helmingur þolenda eineltis jafnframt gerendur (40%). Einelti veldur álagi og spennu, enda eiga þolendur og gerendur við meiri sálræna erfiðleika að stríða en börn sem ekki hafa reynslu af stafrænu einelti. Gerendur virðast sækja meira í æsing og spennu en þolendur eineltis eru oftar útilokaðir frá félögum sínum.

Þeir sem hafa orðið fyrir stafrænu einelti líða mismikið fyrir það. Stelpur taka það nærri sér en strákar en af þeim sem urðu fyrir mikilli geðshræringu var hlutfall stelpna 46% en stráka 23%. Það getur verið vegna þess að stelpur beita frekar andlegu einelti á meðan strákar eru í því líkamlega.

Skoðað var hvernig börnin takast á við stafrænt einelti. Einn þriðji þeirra (36%) reyndi að glíma við vandann án þess að leita aðstoðar en flest trúðu öðrum fyrir því (77%), yfirleitt foreldrum eða vinum. Nær helmingur lokaði á stafræn samskipti við gerendur (46%).

Stafrænir siðir og mannasiðir 
Stafrænir (digital) siðir eru tiltölulega nýir í okkar heimi en þá er átt við reglur sem gilda almennt í hinum stafræna netheimi, hvort sem er í gegnum tölvu, spjaldtölvu eða síma.

Tilfinningalegir siðir eru þeir siðir sem við erum að vinna með alla daga, mannleg samskipti.

Marktækur munur er á þessum siðum. Það er löng hefð fyrir daglegri hegðun okkar, þ.e. kurteisi og að koma fram við aðra eins og við viljum láta koma fram við okkur, við erum alin þannig upp . En siðir í netheimum eru mun styttra á veg komnir. Netheimurinn er það nýr að þessi gífurlega hraða þróun á tækninni gerir okkur ekki kleift að samhæfa siði og reglur þar. Það virðist vera eins og einstaklingnum finnist hann mega vera „ókurteisari“ í þeim heimi, þar sem hann horfir ekki augliti til auglitis við einstaklinginn í samskiptum.

Foreldrar sáu um uppeldi barna sinna, kenndu þeim muninn á réttu og röngu, kenndu þeim að bera virðingu fyrir öðrum og sjálfum sér. Í dag virðast foreldrar ekki lengur hafa næga þekkingu og getu til að leiðbeina börnum sínum í umgengni á netinu. Börnin eru komin lengra en foreldrarnir hvað netheiminn varðar og eru farin að kenna foreldrum tæknina. En þroski barnanna fylgir ekki hraðri þróun netsins. Munurinn á umgengni í netheiminum og tilfinningalegum samskiptum er sá, að aðilinn sem er hinu megin á línunni er ósýnilegur og skilaboð eru skrifuð nafnlaust og ferlið er framkvæmt án þess að hugsa.

Það sem fer fram á netinu fyrir utan skólann skilar sér oft inn í skólana og þar verða árekstrar á milli einstaklinganna. Í skólanum er nemendum kennt hvernig á að umgangast netheiminn, einstaklingurinn ber ábyrgð á því sem hann setur á netið og honum er kennt að oft er ekki hægt að taka það til baka.

Í Aðalnámskrá grunnskólanna er fjallað um siðferði og öryggismál. Þar segir að nemendur eigi að geta unnið í samræmi við reglur um ábyrga netnotkun og vera meðvitaðir um eigin siðferðislega ábyrgð. Með skýrum markmiðum og átaki getur skólinn unnið gegn því að  nemendur verði þolendur eða gerendur í rafrænu einelti.

Að vera þátttakandi í samfélagi felur í sér réttindi og skyldur. Með þessum réttindum fylgir ábyrgð sem viðkomandi þarf að axla. Þetta gildir einnig í þátttöku í netheiminum. Stafræn samfélög hafa líka réttindi og skyldur. Þegar nemanda eru gefin réttindi til að vera á internetinu, hvort sem það tengist námi hans eða daglega lífi, fylgja því ákveðnar væntingar og ábyrgð. Þarna er ætlast til að nemandinn hafi lært og sé að læra hvað er á bak við þessar skyldur.

Skólayfirvöld
Skólinn þarf að taka á eineltismálum með heildrænni nálgun og allir þurfa að vera samstíga í því að byggja upp jákvæðan skólabrag. Til að draga úr einelti þarf sífellt að vinna að fræðslumálum svo starfsfólk átti sig á hegðunarmunstri sem gefur til kynna að einelti sé í gangi, hvort sem um er að ræða geranda eða þolanda. Skapa þarf samvinnu milli heimilis og skóla um þessi mál.

Jákvæður skólabragur þar sem allir fá stuðning, veitir öryggi og hvetur til jákvæðra tengsla minnkar líkur á einelti. Nemendur sem hafa góða kennara sem þeir geta treyst og eiga góða fjölskyldu og vini eru ólíklegri til að stunda einelti á netinu en þeir sem búa ekki 
við slíkar aðstæður. Nemendur sem segja að kennarinn geti ekki sinnt þeim sem skyldi eru líklegri til að verða fyrir einelti eða leggja aðra í einelti.

Leiðir til að vinna gegn rafrænu einelti í skólum
Um allan heim hafa verið prófaðar ýmsar leiðir til að fyrirbyggja og draga úr stafrænu einelti og efla jákvæða netnotkun. Í þeim tilgangi hafa skólar og skólayfirvöld sett reglur og gert áætlanir til úrbóta.

Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar á stafrænu einelti í skólum og aðgerðum til að sporna við því. Á árunum 2008 – 2012 var gerð rannsókn á því hvernig tekið er á þessum málum í 25 Evrópulöndum, Ísrael og Ástralíu. Rannsóknin nefnist COST IS080 (Cyber-bullying: Coping with the negative and enhancing positive uses in new technologies, in relationships and educational settings). Rannsakað var hvernig hægt er að vinna með neikvæðar hliðar upplýsingatækni í skólastarfi og stuðlað að jákvæðum þáttum hennar. Leitað var álits nemenda, foreldra, kennara og skólayfirvalda. Markmiðið var taka saman nokkrar almennar leiðbeiningar sem Evrópuríki gætu stuðst við.

Þeim sem vilja kynna sér þessi mál er bent á tillögur starfshóps sem vann úr rannsóknarskýrslunni COST IS080 (Livingstone o.fl., 2011) og einnig Aðgerðir gegn stafrænu einelti sem er íslensk þýðing. Þar eru dregin saman helstu atriði sem koma fram í tillögum starfshópsins.

Heimildir:
Alberta Education. (2012). Digital citizenship policy development guide. Sótt af:
http://education.alberta.ca/media/6735100/digital%20citizenship%20policy%20development%20guide.pdf

Livingstone, S., Haddon, L., Görzig, A. og Ólafsson, K. (2011). Risks and safety on the internet: the perspective of European children. Sótt af:  http://www2.lse.ac.uk/media@lse/research/EUKidsOnline/EU%20Kids%20II%20(2009-11)/EUKidsOnlineIIReports/Final%20report.pdf

Mennta- og menningarmálaráðuneytið. (2011). Aðalnámskrá grunnskóla: almennur hluti 2011, Greinasvið 2013Sótt af: http://www.menntamalaraduneyti.is/utgefid-efni/namskrar/adalnamskra-grunnskola/

SAFT. (2013, 7. nóvember). Einelti á netinu. Sótt af:
http://www.saft.is/2013/11/07/einelti-a-netinu/

Working Group 3 of COST Action IS0801. (e.d.).  Guidelines for preventing cyber-bullying in the school environment: a review and recommendations. Sótt af: https://sites.google.com/site/costis0801/guideline

Myndir:
Jóhanna Kristín Hauksdóttir

Mynd tekin af Lisa Nielsen: The Innovative Educator.

Aðgerðir gegn stafrænu einelti

Sjónarmið foreldra
Foreldrar eiga að hafa áhrif og afskipti af því hvernig börn þeirra nota stafræna miðla. Mikilvægt er að þeir hafi þekkingu á notkun slíkra miðla og kunni heiðarlegar samskiptareglur sem gilda í stafrænu samfélagi. Það er forsenda þess að þeir geti frætt og leiðbeint börnum sínum varðandi jákvæð og örugg samskipti á netinu.

Tillögur og ráðleggingar:
Mikilvægt er að foreldrar tali við börn sín um einelti á netinu en bíði ekki eftir því að þau lendi í slíkum aðstæðum. Þannig eru þau betur búin undir að takast á við stafrænt einelti, hvort sem þau eru þolendur eða eiga aðild að því sjálf. Einnig dregur það úr líkum þess að börnin stundi sjálf stafrænt einelti eða hvetji til þess. Foreldrar ættu að láta viðhorf sín gagnvart einelti skýrt í ljós og gefa gott fordæmi um virðingu og umburðarlyndi í samskiptum við aðra.

Foreldrar kunna oft minna fyrir sér en börnin í upplýsingatækni. Þess vegna er mikilvægt að þeir reyni að fylgjast með þróuninni og kynni sér hvernig hægt er að auka öryggi í samskiptum í gegnum síma og internet og einnig hvernig þessi tækni er notuð til að leggja aðra í einelti. Þeir þurfa að vita hvernig hægt er að leita til aðila sem veita internetþjónustu og kynna fyrir börnum sínum hvernig þau geta haft samband við þessa aðila og tilkynnt vandamál, tryggt eigið öryggi á netinu og lokað á þá sem senda þeim neikvæð eða ósæmileg skeyti eða myndir.

Foreldrar átta sig ekki alltaf á þeim hættum sem leynast á netinu. Þó þeir eru vel staddir tæknilega séðeru þeir ekki alltaf meðvitaðir um netöryggi, sérstaklega á meðan börnin eru ung. Til þess að átta sig á því hvort börn verði fyrir áreitni og geta gripið inn í aðstæður, þurfa foreldrar að þekkja einkennin sem eru algeng meðal þeirra sem verða fyrir rafrænu einelti eins og t.d.; depurð, pirringur, skapsveiflur, æsingur eða reiði, þegar verið er að lesa texta á netinu.

Hvetja ætti foreldra til að bregðast við og tilkynna til skólayfirvalda þegar þeir telja að börn þeirra eigi aðild að stafrænu einelti, hvort sem þau eru þolendur eða gerendur. Samvinna foreldra og skóla er afar mikilvæg svo hægt sé að kanna hvort grunurinn sé á rökum reistur og gripið verði inn í aðstæður á faglegan hátt. Það er þó mikilvægy að benda foreldrum á að eineltið geti einnig átt sér stað utan netsins.

Foreldrar ættu að ræða um eineltið við börn sín og leggja áherslu á að ekki sé skömm að því að vera lagður í einelti, vandinn liggi hjá gerendum. Hvetja ætti börnin til að leita aðstoðar hjá fullorðnum, kennurum, leiðtogum í félagsmiðstöð eða öðrum þeim sem taka ábyrgð á þeim þegar þau geta ekki sjálf ráðið við vandann. Foreldrar ættu að ræða við börn sín um það hvernig hægt er að bregðast við eineltinu.

Foreldrar ættu að hvetja börn sín til að skerast í leikinn þegar þau verða vitni að stafrænu einelti. Þau geta stutt þolandann og látið einhvern sem hefur vald til að bregðast við, vita af eineltinu. Ef foreldrar vita af þátttöku barna sinna í stafrænu einelti ættu þeir að leggja áherslu á að þau hætti því og ræða um hve eineltið sé sársaukafullt og meiðandi fyrir þolandann.

Foreldrar þurfa að skilja hve mikilvægt er að þeir séu leiðtogar og eigi jákvæð og uppbyggjandi tengsl við börn sín. Til þess að börn treysti á foreldra sína þurfa þau að upplifa að þau séu virt og hlustað sé á þau og að foreldrarnir dæmi börnin ekki, heldur sýni þeim jákvæðni og skilning. Hvetja ætti foreldra til að efla félagslega hæfni barna sinna og gefa þeim gott fordæmi þannig að þau rækti með sér góða eiginleika eins og að: sýna samúð, raunsæi, sjálfstraust og þolinmæði. Það dregur úr líkum á því að flækjast inn í stafrænt einelti á einn eða annan hátt.

Sjónarmið ungmenna
Uppbygging þekkingar og jákvæðs skólasamfélags nemenda.

Mikilvægt er að  byggja upp samfélag ungmenna þar sem neikvætt viðhorf er til stafræns eineltis, þar sem viðbrögð og reglur eru raunsæjar og viðeigandi, tekið á málum sem upp koma og nemendur sjálfir eigi þátt í að byggja upp skólabrag þar sem einelti er ekki samþykkt og þrífst ekki.

Þrátt fyrir að vera mótfallnir einelti sitja nemendur gjarnan hjá og gera ekkert til að hindra gerandann og sumir styðja hann jafnvel. Mikilvægt er að efla færni og áræðni nemenda til að skerast í leikinn og styðja þolandann við slíkar aðstæður. Margir sem lagðir hafa verið í einelti telja að stuðningur frá jafnöldrum sé þeim mikilvægari en stuðningur fullorðinna og reynist jafnvel betri en þeirra eigin aðgerðir til að takast á við eineltið. Þess vegna er mikilvægt að efla ungt fólk til að styðja hvert við annað ef upp kemst um stafrænt einelti.

Ungu fólki finnst það gjarnan vera óviðeigandi og oft að það sélítill árangur af því að leita til fullorðinna vegna stafrænna eineltismála. Í ástralskri rannsókn þar sem þátttakendur voru framhaldsskólanemar kom fram að 50% nemenda (16 -17 ára) fannst ekki bera árangur að leita til kennara vegna eineltismála. Starfsfólk skóla þarf að bregðast við þessari staðreynd og taka á stafrænum eineltismálum af einlægni og alvöru og leita raunhæfra lausna. Í því sambandi er mikilvægt að styðja nemendur, hlusta á þá og taka tillit til skoðanna þeirra. Öðruvísi næst ekki traust og samvinna.

Mikilvægt er að skólar fræði nemendur um einelti og efli sjálfstæði þeirra og öryggi með því að kenna þeim að bregðast við því í einni eða annarri mynd. Með því er hægt að draga úr þessari óæskilegu hegðun og vandamálum sem henni fylgja. Áætlun um slíka fræðslu og reglur um viðbrögð ættu að vera hluti af stefnu hvers skóla og skráðar í skólanámskrá. Einnig þarf að efla tæknilega þekkingu nemenda varðandi netnotkun og uppfræða þá um það hvert þeir geta leitað. Hér fyrir neðan verður þessum þáttum gerð ítarlegri skil.

Tillögur og ráðleggingar:

1.       Forvarnastefna, áætlanagerð og hagnýt ráð
Mikilvægt er að nemendum finnist þeir eiga hlutdeild í stefnu skólans varðandi stafrænt einelti. Forsenda þess er að þeir eigi fulltrúa sem taka þátt í stefnumörkun og áætlanagerð.  Þannig kemst sýn þeirra á stafrænu einelti, aðferðum og viðbrögðum við því til skila.

Þar sem ekki er hægt að fylgjast með því hvað ungmenni aðhafast á netinu þarf að hvetja þau til að taka ábyrgð á eigin netöryggi í stað þess að treysta á reglur og eftirlit fullorðinna.

Nemendur ættu að taka þátt í áætlanagerð um félagastuðning, kennslu og ráðgjöf um netnotkun. Þannig eflist stafræna borgaravitund þeirra.

2.       Skilningur og færni (competencies)
Ungmenni þurfa fræðslu sem eflir skilning þeirra á stafrænu einelti:

 • Hvað felst í því, hvernig hinar ýmsu birtingarmyndir þess og hliðar eru.
 • Hvernig það gengur nærri og skaðar þolendur.
 • Hversu skaðlegt það er fyrir stafrænan orðstír gerandans, þ.e. áhrif verknaðarins á vináttu, tengsl og atvinnumöguleika í framtíðinni.
 • Lögfræðilegar afleiðingar fyrir gerandann og áhætta á lögsókn.


Gefa þarf ungmennum tækifæri til að kanna viðhorf sín og þróa stafræna færni sína og öryggi á  netinu og við notkun snjallsíma. Sérstök færni er nauðsynleg fyrir  mismunandi athafnir á netinu; samskipti á samfélagsmiðlum, bloggum og í leikjum. Ungmenni þurfa að læra að temja sér grundvallarreglur sem gilda í því tungumáli (netiquette) sem notað er á netinu í mismunandi samskiptum; samræðum og félagslegum aðstæðum, því það gilda álíka viðmið þar og í daglegu lífi.

Öll ungmenni ættu að hafa þekkingu á og vera fær um að bregðast við árás tölvuþrjóta (cyber attack) með því að:

 • Opna hvorki óörugg skeyti né svara þeim.
 • Varðveita gögn.
 • Segja hverjum sem getur veitt þeim aðstoð frá eða hafa samband við hjálparlínu.
 • Loka á sendandann.
 • Tilkynna þjónustuaðila (símaþjónstufyrirtæki eða umsjónaraðila samskiptavefs) og hafa samband við lögreglu þegar um alvarleg dæmi er að ræða.


Það ætti að uppfræða öll ungmenni um áhættu og ávinning sem fylgir því að svara árásum á netinu. Hvað ef maður:

 • Svarar af hörku.
 • Leitar lausna eða svarar af ákveðni.
 • Gerir ekkert eða svarar á tilfinningalegum nótum
 • Sækir aðstoð hjá vinum, félögum, fjölskyldu, ábyrgðaraðilum sínum eða kennurum.


Ungmenni ættu að fá tækifæri til að efla félagslega færni sína. Þá er mikilvægt að vinna með þætti þar sem reynir á að taka tillit til annarra og sýna samúð, auka siðferðilegan þroska, leysa ágreining og reiðistjórnun.

3.       Jákvæð skóla-fjölskyldu tengsl sem byggja á samvinnu
Eindregið ætti að hvetja ungmenni til að tilkynna foreldrum sínum eða starfsliði skólans ef þau verða fyrir stafrænu einelti. Þau þurfa að átta sig á því að vandinn er hjá gerandanum en ekki þeim sjálfum og því fyrr sem áreitnin er opinberuð, þeim mun fyrr er hægt að uppræta hana. Það ætti að hvetja þau til að leita sér ráðgjafar eða hjálpar ef þau verða fyrir stafrænu einelti.

4.       Félagslegt umhverfi
Öll ungmenni þurfa að átta sig á mikilvægi þess að styðja þolendur stafræns eineltis innan og utan skólans og nauðsyn þess að tilkynna það til starfsmanna skólans svo hægt sé að taka á því. Þau þurfa að læra rétt viðbrögð sem þau geta beitt þegar þau sjálf eða félagar þeirra verða fyrir stafrænu einelti. Ungt fólk þarf að upplifa stuðning þegar það tekst á við slík mál eða leita hjálpar vegna vandamála af þessu tagi.

Sjónarmið skólayfirvalda
Taka þarf á eineltismálum með heildrænni nálgun og allt skólaumhverfið þarf að vera samstíga í því að byggja upp jákvæðan skólabrag. Stöðugt þarf að vinna að því að draga úr einelti, fræða og efla skilning fólks svo það átti sig á vísbendingum og hegðun sem bendir til eineltis, hvort sem um þolendur eða gerendur er að ræða. Skapa þarf einingu meðal starfsfólks, nemenda, fjölskyldna og samfélagsins alls, um að vinna gegn eineltismálum.

Jákvætt skólasamfélag, þar sem fólk fær stuðning, veitir öryggi og hvetur til jákvæðra tengsla, minnkar líkur á einelti. Nemendur sem treysta umsjónarmönnum sínum og eiga hjálpsama vini eru ólíklegri en þeir sem ekki búa við slíkar aðstæður, til að stunda einelti á netinu og utan þess. Nemendum sem finnst kennarar þeirra ekki sinna þeim sem skyldi eru líklegri til að verða fyrir einelti eða leggja aðra í einelti en þeir sem upplifa aðstoð og öryggi í skóla.

Stefna skólans, reglur og hvernig tekið er á eineltismálum er mikilvægt. Með þeim eru lagðar  línur um það hvernig tekið er á málum og að einelti verði ekki liðið. Það má segja að þær séu nokkurs konar samkomulag skólans um að skapa öruggt og styðjandi skólaumhverfi. Skólastefna og leiðir ættu að miða að því að draga úr einelti og efla jákvæða félagslega færni. Það eykur tiltrú nemenda á starfsfólk og einnig eykur það líkur á að þeir láti vita af einelti.

Allt skólasamfélagið ætti að vinna að sameiginlegri stefnumörkun í eineltismálum og tryggja sameiginlegan skilning á þessum málum. Til að góður árangur náist, þurfa samvinna og aðgerðir þeirra aðila sem koma að börnum og ungmennum, að vera skilvirk og samræmd og taka til þess sem á sér stað á netinu og utan þess.

Ýta ætti undir jákvæða hegðun nemenda og veita henni sérstaka athygli enda dregur jákvæð hegðun úr agavandamálum, þar á meðal einelti. Langtímaáhrif refsinga vegna eineltis eru ekki kunn en þær geta haft neikvæð áhrif á skólabraginn og minnkað líkur á að nemendur tilkynni einelti. Viðbrögð skólans eiga að kenna nemendum hvernig hægt er að draga úr og leysa félagsleg vandamál en ekki refsa þeim.

Þörf er á að byggja upp vitund og skilning á einelti og mismunandi leiðum til að fást við félagsleg vandamál innan skólasamfélagsins. Með því er hægt að byggja upp þekkingu og færni meðal fólks til að fyrirbyggja, greina og bregðast á árangursríkan hátt við einelti.

Tillögur og ráðleggingar:

1.       Forvarnastefna, áætlanagerð og hagnýt ráð
Skólayfirvöld ættu að halda úti öflugum stuðningi við kennara og alla þá sem koma að skólasamfélaginu þar sem þessir aðilar fá greinargóðar upplýsingar, stuðning og ráð til að fyrirbyggja, greina, tilkynna og takast á við stafrænt einelti. Það er svo hlutverk kennara að hvetja nemendur til að styðja þolendur eineltis og byggja upp það viðhorf að stafrænt einelti verði ekki liðið.

2.       Skilningur og færni (competencies)
Nauðsynlegt er að skólar móti sér stefnu í eineltilsmálum og ákveði hvaða aðferðum og leiðum sé beitt við inngrip í þau. Við slíkt þarf að miða við aldur. Til dæmis hafa eldri nemendur nokkuð meiri skilning og þekkingu á internetinu en þeir sem yngri eru. Þess vegna þarf að veita yngri nemendum meiri tæknilega aðstoð og kennslu.

Jákvæður agi, samvinnunám og lausnaleit í ágreiningsmálum eru leiðir sem hægt er að nota við gerð forvarnastefnu, áætlana, til að stuðla að jákvæðri notkun tækni og bættum aðferðum við íhlutun í stafræn eineltismál. Í skólum eru góðar aðstæður til að efla samskipti á netinu og stafræna borgaravitund.

3.       Samstarfsaðilar
Allir aðilar skólasamfélagsins, kennarar, foreldrar og nemendur þurfa að sameinast í að vinna gegn stafrænu einelti. Þegar upp kemur eineltismál, ættu þessir aðilar að hafa samband innbyrðis og vinna saman að því að upplýsa það. Það ætti ekki að vera spurning um hvar ábyrgðin liggi, hvort það sé skólans eða foreldaranna, mestu skiptir hvernig tekið er á stafrænum eineltismálum og að það sé sameiginlegt verkefni skóla og foreldra.

4.       Félagslegt umhverfi
Skólar ættu að byggja upp og viðhalda jákvæðum skólabrag með því að efla og stuðla að góðum samskiptum nemenda og starfsfólks. Starfsfólk og félagar þurfa að öðlast þekkingu og færni til að geta brugðist rétt við og stutt þá sem verða fyrir stafrænu einelti. Þess konar viðbrögð eru líkleg í skólum þar sem fólk mætir jákvæðu viðhorfi, því sýnt traust og stuðningur og þar sem línur eru skýrar um viðbrögð við rafrænum eineltismálum.

Nemendur þurfa að fá þjálfun í því hvernig þeir tilkynna rafrænt einelti því oft segja þeir ekki frá því þegar slík mál koma upp af ótta við að lokað verði á aðgengi að netinu. Reglur varðandi slíkt þurfa að vera jákvæðar, ekki er gott að beita refsingum.

 Sjónarmið kennara
Kennarar og annað starfsfólk skóla gegnir lykilhlutverki við að draga úr einelti í einni eða annarri mynd. Þar sem eineltismálum er veitt lítil athygli eða lítið er gert í þeim, er líklegt að þau viðhaldist og jafnvel aukist.

Skýr stefna og aðferðir eru nauðsynlegar til að styðja við kennara í stöðugum inngripum þeirra í aðstæður sem tengjast árekstrum og einelti. Rannsóknir sýna að þegar ekki er gripið inn í með skýrum hætti og þegar þörf er á og málin tilkynnt, bendi það til þess að starfsfólk hafi ekki hlotið viðeigandi leiðsögn og stuðning til að fást við slík mál. Setja þarf skýr viðmið um hegðun og viðbrögð við ofbeldi og einelti. Þessi mál þarf að ræða meðal starfsfólks og innan skólasamfélagsins og byggja upp þekkingu á málinu og tryggja stöðugt aðhald og inngrip þegar þörf er á.

Starfsfólk skóla þarf að fá sérfræðilega fræðslu um eineltismál svo það öðlist nægilegt öryggi til að styðja nemendur í eineltismálum og við það sem tengist þeim. Þess konar þjálfun þarf að vera hluti af viðbragðsáætlun skólans varðandi þessi málefni. Yfirleitt er meirihluti starfsfólks mótfallinn einelti og því finnst það bera ábyrgð á að fyrirbyggja eða leggja sitt af mörkum til að draga úr einelti í skólanum. Oft hefur starfsfólk skólanna þörf fyrir aukna þjálfun og fræðslu til að takast á við eineltismál.

Tengsl nemenda og kennara, persónuleiki kennarans, s.s. stuðningur og hlýja tengist einnig viðhorfum nemenda til eineltis og bekkjaranda. Léleg bekkjarstjórnun (sjónarmið nemenda) eykur líkur á að nemendur leggi aðra í einelti og öfugt. Jákvæð bekkjarstjórnun sem tekur til eineltismála og þar sem ákvæði um einelti er í bekkjarreglum minnka líkur á eineltishegðun.

Stafrænt kynslóðabil á milli nemenda og kennara getur verið mikil hindrun varðandi aðstoð kennara við nemendur sem verða fyrir stafrænu einelti. Hætt er við að meirihluti kennara hafi ekki nægilega þekkingu á upplýsingatækni og skorti öryggi við að greina og bregðast við stafrænum eineltismálum.

Samræður og samstarf foreldra og kennara vegna eineltismála stuðla að jákvæðum skólaanda. Slík samskipti eru nauðsynleg og ættu að vera með reglulegum hætti, þau auðvelda foreldrum að ræða við börn sín um málefni sem tengjast einelti, sérstaklega stafrænu einelti enda fer það oftast fram utan skólatíma.

Tillögur og ráðleggingar

1.       Forvarnastefna, áætlanagerð og hagnýt ráð
Skólayfirvöld þurfa að sjá kennurum fyrir menntun og stuðningi svo þeir viti hvernig bregðast á við þegar stafrænt einelti kemur upp. Byggja þarf á áreiðanlegum og nákvæmum upplýsingum þannig að skólasamfélagið viti hvernig á að bregðast við á árangursríkan hátt. Jafnframt er mikilvægt að skólayfirvöld veiti kennurum stuðning og geri þeim kleift að að taka faglega á stafrænu einelti og meta árangur aðgerða gegn því.

2.       Skilningur og færni (competencies)
Kennarar þurfa að gangast undir sérstaka þjálfun til að geta gripið inn í aðstæður á fagmannlegan hátt þegar stafrænt einelti kemur upp. Mikilvægt er að kennarar fái fræðslu um það hvernig fólk hegðar sér mismunandi eftir því í hvaða hópi þeir eru hverju sinni (group dynamic), einnig ættu þeir að fá þjálfun í að leysa ágreiningsmál. Skólayfirvöld ættu með reglulegu millibili að meta þarfir starfsfólks fyrir sérfræðilega þekkingu á viðbrögðum við stafrænu einelti þannig að hægt sé að veita því viðeigandi þjálfun og kennslu. Til dæmis þurfa kennarar að vera færir um að upplýsa nemendur um stafrænt einelti og siðareglur á netinu og gætu því þurft að fara á námskeið til þess.

3.       Samstarfsaðilar
Kennarar þurfa að vera virkir í samstarfi og stofna tengsl við foreldra til að tryggja nána samvinnu. Þeir þurfa einnig að ákveða hvernig þeir vinna með foreldrum þegar stafrænt einelti kemur upp, hafa samband við foreldra þegar það á við og efla vitund þeirra og samfélagsins um stafrænt einelti.

4.       Félagslegt umhverfi
Kennarar þurfa að vera virkir í að byggja upp jákvætt andrúmsloft í bekknum og koma á jákvæðum tengslum við nemendur sína. Þeir þurfa einnig að hvetja og aðstoða þá nemendur sem eru stuðningsaðilar þolenda stafræns eineltis og að stöðva aðra nemendur sem á einhvern hátt standa með gerendum í stafrænu einelti. Þar að auki eiga kennarar að hvetja nemendur til að tilkynna hegðun sem leiðir af sér stafrænt einelti. Náin tengsl kennara og nemenda stuðla að jákvæðum bekkjaranda og skólabrag. Við slíkar aðstæður eru vandamál oft augljós og auðveldara að leysa ágreining og vanda sem upp kemur á milli nemenda en þar sem neikvæðni ríkir.

Nemendur eru í lykilstöðu og gegna mikilvægu hlutverki við að afhjúpa stafrænt einelti í skólum. Það þarf því að virkja þá sem aðstoðarkennara/rannsakendur í skólum. Kennarar ættu að nýta sér möguleika sem gefast til að kynna sér hvernig nemendur nota internetið.

Heimildir:

Working Group 3 of COST Action IS0801. (e.d.).  Guidelines for preventing cyber-bullying in the school environment: a review and recommendations. Sótt af: https://sites.google.com/site/costis0801/guideline