Námsefni fyrir skóla

Hörðuvallaskóli

Í Hörðuvallaskóla í Kópavogi hefur verið unnið mikið og gott starf á vegum upplýsingatæknikennara en á hverju hausti frá árinu 2007 hefur markvisst verið unnið að því að gera nemendur ábyrga fyrir hegðun sinni á netinu. Eins og fyrirkomulagið er í dag, kemur upplýsingatæknikennarinn í eina kennslustund hvers bekkjar einu sinni á haustin til að ræða hversu miklu máli ábyrg netnotkun skiptir. Misjafnt er eftir aldri hvernig fræðslunni er háttað og sífellt er bætt við fyrri þekkingu. Bekkjarkennari er ávallt með þegar fræðslan stendur yfir til þess að hann geti haldið áfram að vinna með hana en einnig til þess að börnin fái ekki misvísandi skilaboð. Foreldrafélagið bað upplýsingatæknikennarann um að halda fræðsluerindi fyrir foreldra til að upplýsa þá um fræðsluna sem nemendur fá í skólanum. Einnig er þetta gert til að efla samstarf heimilis og skóla og til þess að allir séu á sömu blaðsíðu. Kennarinn hefur einnig samráð við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu á haustin til að fá upplýsingar um það hvað er helst að koma inn á borð til þeirra, t.d. nafnlausar spjallsíður o.fl. og vinnur fræðslu sína út frá því.

Dæmi um útfærslu: Kennarinn komst að því að nemendur gátu engan veginn tengt við íslensku þýðinguna á “Digital Citizenship” sem Stafræn Borgaravitund og tók kennarinn því á það ráð að hóa saman nemendum á mismunandi aldri og reyna að finna út hvaða þýðing gæti hentað fyrir þau. Það varð úr að orðið Netborgari var notað þar sem kennarinn gat útskýrt fyrir nemendum að í raunverulega heiminum væru þau íslenskir ríkisborgarar og að þau yrðu að finna út sambærilegt orð fyrir veru sína á netinu.

Á yngsta stigi er farið yfir það hvað ber að varast frekar en hvernig ber að hegða sér og eru tekin dæmi úr vinsælum leikjum á borð við Club Penguin þar sem börn geta spjallað saman. Bent er á að börnin viti í raun aldrei við hvern þau eru að tala og þeim er sýnt myndband þar sem þetta kemur berlega í ljós, einnig hvað ber að varast út frá því. Því miður er leikurinn Club Penguin þar sem hægt er að spjalla á netinu, gósenland fyrir “perra”, þeir reyna að komast að því í hvaða skóla börnin eru og fleira.
Club Penquin svæðið reynir eftir bestu getu að stýra og fylgjast með og er með sérstakt foreldrasvæði en samt komast þeir sem ætla sér það þarna inn.

Börn þurfa að sjá og heyra raunverulega atburði til að geta sett sig í þau spor að það skipti máli hvernig við hegðum okkur á netinu og því auðvelda svona frásagnir og myndbönd fræðsluna og kemur jafnvel af stað umræðum.

Myndbönd um “Lee and Kim” henta mjög vel til að ná til yngstu barnanna. Yngri börnunum er sagt að ef þau eru að horfa á eitthvað með öðrum og geti ekki sjálf slökkt en það er eitthvað sem þeim finnist ógeðslegt að horfa á, þá eigi þau að standa upp og fara. Oft kemur það fyrir að börn frjósa og geta hreinlega ekki slökkt og þá getur þetta haft mikil áhrif á þau. Hún bendir litlu krökkunum einnig á að maður geti orðið hræddur og geti hreinlega ekki ýtt á stopp ef það er eitthvað sem þau vilja ekki horfa á en þá er gott að hafa kennara sem hefur ekki fordóma fyrir svona hlutum en hlustar á börnin til að aðstoða þau. Þetta fer svo í ákveðið ferli þar sem vinna þarf úr svona hlutum ef börn hræðast það sem þau hafa verið að horfa á og skammast sín.

Þegar búið er að ræða við allt yngsta stigið er foreldrum boðið í skólann og fá þeir sömu fræðslu og börnin en að auki heldur meira. Foreldrum er bent á að fylgjast vel með netnotkun barna sinna og skilja þau aldrei eftir ein heima með netaðgang, það sé allt of mikil ábyrgð. Sláandi tölur sýna hversu margir barnaníðingar eru á netinu á hverjum tíma, einnig að vinsælasta flettiorðið á netinu er “sex”. Meðalaldur barna sem leita að kynlífssíðum á netinu er einungis 11,7 ár svo það er eins gott að vera vel vakandi. Foreldrum er bent á hversu margir níðingar noti netið til að finna fórnarlömb sín og allt of mörg börn þegja yfir því ef þau hafa lent í einum slíkum.

Í 5. og 6. bekk ræðir kennarinn um það að börnin þurfi að vera meðvituð um myndbirtingar og hvað þau segja í skrifuðum texta. Myndbirtingar og texti sem maður setur á netið lýsir innri manni.  Í 7. til 10. bekk talar kennarinn um að ekki sé hægt að afsaka hegðun nemenda sem bernskubrek. Þau fá þá aukna fræðslu og kennarinn talar meira um það hvernig á að hegða sér á netinu og vera ábyrgur í staðinn fyrir hvað ber að varast. Kennarinn benti á bókina Digital Citizenship in Schools eftir Jason Ohler og telur hana mjög góða í þessu sambandi. Eftir lestur þeirrar bókar hefur ýmislegt breyst í fræðslunni þar sem hún opnaði nýja sýn fyrir kennaranum. Í seinni hlutanum af bókinni eru einnig verkefni sem eru þess virði að skoða og hefur kennarinn hug á að nota þau með nemendum sínum. Í fræðslu mið- og efsta stigs er farið út í að tala um Facebook, Instagram og fleiri síður og börnum og foreldrum bent á mikilvægi þess að stilla síður sínar þannig að hver sem er hafi ekki aðgang að þeim. Allt sem þú setur á netið, ER Á NETINU!

Eldri nemendum er jafnframt bent á að þegar kemur að því að sækja um atvinnu skipti miklu máli hvernig hegðun viðkomandi hafi sýnt á netinu. Ferilskráin ein og sér skipti ekki eingöngu máli í dag heldur fótsporin sem þú skilur eftir þig á netinu, þar sem þau sýna innri mann. Í síauknum mæli eru fyrirtæki farin að skoða spor umsækjenda á netinu og þá skiptir máli að orðsporið sé gott.

Í dag nota unglingar síma sína mikið og eru sífellt að senda myndir á milli. Kennarinn ræddi því við unglingana og benti þeim á að gott væri að hafa lokað fyrir möguleika á að senda myndir nema á ákveðnum tímum svo þeir væru ekki að senda myndir í tíma og ótíma og ekki alltaf kannski að hugsa um af hverju/m myndin væri. Myndsendingar geta komið sér illa. Einnig gera nemendur sér ekki grein fyrir því hvað hægt er að lesa út úr því sem þeir setja á netið, það er hægt að finna allt sem þau hafa sett þar inn og setja í samhengi, fínt myndband sem sýnir nákvæmlega það:

Foreldrar þessara barna fengu einnig sömu fræðslu og börnin en einnig fleira efni sem hentar eingöngu fyrir foreldra. Hér eru myndbönd sem foreldrum eru sýnd:
Foreldramyndband 1
Foreldramyndband 2
Foreldramyndband 3

Til að útskýra fyrir nemendum hvað getur komið fyrir ef þau passa sig ekki á netinu, er oft tekið fyrir mál sem kom fram í íslenskum netmiðlum þar sem ung stúlka var kærð og sektuð fyrir ummæli sem hún viðhafði. Þá sjá nemendur hversu alvarlegt það getur verið ef maður ekki passar hvað maður segir á netinu. Eitt dæmi var um móður sem verið hafði í Ipadinum sínum og gleymt að skrá sig út. Ungur sonur hennar fór svo í Ipadinn og fór í leik. Þar var hægt að kaupa sig upp um stig og að sjálfsögðu gerði hann það sem endaði svo í svimandi háum reikningi sem móðirin þurfti að borga.

Í samhengi við þessa fræðslu benti kennarinn á samtökin ISTE og ráðstefnur á þeirra vegum og mælir hann eindregið með bókinni Digital Citizenship in schools til að styðja við netöryggis fræðslu, einnig notast hann mikið við bresk myndbönd, sum fyrir foreldra, sum fyrir sig og önnur fyrir nemendur. Hér er slóð á eina af síðunum.

Heimildir: Elínborg Anna Siggeirsdóttir.