Heilsa og velferð

Líkamleg og sálræn heilsa í tengslum við notkun stafrænnar tækni. Tölvunotkun getur valdið álagi á líkamann, til dæmis augu (skjábirta), hendur (vegna músarnotkunar) og líkamann allan (vegna rangrar líkamsstöðu). Sálrænt álag hefur einnig færst í aukana og má þar nefna dæmi um netfíkn. Notendur þurfa að læra að tækninni fylgja hættur og með stafrænni borgaravitund verður til menning þar sem notendur læra að vernda sjálfa sig gegn andlegu og líkamlegu álagi. 

Líkamleg og sálræn heilsa

Regluleg hreyfing fyrir heilsuna er mikilvæg og þeir sem hreyfa sig reglulega geta komið í veg fyrir ýmsa sjúkdóma, stoðkerfisvandamál og geðröskun. Regluleg hreyfing eykur líkurnar á að fólk lifi lengur en kyrrseta getur haft slæmar afleiðingar fyrir heilsu fólks. Tækniþróun undanfarinna áratuga hefur stuðlað að gríðarlegum framförum á mörgum sviðum en um leið hefur dregið úr því að hreyfing sé eins eðlilegur hluti af daglegu lífi og áður var. Ýmsar vísbendingar eru um að kyrrseta hafi aukist í daglegu lífi landsmanna. Þar má nefna vaxandi ofþyngd meðal fólks. Hreyfing minnkar með hækkandi aldri, stúlkur hreyfa sig minna en drengir, taka síður þátt í íþróttastarfi og detta fyrr út. Ungmenni af báðum kynjum hreyfa sig minna um helgar en á virkum dögum og langvarandi kyrrseta við afþreyingu við sjónvarps- og tölvuskjái er áhyggjuefni. Slík hegðun hefur verið tengd við minni hreyfingu, ofþyngd og félagslega einangrun. Tölvuleikir sem fela í sér hreyfingu eru vissulega æskilegri en aðrir tölvuleikir þegar litið er til heilbrigðis.  Á þá ætti að líta sem viðbót fremur en staðgengil annarrar hreyfingar í frítíma. Hvort sem um er að ræða börn, unglinga eða fullorðna er æskilegt að takmarka þann tíma sem er varið í afþreyingu við skjá.  Með því fæst líka tími sem hægt er að nýta sér til útivistar, leikja og íþróttaiðkunar með fjölskyldu og vinum.

Tölva og sjónvarp eru aðgengilegir afþreyingarmöguleikar og er auðvelt að leggjast fyrir framan sjónvarpið eða kveikja á tölvunni í stað þess að fara út að leika. Krakkarnir hafa fundið sér nýjan vettvang til að koma saman og leika sér. Þeir hittast á spjallrásunum, skrifa blogg eða vafra um á netinu og samskiptin þeirra eru því orðin stafræn. Þarna spjalla þeir saman um áhugamálin, hvort þeir eigi að hittast, hvað þeir eigi að gera og senda myndir og slóðir á skemmtilegar vefsíður.

Tölvur og netsamskipti gegna sífellt stærra hlutverki í lífi barnanna og margir foreldrar hafa áhyggjur af þessu. Sérstaklega þegar um börn er að ræða sem eiga fáa vini eða jafnvel enga og leita sér afþreyingar og samskipta á Netinu. Það þarf að kenna barninu að umgangast tölvuna og  setja því tímamörk.

Fræðimenn eru sammála um að börn sem eru mikið í tölvu sýni ákveðin einkenni eins og almennt áhugaleysi um heilsu sína sem veldur sinnuleysi um:

 • hreinlæti og næringu 
 • fráhvörf
 • kvíði
 • þunglyndi þegar barnið kemst ekki í tölvuna
 • einmanaleiki
 • minnkandi félagsleg samskipti

Líkamleg einkenni birtast einnig eins og:

 • tölvutitringur
 • pirringur og ásláttarhreyfing í fingrum eftir mikla notkun á stýripinna
 • augnþurrkur
 • sinaskeiðabólga
 • verkir í höndum, úlnliðum, hálsi, baki og öxlum vegna áreynslu
 • mígreni
 • doði og sársauki í þumli, vísifingri og löngutöng vegna áreynslu á lyklaborði.
 • svefntruflanir


Rannsóknir staðfesta að regluleg hreyfing gegnir lykilhlutverki fyrir heilsu og vellíðan. Hreyfing er einnig tengd öðrum heilbrigðum lífsháttum eins og góðu mataræði.

Dæmi um daglega hreyfingu í samræmi við ráðleggingar
Mikilvægt er að hvetja börn og unglinga til að ganga, hjóla eða nýta almenningssamgöngur í og úr skóla eftir því sem á við. Þátttaka í ýmiss konar leikjum veitir góða hreyfingu í frímínútum. Eins er betri kostur að ganga um og spjalla heldur en að gera slíkt sitjandi. Ef börn hreyfa sig lítið og veigra sér jafnvel við að taka þátt í íþróttatímum er mikilvægt að foreldrar og kennarar leiti viðeigandi lausna í samráði við börnin. Regluleg hlé til að teygja úr sér og hreyfa sig, ekki síst þegar unnið er við tölvur, auka blóðstreymi um líkamann og minnka líkurnar á stoðkerfisvandamálum, svo sem verkjum í vöðvum eða liðum. Slík hlé geta einnig verið gagnleg til að losa um óróleika og skerpa athygli.

Gott er að hafa í huga að algengt er að hreyfing minnki með hækkandi aldri. Því þarf ekki síður að hvetja og styðja unglinga til að hreyfa sig daglega en þá sem yngri eru.

Í ráðleggingum frá Lýðheilsustöð er bent á að:

 • Öll börn og unglingar ættu að hreyfa sig minnst 60 mínútur daglega.
 • Hreyfingin ætti að vera eins fjölbreytt og mögulegt er.
 • Börn og unglingar ættu ekki að verja meira en tvær klukkustundir á daglega
  í tölvuleiki eða aðra afþreyingu sem fer fram á skjá, við tölvu eða sjónvarp.

  Æskilegt er að hafa fjölbreytni og gleði að leiðarljósi.


Hvað geta skólarnir gert?
Einn af grunnþáttum í skólastarfi er heilbrigði og velferð. Heilbrigði byggist á andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan sem ræðst af flóknu samspili einstaklings, umhverfis og aðstæðna. Skólaíþróttir gegna mikilvægu hlutverki í heilsuuppeldi og heilsurækt nemandans allan grunnskólann. Nemendur þurfa að taka ákvarðanir um eigið heilbrigði og þurfa þeir að öðlast skilning á þeim áhrifum sem tækni m.a. getur haft áhrif á heilsu þeirra og líðan. Skólinn er með öflugt forvarnarstarf og fræðslu og kennarinn á að vera virkur í að ræða um forvarnir við nemendur sína og grípa hvert tækifæri sem gefst.

Hvað geta foreldrar gert?
Rannsóknir sýna að börn sem eru í nánum tengslum við foreldra sína eru síður líklegri en önnur börn til að eiga við sálræn og félagsleg vandamál að stríða. Foreldrar eru börnum mikilvægir og sterkar fyrirmyndir og eru lykilaðilar í félagslegu stuðningsneti þeirra. Það er því mikilvægt hlutverk foreldra og forráðamanna að veita börnum sínum félagslegt taumhald sem nær út fyrir eiginlegar samverustundir foreldra og barna.

Tenglar á gagnlegar síður:
Saft
Neteinelti
Heimili og skóli
Landlæknir
Doktor.is
Aðalnámskrá Grunnskóla
Ungt fólk 2013

Heimildir:
Digital Citizenship Policy Developement Guide Wieland, DM (2005). Computer Addiction: Implications for Nursing Psychotherapy Practice. Perspectives in Psychiatric Care. Vol.41(4),Oct-Des 2005.

Netávani

Picture

Skilgreining á orðinu netávani (Internet Addictive Behaviour, IAB) er þegar hegðun einkennist af stjórnlausri internet notkun. Sú hegðun getur leitt til þess að einstaklingurinn einangrast frá samfélaginu, dragi sig út úr allri félagslegri og námslegri virkni, missi áhuga á hverskonar tómstundum sem hefur að lokum einnig áhrif á heilsu einstaklingsins.

Einn af þeim þáttum sem skipar stóran sess í þroska einstaklingsins er að öðlast sjálfstæði. Flestir unglingar sækjast eftir auknu sjálfstæði á unglingsárunum og er það einfaldlega hluti af því að þroskast og verða fullorðinn. Unglingar í dag hafa aukinn aðgang að interneti í gegnum ýmisskonar fartækni.  Meirihluti unglinga á snjallsíma og eru meira eða minna tengdir interneti allan sólahringinn. Það reynir því snemma á sjálfstæði þeirra og að læra að velja og hafna þegar kemur að öllu því óteljandi efni sem í boði er á internetinu.

Niðurstöður rannsóknar  um netávana
Hér verður fjallað stuttlega um niðurstöður rannsóknar sem rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) tók þátt í með fræðimönnum í sex öðrum löndum Evrópu. Löndin sem tóku þátt í þessu verkefni auk Íslands voru: Pólland, Þýskaland, Holland, Rúmenía, Grikkland og Spánn. Verkefnið var stutt af internetöryggisáætlun ESB og hafði vinnuheitið EU NET ADB. Markmið rannsóknarinnar var að meta algengi og áhrifaþætti netávana.

Þátttakendur í rannsókninni voru rúmlega 13.000 ungmenni á aldrinum 15-16 ára en þar af voru rúmlega 2000 unglingar frá Íslandi.

Markmið rannsóknarinnar var að kanna hversu algengur netávani væri á meðal ungmenna í Evrópu. Einnig var þróun netávana skoðuð og metin. Niðurstöðurnar átti svo að nýta til að auka vitund almennings um netávana og auka þekkingu svo hægt væri að auka forvarnir.

Notaðar voru bæði eigindlegar og megindlegar aðferðir í rannsókninni og voru spurningalistar sendir á um 13.300 þátttakendur á aldrinum 14-17 ára. Gagnaöflun fór fram frá október 2011 – maí 2012. Viðtöl voru tekin við þá þátttakendur sem sýndu merki um netávana eftir að hafa svarað spurningalistunum. Tekin voru 124 viðtöl samtals, allt að 20 viðtöl í hverju landi.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að 1.2% þátttakenda sýndi merki um netávana en 12,7% þátttakenda voru í áhættu á netávana. Þeir notendur sem voru sítengdir internetinu voru í aukinni hættu á að þróa með sér mögulega óheilbrigða nethegðun. Einnig sýndu niðurstöður rannsóknarinnar að Rúmenía, Grikkland og Spánn voru með hærri tíðni á mögulegri óheilbrigðri netnotkun en Ísland, Holland og Þýskaland.

Varðandi hegðun á internetinu kom í ljós að:

 •  92% allra þátttakenda voru með að minnsta kosti eina samskiptasíðu eins og t.d. facebook.
 •  Tæp 40% unglinganna eyddu að minnsta kosti tveimur klukkustundum á hverjum virkum degi á samskiptasíðum.
 •  Stelpur notuðu frekar samskiptasíður en strákar


Einnig kom í ljós að tæp 6% þátttakenda stunduðu fjárhættuspil á internetinu en tæp 11% í raunveruleikanum. Unglingar sem stunda fjárhættuspil eru þrisvar sinnum líklegri til að sýna merki um óheilbrigða netnotkun.

Varðandi tölvuleikjanotkun kom í ljós að rúmlega 60% þátttakenda spila tölvuleiki, en unglingar sem spila tölvuleiki eru tvisvar sinnum líklegri til að sýna merki um óheilbrigða netnotkun. Fylgni mældist á milli þess að spila tölvuleiki í meira en 2,6 klukkustundir á hverjum degi og óheilbrigðrar netnotkunar. Einnig leiddi rannsóknin í ljós að strákar eru líklegri til að ofnota eða ánetjast tölvuleikjum.

Veruleiki ungs fólks breytist hratt og er internetið einn af þeim þáttum sem hvað stærstan þátt skipa í lífi margra ungmenna. Internetið er síbreytilegt og nær ógjörningur að fylgjast með öllum þeim nýjungum sem þar eru. Mikilvægt er fyrir foreldra og kennara að reyna eftir fremsta megni að fylgjast með þeim heimi sem unglingarnir þeirra lifa og hrærast í. Með því eru meiri líkur á að hægt sé að grípa inn í óæskilega nethegðun og fækka um leið þeim unglingum sem stunda óheilbrigða netnotkun.

Nánari niðurstöður úr rannsókninni má sjá hér
Einnig má hér sjá samantekt úr rannsókninni fyrir unglinga á Íslandi eingöngu