Hér má finna umfjöllun um; forvarnarstarf skóla, aðgerðir og verkferla hjá skólum þegar kemur að neteinelti og hugmyndir að kennslu um neteinelti.

Forvarnir og fræðsla eru lykilþættir til að uppræta neteinelti. Meginábyrgð á uppeldi barna hvílir á forráðamönnum þeirra og forvarnarstarf á að eiga upphaf sitt á heimilum barnanna. Forvarnarstarf heldur áfram í skólunum en skv. Aðalnámskrá grunnskóla (2011) eiga allir grunnskólar að koma sér upp forvarnaráætlun gegn einelti sem er birt í skólanámskrá og kynnt starfsfólki skólans, nemendum og forráðamönnum.

Mikilvægur liður í forvarnarstarfi gegn neteinelti er að kennarar og forráðamenn kynni sér þá tækni sem börnin eru að nota. Bæði forráðamenn og starfsfólk skóla geta unnið gegn neteinelti með því að kenna börnum og ungmennum hvað ber að varast á netinu og hverjum á að treysta t.d. persónuvernd og öryggisráðstafanir.

Jákvæður skólabragur og samskipti

Starfsfólk grunnskóla, nemendur og forráðamenn eiga að stuðla að jákvæðum skólabrag og móta leiðir til að viðhalda honum í sameiningu (Lög um grunnskóla nr. 91/2008; Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011). Mikilvægt er að fjallað sé um mál sem kunna að hafa áhrif á skólabrag, þar með talin þau mál sem koma upp utan skólatíma eins og í rafrænum samskiptum á netinu .

Skólinn

Starfsfólk skóla ber ábyrgð á að unnið sé markvisst að því að skapa jákvæðan skólabrag. Jákvæður skólabragur getur dregið úr neikvæðum samskiptum, s.s. neteinelti og öðru ofbeldi. Fyrsta skrefið er að vinna í sameiningu að því að skilgreina hvað felst í jákvæðum skólabrag.

Nemendur

Allir aðilar skólasamfélagsins eiga að stuðla að gagnkvæmu trausti, gagnkvæmri virðingu, samábyrgð, kurteislegri framkomu og tillitssemi. Nemendur þurfa að læra að virða skólareglur, sýna umburðarlyndi og virðingu, taka ábyrgð á eigin framkomu og umgangast náungann í sátt og samlyndi. Nemendur eru líklegri til að fylgja reglum ef þeir taka virkan þátt í að móta þær. Nemendur eru einnig líklegri til að efla jákvæðan skólabrag þegar allir í skólasamfélaginu vita hvað í honum felst og ef hann er í hávegum hafður.

Stuðlað að góðum bekkjaranda

Fyrir bæði kennara og nemendur skiptir meginmáli að í bekkjum ríki góður bekkjarandi. Góður bekkjarandi getur stuðlað að aukinni vellíðan nemenda og dregið úr líkum á einelti (Olweus, 2006). Hlutverk kennarans er að kenna og skipuleggja kennsluna ásamt því að skapa góð skilyrði fyrir börn til að þroskast og viðhalda góðum bekkjaranda svo að nám geti átt sér stað. Með góðri bekkjarstjórnun er verið að reyna að koma í veg fyrir óæskilega hegðun svo sem truflun, óróa eða aðra hegðun sem getur skapað vanda. Kennari verður að vera viðbúinn að bregðast við óæskilegri hegðun og grípa til viðeigandi aðgerða sé þess þörf.

Hlutverk kennarans er að skapa jákvætt og hvetjandi umhverfi sem einkennist af trausti, opnum hug og vinsemd sem allir nemendur eiga hlutdeild að. Hver og einn nemandi á að finna að hann skipti máli og að hann tilheyri hópnum. Mikilvægt er að koma á sameiginlegum bekkjarreglum svo að starfið gangi vel fyrir sig. Bekkjarfundir eða lífsleiknikennslustundir eru kjörin vettvangur til þess að koma á sameiginlegum reglum. Lífsleiknikennsla á að efla alhliða þroska nemenda þar með talið félagslegan þroska, siðvit og virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum (Menntamálaráðuneytið, 1999).

Bekkjarfundir

Bekkjarfundir eru dæmi um vettvang til að ræða líðan og samskipti nemenda (Vaughn, S. o.fl., 2014). Kennari getur rætt við nemendur um mál sem hafa komið upp í skólanum eins og neteinelti eða nýtt fundina til þess að stuðla að góðum bekkjaranda.

Undirbúningur bekkjarfunda

Kennari þarf að huga að uppröðun kennslustofu þegar halda á bekkjarfund. Kennari þarf að skapa með nemendum sínum gott andrúmsloft, þar sem þeim líður vel og traust ríkir á milli kennara og nemenda og nemenda innbyrðis. Kennari þarf að vera varkár og veita því eftirtekt þegar nemendur vilja ekki tjá sig við bekkinn sinn og skipta um umræðuefni þegar á við. Góður tími fyrir bekkjafundi sem haldnir eru reglulega eru 20-30 mínútur. Hafa skal í huga aldur nemenda þegar lengd bekkjarfundarins er ákveðinn. Nemendur eru líklegri til að fylgja reglum ef þeir taka virkan þátt í að móta þær. Kjörið er að nemendur taki þátt í að búa til reglur fyrir bekkjarfundi.

Dæmi um útfærslu:                               

Jákvæð umræða:
Kennari byrjar á jákvæðri umræðu um það sem vel gengur í bekknum. Til dæmis má beina athygli að því jákvæða, með því að hafa hróskassa í skólastofunni þar sem nemendur fá tækifæri til að hrósa öðrum nemendum nafnlaust og nýta það á fundum.

Staða fyrri vandamála og/eða ný vandamál:
Ræða þarf einnig það sem miður fer, þau vandamál sem hafa komið upp og leita mögulegra lausna í sameiningu. Grundvallaratriði er að virkja nemendur eins og mögulegt er, þannig að nemendur sjálfir ræði ýmis vandamál og vinni að lausnum á þeim.

Næstu skref – á döfinni:
Bekkjarfundir eiga að enda á góðum nótum þar sem athygli er beint að því jákvæða sem kom fram á fundinum. Mikilvægt er að allir nemendur fái að koma sínum skoðunum á framfæri og séu virkir þátttakendur í ákvörðunum.

Bekkjarfundir ættu ekki að vera vettvangur þar sem kvartað er undan tilteknum nemendum, heldur umræðuvettvangur fyrir almenn vandamál sem eiga við allan nemendahópinn. Umræðuefni kennara getur til dæmis verið um neteinelti, samskiptamiðlar, nafnleysi á netinu og margt fleira. Til þess að nemendur geti tjáð sig um vandamál varðandi einstaka nemendur má hafa tilkynningarkassa inn í skólastofunni sem aðeins kennari hefur aðgang að. Nafnlaus ábending er valmöguleiki fyrir nemendur sem eru feimnir eða vilja ekki leita beint til kennara.

Olweusaráætlunin

Farið var að vinna eftir Olweusaráætlun gegn einelti á Íslandi árið 2002 (Olweus, 2006). Samstarfsaðilar verkefnisins eru Mennta- og menningarmála­ráðuneytið, Samband Íslenskra sveitarfélaga, Háskóli Íslands, Námsgagnastofnun og Heimili og skóli. Í Olweusaráætluninni er lögð áhersla á að virkja allt skólasamfélagið í að vinna gegn einelti í hvaða mynd sem það birtist. Kennarar og aðrir starfsmenn skólans gegna mikilvægu hlutverki þegar kemur að framkvæmd Olweusaráætlunar. Allt starfsfólk skólans fær fræðslu um hvað felst í áætluninni. Lögð er áhersla á samstarf heimilis og skóla og því er mikilvægt að taka eineltisumræðuna á foreldrafundum og hvetja forráðamenn til samstarfs við skólann.

Nemendur læra um neteinelti og hvaða afleiðingar það getur haft. Mikilvægt er að halda reglulega bekkjarfundi þar sem líðan nemenda er rædd og settar eru sameiginlegar bekkjarreglur sem stuðla að því að koma í veg fyrir einelti. Áætlunin byggist m.a. á atriðum eins og hlýhug, jákvæðni og áhuga sem miða að því að skapa jákvætt andrúmsloft.  Verkefnið er þekkt fyrir eineltishring sem hjálpar börnum að koma auga á einelti og að öðlast skilning á þeim hlutverkum sem er að finna í eineltisaðstæðum.