Hvað er neteinelti?

Með tilkomu netsins eru leikvellir og skólalóðin ekki einu staðirnir þar sem gerendur eineltis geta náð til þolenda. Einelti á netinu hefur engin tímamörk því netið er aðgengilegt allan sólarhringinn. Gerendur leita því þangað til að áreita þolendur og geta náð til þeirra hratt, stöðugt og hvenær sem er. Þessi nýja tegund eineltis kallast neteinelti, rafrænt einelti eða stafrænt einelti. Hér verður notast við neteinelti. Sá tími er liðinn að börn geti falið sig fyrir kvölurum sínum með því að loka og læsa útidyrahurðinni þegar heim er komið. Árásirnar geta haldið áfram í gegnum net eða síma.

Ræðið við börnin ykkar um kosti og galla netsins, hætturnar og það sem ber að varast. Talið líka um hversu fræðandi netið getur verið, hvað það býður upp á marga möguleika og hvernig skuli umgangast það. Netið og netsamskipti breytast hratt og því er mikilvægt að forráðamenn barna og unglinga fylgist vel með og séu meðvitaðir um hvað sé að gerast.

Neteinelti er þegar símar, spjallforrit, tölvupóstar eða samfélagsvefir eru notaðir til að áreita, hóta eða ógna einhverjum endurtekið. Þar sem börn hafa stöðugt greiðari aðgang að tækjum með netaðgangi hefur neteinelti færst í aukana. Þeir aðilar sem ætla sér að leggja í neteinelti geta gert það með nafnleynd og því getur oft verið erfitt að finna gerendur. Einelti sem framkvæmt er í skjóli nafnleyndar er ekki minna skaðlegt en það einelti sem fer fram augliti til auglitis. Sú staða að vita ekki hver stendur að baki gerir fórnarlambið mun veikara fyrir en ella.

Markmið gerenda í öllu neteinelti er að koma með niðrandi og særandi athugasemdir í garð þolanda og dreifa svo þeim upplýsingum áfram til stærri hóps (Helga Lind Pálsdóttir, 2012). Ef einstaklingi er hótað oftar en einu sinni, hann niðurlægður eða honum send óviðeigandi skilaboð er það flokkað sem neteinelti (Smith, Mahdavi, Carvalho, Fisher, Russell & Tippett, 2008). Hefðbundið einelti á sér stað augliti til auglitis en í neteinelti geta gerendur verið undir nafnleynd þar sem tæknin er nýtt til þess að ná til fórnarlamba, til dæmis með símum eða tölvum (Demaray, 2013).

Margir átta sig ekki á því að þeir séu að beita aðra neteinelti. Gerendur eru ekki endilega slæmir einstaklingar. Sumir sem taka þátt í neteinelti ætla ekki að meiða aðra en vanlíðan þeirra brýst út í neikvæðri hegðun sem bitnar á þeim sem liggja vel við höggi (Kolbrún Baldursdóttir, 2011).

Aðrir sem leggja í neteinelti eru einstaklingar sem njóta þess að níðast á öðrum. Einnig má nefna gerendur sem hafa sterka félagslega stöðu en jafnframt mikil ógnandi áhrif á aðra og ná að draga fólk með sér í að beita neteinelti (Kolbrún Baldursdóttir, 2011). Þeir sem beita aðra neteinelti geta verið ólíkir og allstaðar að. Í þessum fjölbreytta hópi er fólk á öllum aldri og af báðum kynjum.

Í rannsókn Helgu Lindar Pálsdóttur (2012) Rafrænt einelti; skilningur og þekking unglinga kemur fram að til eru margar gerðir neteineltis. Hér er notast við sömu þýðingar á helstu hugtökum um þetta efni en auk þess er sótt til fleiri heimilda.

Netrifrildi (e. Flaming)

Þegar tveir eða fleiri einstaklingar eiga í dónalegum, niðrandi, móðgandi eða særandi samskiptum, jafnvel með hótunum.

Oftar en ekki byrja þessi netrifrildi sem eðlileg samskipti. Stundum bregst annar aðilinn illa við samskiptunum og svarar þeim til baka með reiðilegum athugasemdum sem geta orðið að persónulegum árásum. Það flokkast sem netrifrildi og getur leitt til neteineltis í kjölfarið (Williard, 2007; Li, 2010).

Mannorðsspjöll (e. Denigration)

Talað er um mannorðsspjöll þegar lygasögur eru búnar til og þeim dreift áfram um þolanda á netinu aðeins í þeim tilgangi að eyðileggja persónuleg sambönd og mannorð.

Ýmsar leiðir eru notaðar til að koma lygasögum áfram eins og með heimasíðum og tölvupósti. Þolandinn er yfirleitt sá síðasti til þess að heyra af þessum sögum. Tilgangur geranda er ekki að senda skilaboðin beint til þolandans heldur að koma þeim áfram til sem flestra svo hægt sé að valda sem mestum skaða (Williard, 2007). Það er auðvelt að búa til vefsíðu, finna mynd af einstakling, skrifa illskeyttan texta um viðkomandi svo sem lygasögu og birta.

Að lemja sér til ánægju (e. Happy slapping)

Hópur einstaklinga ræðst á þolanda og beitir hann líkamlegu ofbeldi eins og að slá og lemja. Sími með myndavél er hafður meðferðis til þess að hægt sé að taka upp atvikið. Um leið og atvikið er sett á netið þá margfaldast niðurlæging þolandans (Heiða Kristín Harðardóttir & Kristrún Birgisdóttir, 2009). Þannig bætist neteinelti við árásina því myndbandið getur hringsólað á netinu mánuðum saman.

Útskúfun (e. Exclusion)

Einstaklingur er útilokaður frá hópi á netinu (Kowalski, Limber & Agatston, 2008) og margir einstaklingar taka sig saman á sama tíma og eyða þolanda út af vinalistum sínum. Þolandi fær svo að vita af því að honum hefur verið eytt út af mörgum aðilum (Williard, 2007).

Unglingar telja þetta mjög erfiða aðstöðu og oft þá verstu sem getur komið upp, enda getur hún haft mikil neikvæð áhrif á sjálfsmynd þeirra (Carpenter & Fergusin, e.d.). Útskúfun getur verið mjög auðveld á samfélagsmiðlum eins og til dæmis Facebook þar sem vinalistinn er meginatriðið.

Persónueftirlíking (e. Impersonating)

Einstaklingar villa á sér heimildir á netinu og gerandinn þykist vera þolandinn. Gerandinn hefur náð að komast yfir notendanafn og lykilorð þolandans og villir þannig á sér heimildir, til dæmis í tölvupóstum eða með stöðuuppfærslum á Facebook. Upplýsingum um þolanda er oft breytt á niðurlægjandi hátt (Kowalski o.fl.).

Þannig getur gerandi til dæmis stefnt vinasamböndum þolanda í hættu.

Persónulegar leiðir, svo sem tölvupóstur, SMS og netskilaboð (e. Messages) eru notaðar til þess að koma miklu magni af ógnandi, særandi og niðrandi skilaboðum til þolanda (Li, 2010; Kowalski, o.fl., 2008).

Endurtekning er hér helsta vopnið því oft fær gerandi félaga sína í lið með sér til að gera það sama, í þeim tilgangi að fjöldi skilaboða aukist. Þannig margfaldast áreitið á þolandann í formi skilaboða og annarra árása (Carpenter & Ferguson, e.d). Netið bíður upp á ótakmarkaðar SMS sendingar þar sem einstaklingar geta sent undir nafnleynd.

Rafræn áreitni (e. Harassment)

Persónulegar leiðir, svo sem tölvupóstur, SMS og netskilaboð (e. Messages) eru notaðar til þess að koma miklu magni af ógnandi, særandi og niðrandi skilaboðum til þolanda (Li, 2010; Kowalski, o.fl., 2008).

Endurtekning er hér helsta vopnið því oft fær gerandi félaga sína í lið með sér til að gera það sama, í þeim tilgangi að fjöldi skilaboða aukist. Þannig margfaldast áreitið á þolandann í formi skilaboða og annarra árása (Carpenter & Ferguson, e.d). Netið bíður upp á ótakmarkaðar SMS sendingar þar sem einstaklingar geta sent undir nafnleynd.

Rafræn áreitni stendur yfirleitt yfir í langan tíma og mikið valdaójafnvægi einkennir geranda og þolanda. Valdaójafnvægið er vegna þess hversu lítil tök þolandi hefur á að verja sig (Willard, 2007). Það er ekki alltaf hægt að loka fyrir SMS sendingar frá ákveðnum númerum eða tölvum. Hægt er að rekja IP-tölur í einhverjum tilfellum en slík mál eru í höndum lögreglu.

Trúnaðarbrestur (e. Outing and Trickery)

Í neteinelti er trúnaðarbrestur tvenns konar; uppljóstrun og svik.Við uppljóstrun dreifir gerandi persónulegum upplýsingum, sem þolandi hefur treyst honum fyrir, áfram með SMS skilaboðum eða í gegnum netið (Carpenter & Ferguson, e.d).Við svik, platar gerandi þolanda til þess að treysta sér fyrir upplýsingum og leyndarmálum sem hann svo dreifir áfram. Gerandi prentar oft út netsamtöl milli sín og þolanda eða áframsendir tölvupósta og skilaboð í þeim eina tilgangi að koma skilaboðunum áfram til annarra. Þetta eru oft viðkvæmar og niðurlægjandi upplýsingar fyrir þolandann sem stóð í þeirri trú að hann væri að tala við trúnaðarvin (Heiða Kristín Harðardóttir & Kristrún Birgisdóttir, 2009).

Rafrænt umsátur (e. Cyper – Stalking)

Gerandi sendir þolanda endurtekin ógnandi skilaboð á rafrænan hátt sem innihalda hótanir um líkamlegt ofbeldi. Gerandi dreifir lygasögum um þolanda til þess eins að sverta mannorð hans og eyðileggja hans persónulegu sambönd (Helga Lind Pálsdóttir, 2012). Mörkin á milli rafræns umsáturs og neteineltis eru ekki alveg skýr en mörkin eru stundum dregin þar sem þolandi óttast um öryggi sitt og velferð sína. Yfirleitt tengist rafrænt umsátur endalokum á rafrænum, persónulegum eða kynferðislegum samböndum (Willard, 2007).