Öryggi

Hvað ber að varst á netinu og hvernig byggja þarf upp öryggisvitund barna  sem og annarra stafrænna borgara

Þær tölulegu upplýsingar sem koma fram hér á eftir eru fengnar úr skýrslunni EU Kids Online:
Risks and safety on the internet: The perspective of European children
 sem byggir á viðtölum
við rúmlega 25 þúsund börn og foreldra þeirra í 25 Evrópulöndum. Sjá heimildir neðst á síðunni.


Hér á eftir verður fjallað um öryggi gagnvart hinum ýmsu hættum sem fylgja því að vera virkur borgari í netvæddum heimi. Alveg eins og það getur verið hættulegt að ferðast, eða einfaldlega að fara fram úr rúminu á morgnana, þá getur verið hættulegt að fara í hina ýmsu leiðangra á netinu. Hætturnar eru þó annars eðlis en í raunheimum og kenna þarf börnum að þekkja þær og varast eftir því sem hægt er.

Það verður ekki aftur snúið. Samkvæmt nýjustu rannsóknum er netnotkun orðin samofin lífi barna og beint eftirlit foreldra með netnotkun barna er í hröðu undanhaldi. Börn á aldrinum 11-16 ára eyða að meðaltali 88 mínútum á netinu á dag, 49% þeirra fara á netið í herberginu sínu og 33% fara á netið í símanum sínum eða öðru fartæki. Netnotkun er bæði að verða aðgengilegri og persónulegri en áður var.

Hvað er svona hættulegt á netinu?
Börn, eins og annað fólk, notar netið í margvíslegum tilgangi í leik og starfi. Nánst öll fara börn á á netið til að afla upplýsinga eða vinna skólaverkefni. 86% þeirra horfa á myndskeið eða sækja aðra afþreyingu á netið. 75% þeirra nota netið til samskipta af ýmsu tagi en þar með er talin ýmisskonar þátttaka á samfélagsvefjum. 56% barnanna nota netið til að leika við einhvern og skiptast á skrám við aðra en aðeins 23% barnanna nota netið í skapandi tilgangi, það er til að búa til eigið efni á netinu, nota spjallþræði, blogga eða skiptast á eigin efni við aðra.

Á einu ári er áætlað að 40% allra barna á aldursbilinu 11-16 ára hafi leitað að nýjum vinum á netinu og 34% þeirra hafa samþykkt vinabeiðnir barna sem þau hafa aldrei hitt. 16% þeirra hafa villt á sér heimildir á netinu og 15% hafa sent persónuleg skilaboð til einhvers sem þau hafa aldrei hitt. 14% hafa meira að segja sent mynd eða myndskeið af sjálfu sér til einhvers sem þau hafa aldrei hitt í raunheimum.

Picture

Tækifæri og áhætta fara saman
Aukin netnotkun barna og unglinga er tvíeggjað sverð, því tækifærin sem í henni felast og áhættuþættir fara saman. Stefna skóla og yfirvalda að auka aðgengi barna að netinu getur þannig líka aukið áhættuna sem fylgir netnotkun barnanna. Á móti má segja að viðleitni til að auka netöryggi barna geti dregið úr tækifærum þeirra til að læra á heiminn.

Gefa þarf börnum tækifæri til að prófa sig áfram við myndun sambanda við annað fólk á netinu  og til að móta sína eigin netlægu sjálfsmynd. Þetta er mikilvægt fyrir börn til að læra að takast á við heim fullorðinna í framtíðinni – að gera þau að virkum stafrænum borgurum. Þessum tækifærum fylgir áhætta sem óprúttnir aðilar eða önnur börn geta nýtt sér meðvitað eða ómeðvitað til þess að skaða þann sem ekki kann fótum sínum forráð á netinu.

Það er staðreynd að mörg börn sem ekki hafa aldur til eru að nota samfélagsmiðla eins og Facebook en jafnvel þó þau séu orðin 13 ára er þar ýmislegt að varast. Samfélagsmiðlar hjálpa börnunum að eiga samskipti sín á milli en börnin hafa mörg hver ekki nægilega færni til að stýra friðhelgi sinni sem skyldi. Svo dæmi sé tekið hafa 27-29% barna persónulegar vefsíður opnar öllum og mörg þeirra kunna ekki að blokka aðra notendur, en það getur verið mikilvæg aðgerð til að losna undan óæskilegu áreiti.

Aðkoma forelda og kennara – öryggisvitund er lykillinn!
Það er þess virði að foreldrar og kennarar blandi sér í netnotkun barna en slík inngrip þurfa að taka tillit til aldurs barnanna sem um ræðir. Börnin eru yfirleitt jákvæð í garð aðhalds að hálfu foreldra sinna eða kennara, en hafa þarf í huga að mörg börn hunsa fyrirmæli. Rannsóknir sýna að börn foreldra sem viðhafa strangar reglur um netnotkun lenda síður í áhættu á netinu en þau fá að sama skapi færri tækifæri til að læra og leika sér.

Eftir því sem börnin eyða meiri tíma á netinu því betri verða þau í stafrænu læsi en á sama tíma verða þau líklegri til að reyna hluti sem fylgir meiri áhætta. Eftir því sem netnotkun barnanna verður persónulegri (til dæmis með símum eða öðrum snjalltækjum) er óraunhæft að foreldrar geti haft eftirlit með netnotkuninni. Það hjálpar að foreldrar séu líka virkir á netinu og geti rætt þær hættur sem þar eru við börnin sín.

Lykilatriðið er að ræða við börnin og fræða þau um hugsanlegar hættur sem fylgir netnotkuninni og hvetja þau til samræðu um hana. Segja má að hálfur sigur sé unninn ef barn treystir sér til að leita til forráðamanns þegar eitthvað kemur upp á.

Ranghugmyndir og villandi staðreyndir um netnoktun barna
Ýmsar fullyrðingar, sem sumar eru ranghugmyndir, eru á kreiki um netnotkun barna og sumar valda því að foreldrar hafa of lítið eða jafnvel of mikið eftirlit með netnotkun barna sinna. Hér eru nokkrar fullyrðingar sem gott er að velta fyrir sér.

 • Börn vita allt um tölvur og netið.
  Eldra fólk hefur tilhneigingju til að halda að börn viti allt um tölvur og netið, þar sem börnin virðast oft vita meira en eldri kynslóðin um helstu nýjungar og tískustrauma. Það þýðir ekki að börnin viti endilega um allt sem þarf að varast á netinu.
 • Facebook er bannað börnum undir 13 ára aldri.
  Það er rétt en rannsóknir sýna að 38% yngri barna hafa samt aðgang að Facebook.
 • Allir eru að horfa á klám á netinu.
  Áhorf barna á klám er óverulegt samkvæmt rannsóknum.
 • Þeir sem leggja í einelti á netinu eru vondir.
  Af þeim sem leggja aðra í einelti hafa 60% sjálfir lent í einelti sem bendir til lærðrar hegðunar þeirra sem að þessu standa. Taka þarf á einelti á heildstæðan hátt óháð netnotkun barnanna.
 • Börn eru að hitta ókunnugt fólk á netinu.
  Eitthvað er um það en 87% teljast til kunningja eða fjölskyldu barnanna.
 • Áhættuþættir utan netsins eru að færast yfir á netið.
  Þetta er að hluta rétt. Til dæmis eru fíkniefni og stolnir hlutir seldir á netinu. Almennt séð eru áhættuþættir á netinu þó ekki tengdir áhættuþáttum í raunheimum.
 • Það hjálpar að setja tölvuna í almenningsrými.
  Þetta ráð kemur fram víða, meðal annars í íslenskum bæklingum frá SAFT, en getur reynst til lítils ef börnin hafa aðgang að netinu í gegnum símtæki, spjaldtölvur eða aðra tækni. Fyrir eldri börnin ætti frekar að leggja áherslu á vitundarvakningu um öryggisþætti og byggja upp traust svo börnin þori að leita sér aðstoðar þegar þörf er á.
 • Það að kenna stafræna færni dregur úr áhættu.
  Já og nei. Því meiri færni sem börnin búa yfir þeim mun líklegri eru þau til að reyna áhættusamari atriði á netinu. Mikilvægt er að kenna börnum rétt viðbrögð við því sem aflaga getur farið samhliða því að færni og áræðni þeirra vex.
 • Börn komast framhjá öryggisbúnaði eins og netsíum.
  Færni barna til að komast framhjá öryggisbúnaði er ofmetin. Aðeins 28% barna á aldrinum 11-16 ára kann að slökkva á netsíum svo dæmi sé tekið.
Picture

Ráð til foreldra og kennara
Eftirfarandi er samantekt yfir nokkur ráð sem foreldrar, og eftir atvikum kennarar, geta gripið til með það markmið að draga úr áhættu af netnotkun barna. Lykilatriðið er samt öryggisvitund foreldra, kennara og barna ásamt því að byggja upp traust í samskiptum svo að börnin geti leitað til fullorðinna sama hvað fer úrskeiðis í netnotkun þeirra.

 • Setjið tölvuna í almenningsrými.
  Eins og sagði hér að ofan ber að hafa í huga að þetta virkar ekki ef börn hafa annan aðgang að netinu,
  svo sem í gegnum símtæki eða spjaldtölvur.
 • Kenna þarf börnum almenna umgengni við tölvur.
  Kynna þarf hættur við það að opna viðhengi og hlaða niður skrám.
  Útskýra þarf þörf fyrir vírusvarnir og fleira.
  Notið ruslpóstsíu til að lágmarka áhættu á að vafsöm viðhengi séu opnuð
 • Stofnið sérstakan notanda í tölvunni fyrir hvert barn og settu foreldrastjórnun (parental controls) á þann notanda.
 • Skoðaðu hvaða síur eru í boði í vafranum sem notaður er (family settings).
  Athugaðu samt að síur geta hindrað barnið í að finna efni sem það þarf á að halda til dæmis vegna skólaverkefna.
 • Vísið krökkum á að nota barnvænar leitarvélar eins og kids.yahoo.com og askforkids.com
 • Settu slóðir sem barnið þitt fer oft inn á í eftirlæti (favourites).
 • Hvettu börnin til að láta vita strax og tölvan fer að haga sér undarlega.
 • Leitaðu sjálf(ur) skýringa um leið og eitthvað undarlegt virðist vera í gangi í tölvunni.
 • Gættu þess að vírusvarnir séu uppfærðar reglulega.
 • Gott er að taka afrit af tölvunni með reglubundnum hætti svo hægt sé að endurheimta gögn ef eitthvað fer verulega úrskeiðis.
 • Kenndu börnunum að passa upp á lykilorðin sín.
 • Kenndu börnunum að stýra aðgangi að persónuupplýsingum sínum, sér í lagi á samfélagsvefjum.

Heimildir:
Livingstone, S., Haddon, L., Görzig, A. og Ólafsson, K. (2011). Risks and safety on the internet: the perspective of European children. London. 
SAFT – Samfélag, fjölskylda og tækni. (2014, e.d.). Foreldravísir – Gerðu börnin þín örugg á Netinu! Reykjavík. 
SAFT – Samfélag, fjölskylda og tækni
Insafe

Myndir á síðunni eru fengnar af Wikimedia Commons og eru utan höfundarréttar.