Neteinelti

Neteinelti er þegar símar, spjallforrit, tölvupóstar, samfélagsvefir eða aðrir rafrænir samskiptamiðlar eru notaðir til að áreita, hóta eða ógna einhverjum reglulega yfir tímabil (Carvalho, o.fl., 2008; Cleemput, o.fl., 2008). Auðvelt er að misnota samskiptaforrit og neteinelti getur átt sér stað alls staðar á netinu. Einstaklingar geta verið nær ósýnilegir og hægt er að setja inn innlegg án ritskoðunar.

Hlutverk skólans

Börn og ungmenni þurfa að öðlast skilning á þeim áhrifum sem menning, fjölmiðlar og tækni getur haft á líðan þeirra (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011). Tölvur eru sjálfsögð verkfæri í öllu skólastarfi og þar af leiðandi á að kenna nemendum að umgangast tölvur og tæknimiðla á réttan máta. Skólinn þarf að mennta nemendur til framtíðar sem eru læsir á hvers konar táknkerfi og samskiptakerfi samfélagsins ætti hann þess vegna að sama skapi að kenna nemendum að nota netið á ábyrgan hátt. Slíkt nám gerir ráð fyrir samstarfi sem nær út fyrir veggi skólans.

Ábyrgðaraðilar

Hlutverk skólastjóra

Skólastjóri er forstöðumaður grunnskóla, stjórnar honum, veitir faglega forustu og ber ábyrgð á starfi skólans (Lög um grunnskóla nr. 91/2008). Þegar kemur að neteinelti felst ábyrgð skólastjóra t.d. í forvarnarstarfi, gerð eineltisáætlunar, starfsemi skólaráðs og framkvæmd á sjálfsmati skóla. Ábyrgð hans felst einnig í inngripi og eftirfylgni við eineltismál t.d. með starfi nemendaverndarráðs og viðbragðsáætlunum.

Hlutverk umsjónarkennara

Það er réttur hvers nemanda að hafa umsjónarkennara en hann ber ábyrgð á námi, líðan, velferð og þroska nemenda sinna (Lög um grunnskóla nr. 91/2008). Hann ætti að leggja sig fram við að kynnast nemendum sínum, aðstæðum þeirra og forráðamönnum því hann er tengiliður á milli heimilis og skóla. Hann upplýsir forráðamenn reglulega um bekkjarbrag, samskipti, hegðun og líðan barna þeirra. Þegar nemendur glíma við vandamál sem hefur áhrif á nám og líðan þeirra í skólanum eins og neteinelti er umsjónarkennari alltaf sá aðili sem fyrst er leitað til.

Í frístundamiðstöðvum skal vísa grunsemdum um einelti til verkefnastjóra sem kallar til deildastjóra eða forstöðumanns ef þess þarf.

Í niðurstöðum þverfræðilegrar rannsóknar á einelti meðal barna á Íslandi kemur m.a. fram að tryggja þurfi sérstaka fræðslu og leiðbeiningar fyrir umsjónarkennara um starfsskyldur þeirra og ábyrgð ásamt viðeigandi þjálfun og fræðslu um einelti.

Sérfræðiþjónusta

Sérfræðiþjónusta sveitarfélaga

Allir skólar og nemendur eiga að hafa aðgang að sérfræðiþjónustu sem samanstendur af starfsfólki sem hefur sérfræðimenntun á sviði kennslu-, uppeldis- eða félagsmála (Reglugerð um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum nr. 584/2010). Sérfræðiþjónustan sinnir ýmsum verkefnum sem felast meðal annars í stuðningi við nemendur og foreldra með ráðgjöf og fræðslu ásamt því að veita starfsfólki skóla leiðbeiningar og aðstoð við störf sín. Starfsfólk sérfræðiþjónustu skal aðstoða skóla í tengslum við aðgerðir gegn einelti og að leysa þau viðfangsefni sem upp koma.

Nemendaverndarráð

Nemendaverndarráð fjallar um úrræði fyrir nemendur sem þurfa á þjónustu skólaheilsugæslu, sérfræðiþjónustu eða náms- og starfsráðgjafa að halda (Reglugerð um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum nr. 584/2010). Skólastjóri er ábyrgur fyrir skipan nemendaverndarráðs og stýrir starfi þess.  Sæti í nemendaverndarráði ásamt skólastjóra eða fulltrúa sem hann tilnefnir eru umsjónaraðili kennslu nemenda með sérþarfir, fulltrúi skólaheilsugæslu, fulltrúi sérfræðiþjónustu sveitarfélags og náms- og starfsráðgjafi.

Nemendaverndarráð sinnir forvarnarstarfi og aðstoðar skólastjóra við að samræma skipulag og framkvæmd áætlana fyrir nemendur sem þurfa sérstaka aðstoð. Málum þeirra nemanda sem fá ekki fullnægjandi aðstoð til dæmis vegna félagslegra- og tilfinningalegra erfiðleika eða eineltis, á að vísa til nemendaverndarráðsins. Umsjónarkennari, annað starfsfólk skóla, fulltrúar sérfræðiþjónustu skóla, nemendur og forráðamenn geta einnig óskað eftir því að mál einstakra nemenda eða nemendahópa verði tekin fyrir í ráðinu.

Eineltisteymi

Umsjónarkennari getur oft á tíðum leyst vanda í uppsiglingu eins og samskiptavanda og eineltismál (Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, e.d.). Eineltismál geta verið erfið viðureignar en tilgangur eineltisteymis er að veita ábyrgðaraðilum stuðning við greiningu og úrlausn eineltismála. Í teymunum ættu að vera fagaðilar eins og námsráðgjafar, kennarar, frístundaráðgjafar, stjórnendur grunnskóla og félagsmiðstöðva, sem hafa þekkingu á að vinna gegn einelti, kunna að bregðast við og þekkja afleiðingar þess. Ef skólar hafa ekki starfrækt eineltisteymi þarf að sjá til þess að alltaf komi fleiri en einn einstaklingur að úrvinnslu eineltismála. Ábyrgðaraðilar, eineltisteymi og nemendaverndarráð meta málsatvik í samstarfi við foreldra og boða á sinn fund umsjónarkennara, foreldra og aðra aðila t.d. ráðgjafa, fulltrúa frístundastarfs eða lögreglu.

Eineltisáætlun

Allir skólar eiga að hafa stefnu í eineltismálum til að fyrirbyggja og bregðast við einelti eða félagslegri einangrun samkvæmt lögum um grunnskóla (nr. 91/2008). Aðgerðaáætlunin sem er hluti af skólanámskrá tekur til skólans í heild, einstakra bekkjardeilda, námshópa og einstaklinga. Áætlunin á að innihalda virka viðbragðsáætlun til að takast á við eineltismál í skólanum. Skólastjóri er ábyrgur fyrir að eineltisáætlun sé unnin, gefin út og kynnt. Umsjónarkennarar bera ábyrgð á að framfylgja aðgerðaáætlun skólans gegn einelti með virkum og ábyrgum hætti (Reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum nr. 1040/2011). Í áætluninni er fjallað um hvernig stuðla má að því að nemendur beri virðingu hver fyrir öðrum, sýni tillitssemi, samkennd og taki afstöðu gegn einelti (Lög um grunnskóla nr. 91/2008). Áætlunin er líka ætluð forráðamönnum en þekki þeir áætlunina geta þeir unnið með starfsfólki skóla að eineltisáætlunum. Skólaráð eru til að mynda vettvangur fyrir forráðamenn en ráðið tekur þátt í stefnumörkun fyrir skólann. Niðurstöður þverfræðilegrar rannsóknar á einelti meðal barna á Íslandi (2011) sýna að um 27% grunnskóla, hafa ekki sett aðgerðaráætlun gegn einelti a.m.k. ekki samkvæmt heimasíðum þeirra. Til úrbóta er lagt til að úttektir menntamálaráðuneytis á skólum og skólastarfi feli í sér mat á eineltisáætlunum, innleiðingu, framkvæmd og eftirfylgd.

Skólapúlsinn

Liður í forvarnarstarfi skóla er að leggja kannanir fyrir nemendur t.d. á eðli og umfangi eineltismála en á grundvelli niðurstaðna má skipuleggja viðbrögð og aðgerðir. Dæmi um slíkt matstæki er Skólapúlsinnsem kannar þætti sem tengjast virkni nemenda og líðan þeirra í skólanum og um skóla- og bekkjaranda. Skólapúlsinn er vefkerfi og veitir skólastjórnendum stöðugan aðgang að nýjum upplýsingum sem byggðar eru á svörum nemenda og mælir m.a. tíðni eineltis, sjálfsálits og vellíðan.

Inngrip vegna gruns um einelti

Óformleg könnun

Allar vísbendingar um vanlíðan hjá börnum og ungmennum á að taka alvarlega (Skóla- og frístundasvið, e.d.). Verði ábyrgðaraðilar uppvísir að mögulegu einelti þurfa þeir áður en lengra er haldið að afla sér upplýsinga um aðstæður. Án þess að nefna hugtakið einelti ætti ábyrgðaraðili að kanna aðstæður með óformlegu spjalli við þá sem að málinu koma. Einnig má kanna hvort annað starfsfólk í skóla eða aðrir sem vinna með viðkomandi börnum, hafi orðið varir við einelti.

Ef að grunsemdir um einelti styrkjast eftir óformlega athugun þarf ábyrgðaraðili að hafa samband við forráðamenn þess sem eineltið beinist að. Ef samræður við forráðamenn benda til þess að grunur um einelti sé á rökum reistur skal óskað eftir samþykki til að beina málinu til eineltisteymis skólans eða nemendaverndarráðs. Eineltisteymi eða nemendaverndarráð vinnur að því að greina vandann, afla upplýsinga og finna viðeigandi lausnir.

Formleg skráning

Eftir að eineltisteymi kemur að málinu hefur ábyrgðaraðili formlega skráningu – sjá dæmi um skráningarblað. Aðeins á að skrá staðreyndir eins og atburði, samtöl, hvar og hvenær eineltið á sér stað ogniðurstöður athugana en ekki persónulegar túlkanir og skoðanir (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2012). Tilgangurinn með formlegri skráningu er að betra verði fyrir aðra að koma að málinu og fylgja því eftir. Sé máli barna formlega vísað til skólastjóra, eineltisteymis eða nemendaverndarráðs verður að upplýsa forráðamenn,þolenda og gerenda, og hvetja þá til samstarfs um lausn mála. Ef óskað er eftir því að forráðamenn komi á fund ætti að upplýsa þá um hverjir verði á fundinum og hvetja þá til að hafa einhvern með sér sem þeir treysta til að jafnræði ríki á fundinum.

Lausn, eftirfylgd og stuðningur

Eineltismál á alltaf að vinna í samræmi við málsatvik, aldur og þroska málsaðila(Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2012; Skóla- og frístundasvið, e.d.). Fyrst og fremst þurfa þolendur eineltis að fá tækifæri til að ræða líðan sína. Þolendur þurfa að finna fyrir samkennd og staðfestingu á því að eineltið og sú vanlíðun sem það olli sé óásættanleg. Tryggja þarf að sá sem eineltið beinist að sé öruggur í umhverfi sínu og að eineltið endurtaki sig ekki.

Til þess að þolendur geti treyst því að einelti komi ekki til með að eiga sér stað að nýju þurfa þeir sem standa fyrir eineltinu að viðurkenna eineltið, hvað er rangt við það og hvers vegna það átti sér stað. Þolendur jafnt sem gerendur í eineltismálum ættu að njóta handleiðslu stuðningsaðila t.d. sálfræðinga, námsráðgjafa, frístundaráðgjafa eða stuðningsfulltrúa. Það getur verið erfitt fyrir aðila sem standa fyrir einelti að vinna sér aftur traust og þarf að sjá til þess að gerendur eineltis fái rými til þess að bæta fyrir gjörðir sínar og breyta hegðun sinni.

Fagráð vegna eineltismála í grunnskólum

Forráðamenn eða skólar geta óskað eftir aðstoð sérstaks fagráðs sem starfar á ábyrgð Mennta- og menningarmálaráðuneytis ef ekki tekst að finna viðunandi lausn innan skóla eða sveitarfélags, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og aðkomu sérfræðiþjónustu (Reglugerð um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum nr. 584/2010). Samkvæmt verklagsreglum um starfsemi fagráðsins er ráðið hugsað sem stuðningsaðili við skólasamfélagið til að leita eftir fullnægjandi niðurstöðum í eineltismálum. Fagráðið gefur út álit um úrlausn málsins á grundvelli þeirra gagna og upplýsinga sem þeim hefur borist í tilteknum málum. Fagráðið skal bregðast við svo fljótt sem auðið er við einstökum málum og niðurstöður skulu liggja fyrir eins fljótt og kostur er.

Ráð frá kennara

Hvar get ég tilkynnt neteinelti?

Mikilvægt er að tilkynna neteinelti, áreiti eða ólöglegt efni sem er á netinu. Á vefsíðu Barnaheilla má tilkynninga ólöglegt efni. Á flestum samskiptamiðlum er hægt að tilkynna neteinelti, áreiti og ólöglegt efni. Hér má finna upplýsingar um hvar á vefnum má tilkynna og stöðva neteinelti.

Hvar get ég tilkynnt neteinelti á vefnum?

Mikilvægt er að tilkynna neteinelti, áreiti eða ólöglegt efni sem er á vefnum. Fyrsta skrefið er að láta einhvern vita hvað sé í gangi og hvernig neteineltið á sér stað. Talaðu við einhvern fullorðinn, hvort sem það er foreldri, kennari eða annar aðili sem þú treystir. Einnig er hægt að tilkynna neteineltið beint á netinu og bjóða flestir samskiptamiðlar upp á tilkynningarform þar sem hægt er að setja inn tilkynningu á efni tengdum þeim miðli. Í tenglinum hér fyrir neðan má finna upplýsingar um hvar á vefnum þessi eyðublöð eru. Á vefsíðu Barnaheill má einnig finna eyðublað til að tilkynna síður eða áreiti.

Mikilvægt er að tilkynna neteinelti, áreiti eða ólöglegt efni sem er á vefnum. Á vefsíðu Barnaheilla má tilkynna  ólöglegt eða óviðeigandi efni á netinu. Flestir samskiptamiðlar bjóða upp á að þú getir tilkynnt neteinelti, áreiti og ólöglegt efni.

Hvar get ég tilkynnt neteinelti á vefnum?

Á vefsíðu Barnaheilla má tilkynna  ólöglegt eða óviðeigandi efni á netinu. Ábendingahnappur um ólöglegt og óviðeigandi efni er rekin í samstarfi Barnaheilla – Save the Children á Íslandi, SAFT, Heimilis og skóla, Rauða krossinn og Ríkislögreglustjóra. Hægt er að nálgast tilkynningarkerfi Barnaheilla það með því að ýta á hnappinn hér fyrir neðan.

TILKYNNA TIL BARNAHEILLA

Hægt er að tilkynna neteinelti á vef Facebook.  Til að fara á tilkynningarvef Facebook er hægt að ýta á takkann hér fyrir neðan. Hægt er að ýta hér til að fá nánari útskýringar á tilkynningarkerfi Facebook.

TILKYNNA Á FACEBOOK

Á vef Twitter er eyðublað til að tilkynna neteinelti. Eyðublaðið á vefnum er einfalt í notkun og fljótlegt. Hægt er að nálgast það með því að ýta á hnappinn hér fyrir neðan.

TILKYNNA Á TWITTER

Á vef Snapchat er hægt að tilkynna notendur vegna neteineltis. Hægt er að tilkynna óviðeigandi myndir og áreiti. Til að tilkynna notendur er hægt að ýta á hnappinn hér fyrir neðan.

TILKYNNA Á SNAPCHAT

Á Skype er hægt að tilkynna neteinelti. Þegar þú velur ,,block” stillinguna á Skype færðu val um að tilkynna notanda. Til að fá nánari upplýsingar skal velja hnappinn hér fyrir neðan.

TILKYNNA Á SKYPE

Tumblr bíður ekki upp á að tilkynna neteinelti á vef sínum. En hægt er að senda þeim póst á abuse@tumblr.com til að tilkynna þeim um neteinelti.  Til að senda þeim póst er hægt að ýta á hnappinn hér fyrir neðan.

TILKYNNA Á TUMBLR

Instagram bíður ekki upp á að tilkynna neteinelti á vef sínum. En það er að tilkynna neteinelti í appinu. Hægt er að nálgast leiðbeiningar um hvernig á að tilkynna neteinelti með því að ýta á hnappinn hér fyrir neðan.

TILKYNNA Á INSTAGRAM

Á vef Twitter er hægt að tilkynna notendur á Vine vegna neteineltis. Eyðublaðið á síðunni er auðvelt og fjót gert. Til að tilkynna vegna neteineltis á Vine er hægt að ýta á hnappinn hér fyrir neðan.

TILKYNNA Á VINE

Í XBOX leikjatölvunni getur neteinelti tíðkast. Á vef XBOX er farið yfir hvernig skal tilkynna einstaklinga fyrir áreiti. Þú getur lesið leiðbeiningarnar með því að ýta á hnappinn hér fyrir neðan.

TILKYNNA Á XBOX

Í Playstation leikjatölvunni getur neteinelti tíðkast. Á vef Playstation er farið yfir hvernig skal tilkynna einstaklinga fyrir áreiti. Þú verður að vera skráður inn á vefinn til að geta tilkynnt notendur. Þú getur lesið leiðbeiningarnar með því að ýta á hnappinn hér fyrir neðan.

TILKYNNA Á PLAYSTATION