Hvað er stafræn borgaravitund?

Til að hægt sé að útskýra stafræna borgaravitund þarf fyrst að gera sér grein fyrir því hvað stafrænn borgari er. Stafrænn borgari, stundum líka kallaður netborgari, er sá eða sú sem notar upplýsingatækni til þátttöku í samfélagi. Til þess notar stafræni borgarinn tölvur, snjallsíma og önnur stafræn tæki. Dæmi um notkun upplýsingatækni til þátttöku í samfélagi eru bloggskrif, notkun samfélagsmiðla, þátttaka í félagsstarfi, þátttaka í pólitísku starfi og önnur rafræn samskipti. Einstaklingur verður stafrænn borgari um leið og hann/hún notar tölvupóst, kaupir eitthvað yfir netið, setur myndir á netið eða tekur þátt í netsamfélagi á annan hátt. (Þýtt og staðfært)

Stafræn borgaravitund næst þegar netborgari þekkir bæði rétt sinn og skyldur, og notar netið á ábyrgan hátt.

Börn eru komin með snjalltæki í hendurnar og farin að nota öpp áður en þau kunna að lesa. Krakkar hefja þátttöku í netsamfélagi mjög ungir og oft án þess að foreldrar þeirra verði þess varir, enda eru snjalltæki á flestum heimilum og í vasa barnanna. Börn eru því orðnir stafrænir borgarar á ungs aldri. Við vitum að netnotkun hefur ýmsar hættur í för með sér og því er mikilvægt að notendur netsins kunni að þræða þá stíga sem um það liggja en gæti um leið öryggis og heilsu, séu læsir á upplýsingar og samskipti sem þar fara fram og sýni sjálfum sér og öðrum virðingu.

Börn og unglingar eyða stórum hluta dagsins utan skólatíma í tölvu, snjallsíma, spjaldtölvu eða öðru tæki þar sem þau hafa aðgang að miklum upplýsingum og geta verið í samskiptum við nánast hvern sem er. Þau eru þannig í raun borgarar í tveimur samfélögum, samfélagi á netinu og samfélagi utan netsins. Skólar hafa hingað til ekki tekið tæknina í sína þágu nema að takmörkuðu leyti og í raun er skýr aðskilnaður á milli skóla og daglegs lífs nemenda hvað þetta varðar. Ýmis vandkvæði eru á því að taka tæknina upp í skólum. Þó eru margir skólar farnir að spreyta sig á að nota tölvur og snjalltæki við almenna kennslu og vilja fara þá leið að nýta þessa tækni og minnka þannig aðskilnað skóla og daglegs lífs nemenda. Einnig er bent á að atvinnulífið sé orðið tæknivætt að miklu leyti og ef nám eigi að undirbúa nemendur fyrir atvinnulífið þurfi að huga að þessum þætti. Kannanir benda einnig til þess að notkun snjalltækja auki áhuga nemenda á náminu. Það er því til mikils að vinna að skólar finni leiðir til að komast yfir þá þröskulda sem fylgja því að taka upp notkun snjalltækja í kennslu.

Það að taka tæknina inn í skólastarf felur í sér nýjar áskoranir. Það þarf að mennta nemendur í notkun hennar og ekki síst í því hvað það þýðir að vera borgari í netsamfélagi, þ.e.a.s. hvaða skyldur og ábyrgð fylgja því. Flest vitum við hvernig rétt er að haga sér í okkar áþreifanlega samfélagi. Við vitum hvað er rétt og rangt, enda hefur okkur verið kennt það í uppvextinum. Á sama hátt er mikilvægt að börnum (og fullorðnum) sé kennt að nota netið á ábyrgan máta þannig að enginn beri skaða af. Það er einmitt kjarninn í stafrænni borgaravitund; að nota netið á ábyrgan og viðeigandi hátt.

Til að ná betur utan um það hvað felst í stafrænni borgaravitund er henni víða skipt í níu þætti með vísan í Ribble og Baily (2007). Þessi níu þættir eru:

  1. Aðgengi: Full þátttaka í stafrænu samfélagi.
  2. Verslun: Kaup og sala á netinu.
  3. Samskipti: Rafræn umferð upplýsinga.
  4. Læsi: Þekking á því hvenær og hvernig viðeigandi er að nota stafræna tækni. 
  5. Siðferði: Siðgæðisvitund sem búist er við af notendum stafrænnar tækni.
  6. Lög og reglur: Lög og reglur sem gilda um tækninotkun .
  7. Réttindi og ábyrgð. Réttindi og frelsi sem notendur stafrænnar tækni hafa og þær væntingar um ábyrga hegðun sem fylgja því. 
  8. Heilsa og velferð: Líkamleg og sálræn heilsa í tengslum við notkun stafrænnar tækni. 
  9. Öryggi: Varrúðarráðstafanir sem hver og einn notandi þarf að gera til að tryggja öryggi sitt.

Um þessa níu þætti er fjallað nánar á þessari síðu og má sjá tengla í umfjöllun um þá á borðanum hér til vinstri. Þeir sem aðhyllast stafræna borgaravitund telja mikilvægt að skilja hvers vegna og hvernig skuli sýna ábyrgð við notkun tækninnar. Sú aðferð sé vænlegri til að ala upp ábyrga borgara en nota boð og bönn. Sérstaklega sé mikilvægt að stafræn borgaravitund verði hluti af skólamenningunni.

Picture

Heimildir:
Ribble, M., & Bailey, G. (2007). Digital Citizenship in Schools.Eugene, OR: ISTE.
Tenglar:
Digital Citizenship
iPad í Hvalfjarðarsveit