Tæknibylting og tilkoma netsins hefur skapað nýjar leiðir til þess að afla og miðla upplýsingum og til merkingarsköpunar. Tölvur eru algengar í skólastarfi og tæknistig samfélagsins þróast ört. Skólar þurfa að fylgja þessari þróun eftir og taka þátt í að kenna nemendum að nota netið á ábyrgan hátt. Neteinelti er þegar símar, spjallforrit, tölvupóstar, samfélagsvefir eða aðrir rafrænir samskiptamiðlar eru notaðir til að áreita, hóta eða ógna einhverjum endurtekið. Auðvelt er að misnota samskiptaforrit og neteinelti getur átt sér stað alls staðar á netinu. Einstaklingar geta verið ósýnilegir og hægt er að setja inn innlegg án ritskoðunar. Börn og ungmenni hafa greiðan aðgang að raftækjum með netaðgangi og hefur neteinelti verið að færast í aukana.

Hvert er hlutverk skólans?

Hlutverk grunnskólans er að tryggja farsælt skólastarf, almenna velferð og öryggi nemenda með góðu samstarfi heimilis og skóla. Allir í skólasamfélaginu eiga í sameiningu að stuðla að góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag. Fjallað er um starfsemi grunnskóla í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 en þau eru grundvöllur alls skólastarfs. Aðalnámskrá grunnskóla útfærir nánar þá menntastefnu sem felst í lögunum og veitir nemendum, forráðamönnum þeirra og félagasamtökum upplýsingar um tilgang og starfsemi skóla. Allir skólar eiga að hafa stefnu í eineltismálum til að fyrirbyggja og bregðast við einelti eða félagslegri einangrun, sem er hluti af skólanámskrá. Forvarnir og fræðsla eru lykilþættir til þess að uppræta neteinelti. Mikilvægur liður í forvarnarstarfi gegn neteinelti er að kennarar kynni sér þá tækni sem börn og ungmenni eru að nota.  Kennari á að vera virkur í að ræða um neteinelti við nemendur sína og grípa þau tækifæri sem gefast til að fjalla um ábyrga netnotkun.