Sýnum gott fordæmi

Ef barn verður vart við neikvæða og meiðandi hegðun forráðamanna sinna á netinu gæti það farið að taka upp á því sama eins og að senda frá sér niðrandi athugasemdir sem geta orðið að neteinelti. Gott fordæmi forráðamanna getur því skipt sköpum þegar kenna á barni hvernig umgangast skal netið. Samkvæmt barnalögum nr. 76/2003 3 mgr. 28 gr. felur forsjá barns í sér skyldu forráðamanna til að vernda barn sitt gegn andlegu og líkamlegu ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi. Forráðamönnum ber því að afla barni sínu fræðslu og ala með því iðjusemi og siðgæði. Barnasáttmálinn og fleiri alþjóðlegir mannréttindasamningar kveða á um að börn á Íslandi eigi rétt til verndar. Ef börn lenda í einelti eiga þau rétt á inngripi og vernd fyrir áframhaldandi einelti. Forráðamenn leggja línurnar með sinni eigin hegðun og því er jákvæð netnotkun á heimilinu mikilvæg. Að sama skapi ber forráðamönnum skylda til að bregðast við hvers kyns óæskilegri hegðun og grípa í taumana. Ef óforráða barn setur inn efni sem fellur undir meiðyrðalög gæti það átt yfir höfði sér kæru og eru það forráðamenn sem bera þá ábyrgð. Samtöl í uppeldisskyni eru því gríðarlega mikilvæg.