Umfang neteineltis á Íslandi

Reglulegir netnotendur á Íslandi eru um 95% íbúa á aldrinum 16-74 ára. Innan Evrópusambandsins er meðaltal reglulegra netnotenda 72% og eru Íslendingar með hæsta hlutfall sem mælist í Evrópu. Þannig má sjá að langflestir Íslenskir unglingar hafa aðgang að nettengingu. Því er þörf á eftirliti, fræðslu og samstöðu innan heimilis um umgengnisreglur.

Einelti er samfélagslegt vandamál sem hefur reglulega verið rannsakað hér á landi og erlendis. Í samantekt Gini og Pozzoli á 11 alþjóðlegum rannsóknum um neteinelti kom fram að 20-30% unglinga töldu sig hafa verið þolendur, gerendur eða hvoru tveggja.

Samkvæmt rannsókn Wang, Lanotti og Nansel á 7182 bandarískum grunnskólabörnum höfðu 13,6% unglinga tekið þátt í neteinelti. Þar sem netnotkun unglinga hefur stóraukist síðan þessi rannsókn var gerð má gera ráð fyrir að þessar tölur hafi hækkað.

Ársæll Arnarsson og Þóroddur Bjarnason rannsökuðu einelti á Íslandi á árunum 2006 til 2010 með því að senda spurningalista til grunnskólanemenda í 6. 8. og 10. bekk. Nemendur voru spurðir hvort þeir væru lagðir í einelti, hefðu lagt aðra í einelti eða hvoru tveggja. Í ljós kom að 8,9% nemenda töldu sig vera þolendur eineltis en 2,4% gerendur.

Skólapúlsinn hefur síðan 2011 rannsakað líðan nemenda í grunnskólum þar sem tíðni eineltis er meðal annars mæld. Nýlega var bætt við einni spurningu um neteinelti en ennþá hefur hún ekki verið nýtt í tölfræðilegri úrvinnslu. Kerfisbundnar rannsóknir á neteinelti eru á byrjunarstigi hér á landi og umfang þess virðist mögulega vera vanmetið. Álykta má að með aukinni netnotkun Íslendinga verði neteinelti algengara, þörf er því á frekari rannsóknum og áhrifaríku forvarnarstarfi.