Hvernig skal bregðast við?

Góð og náin samvinna heimila og skóla skiptir miklu þegar bregðast þarf við neteinelti, rétt eins og í öðrum eineltismálum. Börn leita oft fyrst til forráðamanna sinna þegar þeim er strítt eða þau verða fyrir einelti.

Forráðamenn hafa besta möguleikann á að fylgjast með líðan barna sinna og eru því oft fyrstir til að sjá hættumerki. Gott væri fyrir forráðamenn að hafa eineltisáætlun viðkomandi skóla í huga þegar eineltismál koma upp. Sama gildir um viðbrögð þegar neteineltismál koma upp en bestur árangur fæst þegar börn fá sömu skilaboð bæði frá heimili og skóla.

Ef barnið mitt verður fyrir einelti

Það getur verið erfitt fyrir forráðamenn að komast að því að barn þeirra sé lagt í einelti. Þeir verða oft reiðir, sárir og vita ekki hvernig á að bregðast við. Ef einelti á sér stað á skólatíma, eiga forráðamenn að hafa strax samband við skólann og við umsjónarkennara barnsins.

Ef umsjónarkennari fer ekki með málið lengra er næsta skref að leita til skólastjórnenda. Það er mikilvægt að gefast ekki upp þó þú fáir ekki hljómgrunn fyrir áhyggjum þínum þegar þú hefur grunsemdir um að einelti eigi sér stað. Forráðamenn verða að treysta eigin sannfæringu og leita lausna. Ekki óttast að þú sért að valda starfsfólki skólans ónæði því velferð barnsins sem skiptir mestu máli.

Börn sem lenda í einelti þróa oft með sér brotna sjálfsmynd. Það er því sérstaklega mikilvægt að vinna að uppbyggingu sjálfstrausts til dæmis með því að styrkja jákvæða eiginleika eða hæfileika. Það er ekki gott að ofvernda barnið en samt sem áður þarf að fylgjast vel með því og vera því til staðar.

Ef barnið mitt leggur í einelti

Ef skilaboð berast frá skóla eða annars staðar frá um að barn þitt sé gerandi í einelti þá er mikilvægt að taka á málinu undir eins. Það þarf að koma á jákvæðu samstarfi milli skóla og forráðamanna þolanda eineltisins. Til þess að hægt sé að vinna með vandamálið þarf að taka slíkum skilaboðum alvarlega þó svo að forráðamenn vilji oft ekki trúa neinu slæmu upp á eigin börn. Börn hegða sér oft á annan hátt í skólanum en heima hjá sér. Forráðamenn vilja vernda barn sitt og geta oft ekki ímyndað sér að barn þeirra sé gerandi í einelti og fara því í vörn eða afneitun. Að sama skapi koma upp tilfelli þar sem fregnir sem þessar koma forráðamönnum ekki á óvart, til dæmis ef barn þeirra á það til að sýna neikvæða hegðun. Forráðamenn verða því að vera virkir bæði í að vernda barn sitt og önnur börn gegn skaðlegri og óæskilegri hegðun.

Samkvæmt Kolbrúnu Baldursdóttur glíma gerendur eineltis oft við vanlíðan af einhverju tagi, hvort sem um er að ræða innan veggja heimilisins, skólaumhverfisins, vegna námsörðugleika eða annars. Því er mikilvægt að greina orsökina svo hægt sé að vinna með barninu í að uppræta vandann og vonandi þannig hægt að lágmarka þörfina eða hvötina til að legga í einelti.

Ef forráðamenn hins vegar eru meðvirkir eða í vörn þá vefst það fyrir og getur komið í veg fyrir úrlausn vandans. Forráðamenn eru lykilaðilar í því að vinna með orsakir og afleiðingar eineltis hjá börnum sínum, hvort sem þau eru þolendur eða gerendur. Mikilvægt er að heimilið sýni gott fordæmi og sú neikvæða hegðun, að leggja aðra í einelti, sé ekki liðin.

Það krefst hugrekkis forráðamanna að stíga fram þegar þeirra eigið barn er gerandi eineltis eða í eineltismálum og þeir gætu þurft á stuðningi að halda.