Læsi

Læsi fjallar um möguleikana sem stafræn tækni býður upp á og þekkingu á því hvenær og hvernig á að nota hana. Mikilvægt er að vita hvernig nám fer fram í stafrænu umhverfi. Nemendur þurfa að skilja að lærdómur getur farið fram hvenær sem er, hvar sem er og um hvað sem er. Til þessa þarf hæfni til að leita upplýsinga, flokka þær og meðhöndla. Á vinnustöðum er tæknin notuð til samskipta, til að deila upplýsingum og til að afla upplýsinga. Mikilvægt er að mennta fólk svo það verði læst á upplýsingar og geti notað þá tækni sem hentar við öflun og deilingu þeirra.

Miðlalæsi

Árið 2011 kom út ný aðalnámsskrá fyrir þrjú fyrstu skólastigin, leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Þó það sé ekki skólaskylda í leikskóla voru samkvæmt vef Hagstofu Íslands  95% allra 5 ára barna í leikskóla árið 2012 svo eðlilegt er að margir telji leikskóla vera fyrsta skólastigið. Í þessari stuttu grein verður aðallega fjallað um stafræna borgaravitund og tengsl hennar við miðlalæsi út frá aðalnámsskrá framhaldsskólanna þó svo að umræðan þurfi ekki að einskorðast almennt við það eina skólastig. Sú menntastefna sem er birt í nýju aðalnámskránni er reist á sex grunnþáttum menntunar sem notaðir eru sem leiðarljós við námskrárgerðina en þeir eru þeir læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun.

Hugtakið læsi í víðum skilningi felur meðal annars í sér miðlalæsi (digital literacy).  Hér er ein möguleg skilgreining:
Í miðlalæsi (media literacy) felst sú færni og kunnátta sem tengist fjölbreyttri miðlanotkun, annars vegar hæfni til að meta og greina fjölmiðlaefni og ýmiss konar upplýsingar, og hins vegar geta til að búa til og miðla efni með margvíslegum aðferðum, jafnt í formi prentmáls sem annarra tjáningarmiðla.

Þó svo skólum hafi orðið vel ágengt með innleiðingu á upplýsingatækni er víða óplægður akur. Sífellt þarf að endurskoða á hvaða tækni skuli kenna og hvernig henni ætti að beita. Ný tækni er sífellt að ryðja sér til rúms í atvinnulífinu og þá tækni sem er ekki endilega alltaf notuð í skólum eins og t.d. ráðstefnur á netinu og sameiginleg vettvangssvæði eins og Wiki. Þar að auk i þurfa starfsmenn í mörgum greinum atvinnulífsins að geta sótt upplýsingar í rauntíma (just-in-time information). Þetta ferli kallar á háþróaða hæfni við að afla sér upplýsinga og vinna úr þeim. Kenna þarf nemendum hvernig þeir geta lært í samfélagi upplýsingatækninnar eða með öðrum orðum, kenna þarf nemendum hvernig þeir geta lært hvað sem er, hvenær sem er og hvar sem er. Viðskipti, hernaður og læknavísindi eru allt mjög góð dæmi um það hvernig tækninni er beitt á 21. öldinni. Á meðan ný tækni hefur innreið sína,  þurfa nemendur að læra að nota hana á fljótan og viðeigandi hátt. Stafræn borgaravitund felur í sér menntun fólksins á þennan nýja hátt, með það fyrir augum að hinn almenni borgari þarf að vera mjög vel upplýstur og vel tölvulæs.

Á Íslandi er ekki lögð bein áhersla á stafræna hæfni sem sjálfstæðan lykilþátt í nýjum námskrám grunn- og framhaldsskóla en þessi áhersla kemur að nokkru  fram  í  grunnþáttunum  læsi (í  víðum  skilningi)  og  í  sköpun.  Ef til vill virðist stafræn borgaravitund ekki fljótt á litið tengjast hinum grunnþáttunum,þó má deila um það vegna þess að sjálfir grunnþættirnir og lykilhæfni sem er byggð á þeim tengjast ákveðnum böndum. Í aðalnámskrá segir m.a. um lýðræði og mannréttindi:

„Forsenda lýðræðis er samábyrgð, meðvitund og virkni borgaranna sem gerir þá færa um að taka þátt í að móta samfélag sitt og hafa áhrif nær og fjær. Viðhorf, gildismat og siðferði eru ríkir þættir í lýðræðismenntun. Virkur borgari býr yfir vitund um eigin ábyrgð, lýðræði, gagnrýna hugsun, umburðarlyndi, jafnrétti, mannréttindi og ber virðingu fyrir skoðunum og lífsgildum annarra“ .

Áðurnefnd tilvísun er grundvallaratriði varðandi heilbrigða notkun á nútíma samfélagsmiðlum eins og facebook, twitter, bloggsíðum og víðar þar sem fólk tjáir sínar tilfinningar, rök og skoðanir á netinu. Sem dæmi má nefna er að oft er mikið  um sleggjudóma og niðrandi ummæli á samskiptavefjum t.d. á athugasemdakerfinu visir.is

Notkun samfélagsmiðla á netinu eru oft nefnt hið nýja læsi. Mjög skiptar skoðanir eru um notkun samfélagsmiðla eins og facebook, twitter og fleiri í námi.  Facebook er dæmi um samskiptavef þar sem auðvelt er að mynda tengslanet en þau eru víða ekki vel séð þar sem þau eru sögð vera notuð aðallega í afþreyingarskyni og dragi úr einbeitingu og afköstum fólks. Fyrir vikið er notkun þeirra stundum bönnuð á einstaka vinnustöðum eða skólum. Slíkt bann hefur þó þann ókost að einstaklingar verða af reynslu og þekkingu sem verður við myndun tengslaneta og samskipta þar sem aðilar þess opna fyrir möguleika á því að notendur njóti upplýsinga og fróðleiks hver frá öðrum og myndi þannig þekkingu.

Upprunalega hafði læsi þá merkingu að viðkomandi aðili gæti stautað sig sæmilega í gegnum texta og gæti skrifað nokkuð skammlaust.  Nú á dögum er litið svo á að læsi hafi mun víðari merkingu. Í nýju aðalnámskránni er bent á að tveir einstaklingar þurfi ekki endilega að leggja sömu merkingu í texta með stöðluðu letri eða aðrar upplýsingar. Læsi felur það í sér að skapa hlutunum merkingu og sú merking á sér aldrei stað í tómarúmi.

Eftirfarandi tilvitnun úr aðalnámsskrá lýsir vel þeim beinu tengslum sem eru á milli stafrænnar borgaravitundar og læsis í víðum skilningi:

Það eru ekki aðeins rannsóknir á læsi sem hafa breytt afstöðu fólks til þess heldur hefur stafræn tækni breytt því umhverfi þar sem ritun og lestur eiga sér stað. Tölvur og stafræn samskiptatæki teljast víða ómissandi þáttur í daglegu lífi fólks, heima jafnt sem á vinnustað, og þykja orðið sjálfsögð verkfæri í skólastarfi. Þar skiptir það höfuðmáli að tölvurnar eru ekki aðeins öflug ritvinnslu- eða reikningsverkfæri heldur tól sem má nota til fjölþættrar merkingarsköpunar, t.d .með notkun myndmáls. Nemendur og kennarar þurfa því ekki að binda sig við prentmálið heldur býður tölvutæknin upp á að þeir noti fleiri mál við nám og kennslu. Nú geta þeir rætt það, við undirbúning athugunar eða verkefnavinnu af ýmsu tagi, með hvaða hætti sé skynsamlegt að afla efnis og vinna úr því .

Við þessar aðstæður hafa orðið til heiti á borð við stafrænt læsi, miðlamennt og miðlalæsi. Hið stafræna læsi vísar til þeirrar kunnáttu sem fólk þarf að tileinka sér til þess að geta notað tölvu- og nettækni til samskipta og efnissköpunar af ýmsu tagi. Það snýst um orð jafnt sem ljósmyndir, prentað mál jafnt sem tónlist, og það varðar allt litróf efnisumsýslunnar, þ.e. aðföng, úrvinnslu og miðlun .

Hugtakið miðlamennt vísar til skólastarfs þar sem nemendur nota ýmsa miðla við nám sitt og læra í leiðinni sitthvað um notagildi þeirra og áhrif á menningu og lýðræði. Markmiðið er að þeir læri að leggja mat á miðlað efni en fái einnig þjálfun í að nota ýmsa miðla við efnisgerð og þekkingarsköpun. Orðið miðlalæsi er haft um þá færni og kunnáttu sem þeir öðlast við það nám sem í þessu felst.“ (Aðalnámskrá 2011, bls 17)

Oft eru ekki til neinar staðlaðar reglur eða viðmið um það hvernig eigi að bregðast við atburðum sem gerast á netinu eða hvort það eigi að bregðast við þeim yfir höfuð. Því er nauðsynlegt að nemendur jafnt sem aðrir fái þjálfun í því að ræða og taka afstöðu til siðferðislegra álitamála því oft er skynsemin í raun eina svarið. Þegar erfið mál koma upp í mannlegum samskiptum hvort sem þau eru stafræn eða ekki, þá er kannski best að hafa sem meginreglu það sem Kristur kenndi okkur: „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skulið þér og þeim gjöra“.

Heimildir: 

  1. Anna Guðrún Sigurvinsdóttir og Sólveig Jakobsdóttir. (2010). Fésbók í skólastarfi – boðin eða bannfærð? Netla – veftímarit um uppeldi og menntun, 9(2). Sótt 21. apríl  2014 af http://netla.khi.is/menntakvika2010/001.pdf
  2. Sólveig Jakobsdóttir. (2011). Nýting upplýsingatækni í kennslu. Símenntun og starfsþróun kennara í og með upplýsingatækni. Tölvumál, 36(1), 7-8. Sótt 21. apríl 2014 af http://www.sky.is/images/stories/Tolvumal/2011_proof_loka.pdf
  3. Stefán Jökulsson, 2012. Læsi. Grunnþáttur í menntun á öllum skólastigum. Mennta- og menningarmálaráðuneyti, Námsgagnastofnun.
  4. Aðalnámskrá framhaldsskólanna (Mennta og menningamálaráðuneytið 2011)
  5. Lúkasarguðspjalla 6:31 , Biblían (guð má vita hver höfundur hennar er)
  6. Vefur Hagstofofu Íslands – skólamál, leikskólar. Sótt 21. apríl 2014