Samskipti

Finna þarf jafnvægi á milli ótal samskiptatóla, ótakmarkaðs aðgengis og hraðra samskipta annars vegar og öruggra og viðeigandi samskipta hins vegar. Hin stafræna bylting hefur valdið umtalsverðum breytingum á möguleikum fólks til samskipta, til dæmis með tölvupóstum, textaboðum, myndboðum og á samskiptamiðlum. Fólk getur nú verið í stöðugum samskiptum við nánast hvern sem er. Þetta gefur aukin tækifæri til samvinnu og samskipta en mikilvægt er að kunna hvernig á að taka réttar ákvarðanir um slík samskipti.

Rafræn umferð upplýsinga

Það hefur orðið bylting í rafrænum samskiptum

 • Nú er hægt að hafa samskipti við annað fólk, sama hvar maður er staddur.
 • Fjarlægð milli fólks hefur lítil áhrif á möguleikann til samskipta.
 • Hægt er að vera í samskiptum við fólk sem er utan daglegra samskipta og fólk sem ekki væri hægt að hafa samskipti við á annan hátt. 

Þessu fylgja margvíslegir möguleikar:

 • Hægt er að deila upplýsingum í tengslum við nám og kennslu.
 • Býður upp á fjarnám og kennslu, og að vinna að heiman.
 • Hægt er að deila upplýsingum og reynslu á bloggsíðum eða á samskiptamiðlum.


En ýmislegt þarf að varast og hafa í huga:

 • Munið að allt sem sett er á netið skilur eftir sig slóð. Það er jafnvel hægt að finna tölvupóst og blogg sem hefur verið eytt. Passið að setja ekkert á netið sem þið viljið losa ykkur við síðar.
 • Flestir samskiptamiðlar gera notendum kleift að forðast einstaklinga sem notandinn skilgreinir.

Ráðleggingar:

 • Hugsið á jákvæðum nótum. Neikvæð ummæli um fólk eða félagsskap getur haft margar neikvæðar afleiðingar. Varist einnig að særa annað fólk eða ráðast að því. Hér gildir að hugsa fyrst og framkvæma síðar.
 • Ekki setja upplýsingar um persónulega hagi á netið. Það sem er ætlað einum, getur í raun farið mjög víða og komist í hendur margra.
 • Notið samskiptatæknina á viðeigandi tíma. Það er ekki alltaf við hæfi (og jafnvel ókurteisi) að stunda samskiptamiðla í skólanum, í vinnunni eða við önnur félagsleg tækifæri (í afmælum, á tónleikum o.s.frv.).
 • Samþykkið ekki vinabeiðnir frá fólki sem þið þekkið ekki, jafnvel þótt þið eigið sameiginlega kunningja.
 • Viðeigandi rafræn samskipti eru samskipti sem eru örugg og samfélaginu til góða.


Stafræn samskipti í skólastofunni
Það er erfið ákvörðun að nota snjalltæki og rafræna samskiptamiðla í kennslu enda felur slíkt í sér áskoranir til jafns við tækifæri. Hér gildir að vera góð fyrirmynd í jákvæðum og viðeigandi samskiptum og kenna hvers konar samskipti eru viðeigandi við ólík tækifæri.

Möguleikar í kennslu:
Hægt er að nota stafræna samskiptamiðla með skemmtilegum og jákvæðum hætti í skólum. Þannig geta nemendur haft samskipti við kennara sína og samnemendur.  Nota má vefsvæði s.s. bloggsíður, wiki síður, google docs og fleira til samvinnuverkefna og til að deila verkefnum nemenda með öðrum. Einnig er hægt að nota bloggsíður, tölvupósta og aðra rafræna miðla til að miðla upplýsingum og eiga samskipti við foreldra. Möguleikar eru á samskiptum við nemendur í öðrum löndum sem getur dýpkað nám í mörgum greinum s.s. tungumálum og samfélagsgreinum þótt möguleikarnir séu í raun óþrjótandi hvað þetta varðar.  Margir íslenskir skólar hafa til dæmis tekið þátt í eTwinning verkefni Evrópusambandsins en í þeim vinna nemendur að sameiginlegum verkefnum með nemendum í öðru landi.

Áskoranir:
Nemendur nota snjallsíma til að senda skilaboð á milli sín sem stundum geta verið óviðeigandi ummæli um samnemendur og kennara. Einnig er hægt að nota samskiptamiðla til að mynda klíkur með því til dæmis að mynda hópa sem sumir eru útilokaðir frá. Truflanir geta verið af völdum síma þegar þeir hringja í tímum og nemendur svara skilaboðum, taka og senda myndir, svindla á prófum, eða nota símann á annan óviðeigandi máta.
 Skólar þurfa að gera sér áætlun um hvernig á að taka á slíkum málum og hvernig best er farið að því að tryggja að nemendur temji sér viðeigandi samskipti og uppbyggilega notkun samskiptamiðla.

Heimildir:
Ribble, M., & Bailey, G. (2007). Digital Citizenship in Schools.Eugene, OR: ISTE.

Tenglar:
eTwinning síða Evrópusambandsins
Íslensk upplýsingasíða um eTwinning 
Upplýsingar um eTwinning hjá Rannís