Réttindi og ábyrgð

Um réttindi og frelsi sem notendur stafrænnar tækni hafa og væntingarnar um ábyrga hegðun sem fylgja því.
Valdi fylgir ábyrgð og það á við um netnotkun eins og annað. Borgarar netsamfélagsins eiga rétt á einkalífi, tjáningarfrelsi o.s.frv. en frelsinu fylgir ábyrgð. Þessa þætti þarf að ræða og móta í hinu stafræna samfélagi og skilja mörk frelsis og ábyrgðar.

Það er óhætt að segja að netið hafi gífurleg áhrif á okkar daglega líf. Við erum ekki lengur bara að skoða, versla, stunda bankaviðskipti, bóka flug eða leita upplýsinga á netinu. Þar sem samskipta tækifæri hafa aukist til muna erum við að hitta og kynnast fólki og í stöðugum samskiptum við vini okkar á netinu. Eins og í öðrum samskiptum þá þurfum við að gæta þess vel hvað við segjum og bera virðingu fyrir samborgurum okkar. Hafa ber í huga að það sem farið er á netið getur reynst ómögulegt að taka til baka. Við getum heldur ekki treyst því að þó við fjarlægjum efni af netinu, sé ekki einhver sem hefur vistað það hjá sér.

Réttindi
Netið er uppspretta fróðleiks og skemmtunar, sé það notað á jákvæðan hátt. Þar fá börn þó aðgang að alls kyns óæskilegu efni. Barnasáttmáli sameinuðu þjóðanna fjallar um rétt barna til uppbyggjandi upplýsinga sem og rétt barna til verndar gegn skaðlegu efni. Í 17. gr. Barnasáttmálans segir:

17. gr.
Aðildarríki viðurkenna mikilvægi fjölmiðla, og skulu þau sjá um að barn eigi aðgang að upplýsingum
og efni af ýmsum uppruna frá eigin landi og erlendis frá, einkum því sem ætlað er að stuðla að félagslegri,
andlegri og siðferðislegri velferð þess, og líkamlegu og geðrænu heilbrigði. Aðildarríki skulu í þessu skyni:
a) Hvetja fjölmiðla til að dreifa upplýsingum og efni sem börn njóta góðs af félagslega og menningarlega
og samræmist anda 29. gr.
b) Stuðla að alþjóðlegri samvinnu við undirbúning, skipti og dreifingu á slíkum upplýsingum og efni af
fjölbreyttum uppruna, menningarlegum, þjóðlegum og alþjóðlegum.
e) Stuðla að því að mótaðar verði viðeigandi leiðbeiningareglur um vernd barns fyrir upplýsingum og efni
sem skaðað getur velferð þess, með ákvæði 13. og 18. gr. í huga.
  Umboðsmaður barna

Friðhelgi einkalífs
Í 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, sbr. 9. gr. laga nr. 97/1995, segir að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Friðhelgi einkalífs er skilgreint á eftirfarandi hátt í athugasemd með 9. gr. frumvarps til stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995:

„Í friðhelgi einkalífsins felst fyrst og fremst réttur manns til að ráða yfir lífi sínu og líkama og til að njóta friðar
um lífshætti sína og einkahagi. Jafnframt er litið svo á að tilfinningalíf og tilfinningasambönd við aðra njóti
verndar samkvæmt ákvæðinu.“
Umboðsmaður barna

Foreldrar sem birta myndir af börnum sínum eða setja inn upplýsingar um þau á netinu verða að hafa það í huga að barnið hefur sinn sjálfstæða rétt til friðhelgi einkalífs.  Því er mikilvægt að allir átti sig á því að við njótum tjáningarfrelsis en við erum jafnframt ábyrg orða okkar. Réttur okkar til að tjá okkur, takmarkast af rétti annarra til að njóta friðhelgi einkalífs.

Við eigum öll rétt á að vernda persónulegar upplýsingar okkar. Flestar samskiptasíður bjóða upp á stillingarmöguleika þar sem við getum sjálf stjórnað hvaða upplýsingar aðrir sjá. Við getum einnig tryggt okkur enn frekar með því að birta ekki persónulegar upplýsingar á netinu eins og t.d. heimilisfang og símanúmer okkar. Þá getum við verndað okkur enn frekar með því að hafa sterk lykilorð og breyta þeim oft.

Förum varlega þegar við gefum persónulegar upplýsingar um okkur á netinu. Það er nauðsynlegt að vita alltaf hvað maður er að gera á netinu og í hverju maður er að taka þátt. Förum varlega í samskiptum við fólk sem við þekkjum ekki nema í gegnum netið.

Ábyrgð
Við berum ábyrgð á því sem við segjum og gerum. Það á við um netið eins og allt annað.  Aðalatriðið er að við berum virðingu fyrir sjálfum okkur og öðrum á netinu og verndum okkur sjálf og aðra. Ef vinur eða einhver nálægt okkur er að upplifa eitthvað slæmt á netinu, hvetjum hann þá til að tilkynna það og leita stuðnings til einhvers sem hann getur treyst. Við þurfum og eigum að bregðast við ef við rekumst á vefsíður eða annað efni sem er móðgandi, klúrt eða ólöglegt. Ef við höldum að efni geti verið ólöglegt eða okkur finnst það óviðeigandi, getum við tilkynnt það á síðu Barnaheilla. Þá hafa flestar samskiptasíður hnapp sem hægt er að smella á og tilkynna um móðgandi eða ógnandi efni á síðunni.

Börn og unglingar hafa gjarnan óraunsæjar hugmyndir um það hverjir það séu sem skoða innlegg þeirra á netinu. Mikilvægt er að ræða þessi mál, því öllum þarf að vera ljóst að það sem fer á netið eru opinber gögn sem allir hafa aðgang að. Hver sem er getur skoðað efnið og tekið afrit. Það er því mikilvægt að kenna börnum ábyrga meðferð upplýsinga.

Foreldrar bera aðalábyrgð á uppeldi og velferð barna sinna. Í 94. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 segir að foreldrum beri „eftir því sem í þeirra valdi er, að vernda börn gegn ofbeldis- og klámefni eða öðru slíku efni, m.a. með því að koma í veg fyrir aðgang þeirra að því“. Það er ákaflega mikilvægt að foreldrar leiðbeini og fylgist með tækninotkun barna sinna, fræði þau um réttindi og skyldur þeirra á netinu og setji snemma reglur varðandi netnotkun barna sinna.

Menntakerfið hefur ákveðnum skyldum að gegna þegar kemur að fjölmiðlalæsi. Í almennum hluta aðalnámskrár grunnskóla 2011 er fjallað um grunnþætti menntunar sem fléttast eiga inn í allt skólastarf. Einn af grunnþáttunum sex er læsi. Í umfjöllun um læsi segir m.a.:

„Hugtakið miðlamennt vísar til skólastarfs þar sem nemendur nota ýmsa miðla við nám sitt og læra í leiðinni sitthvað um notagildi þeirra og áhrif á menningu og lýðræði. Markmiðið er að þeir læri að leggja mat á miðlað efni en fái einnig þjálfun í að nota ýmsa miðla við efnisgerð og þekkingarsköpun. Orðið miðlalæsi er haft um þá færni og kunnáttu sem þeir öðlast við það nám sem í þessu felst.“

Það er jafn mikilvægt fyrir okkur að bera virðingu fyrir sjálfum okkur eins og öðrum . Við verðum að vera meðvituð um eigið stafrænt orðspor. Vöndum okkur og verndum þannig stafrænt mannorð okkar. Það er á okkar ábyrgð að hefta ekki réttindi annarra eða á nokkurn hátt taka þátt í hegðun sem er skaðleg öðrum. Það er auðvelt að nota netið til að særa annað fólk. Hugsum okkur vel um áður en við segjum eitthvað eða setjum efni á netið og höfum það í huga að koma fram við aðra eins og við viljum láta koma fram við okkur.

Helstu lög og reglur um netnotkun
Það eru ekki til nein sérstök lög eða opinberar reglur um netnotkun eða samskipti fólks á netinu. Lög og almennar kurteisisvenjur eiga að sjálfsögðu að gilda um samskipti fólks á netinu eins og annars staðar. Í einstaka tilvikum þarf að líta til almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en í XXV. kafla laganna eru ákvæði um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs. Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 9. gr. laga nr. 97/1995 og lögum um persónuvernd og verndun persónuupplýsinga nr. 77/2000 er kveðið á um persónuvernd og friðhelgi einkalífs.

Picture

SAFT
SAFT – Samfélag, fjölskylda og tækni er vakningarátak um örugga tækninotkun barna og unglinga á Íslandi. Verkefnið er hluti af Safer Internet Action Plan, aðgerðaáætlun Evrópusambandsins um öruggari netnotkun og er styrkt af ESB. Á heimasíðu SAFT er meðal annars fjallað um góðar netvenjur og þar er að finna Netorðin 5. Þau eru til þess hugsuð að vera leiðarstef í daglegri netnotkun og veita okkur góðan grunn fyrir betri netmenningu.

  1. Allt sem þú gerir á netinu endurspeglar hver þú ert
  2. Góð samskipti eru jafnmikilvæg á netinu og annars staðar
  3. Ekki taka þátt í neinu sem þú veist ekki hvað er
  4. Mundu að þú skilur eftir þig stafræn spor á netinu
  5. Þú berð ábyrgð á því sem þú segir og gerir á netinu


Þá hefur SAFT einnig gefið út bæklinginn Tíu netheilræði og eru foreldrar, forráðamenn og starfsmenn skóla hvattir til að gefa sér góðan tíma í að ræða netheilræðin við börnin.