Birting upplýsinga og myndefnis af börnum

Almenn viðmið um heimasíður skóla, íþróttafélaga og annarra sem koma að æskulýðs- og tómstundastarfi

Algengt er að kennarar og aðrir sem koma að skóla-, íþrótta- og æskulýðsmálum birti myndefni af börnum og ungmennum á netinu. Myndefnið er þá ýmist á opnu eða læstu heimasvæði sem einungis er ætlað foreldrum og forsjáraðilum. Eins má finna á síðum skóla upplýsingar um búsetu, símanúmer og annað sem flokka má undir persónuupplýsingar auk þess sem notkun samfélagsmiðla hefur aukist. Hér er að finna almenn viðmið Heimilis og skóla og SAFT um birtingu myndefnis og meðferð upplýsinga um börn á netinu.

Myndbirtingar

Þegar hugað er að myndbirtingu á opnu svæði, þ.e. myndir sem eru öllum aðgengilegar, er gerður greinarmunur á því hvort um er að ræða mynd af viðburði (s.s. mynd af hópi skólabarna við leik og störf eða íþróttaliði) eða af tilteknum og jafnvel nafngreindum einstaklingi. Alla jafna mega fyrrnefndar myndir vera á opnum svæðum á meðan myndir af einstökum og jafnvel nafngreindum börnum eiga betur heima á læstum svæðum. Skólar geta gert ráð fyrir upplýstu samþykki fyrir myndbirtingu á sínum síðum, þ.e. að foreldrar og forsjáraðilar geti beðið um að engar myndir birtist af sínu barni, t.d. við innritun í skólann. Einnig er vert að huga að því hvaða skilmálar og höfundarréttarákvæði fylgja myndefninu. Hvatt er til varúðar og nærgætni við allar myndbirtingar af börnum á vegum skóla eða annarra aðila í æskulýðs- og tómstundastarfi. Um allar myndbirtingar, hvort sem er á opnu eða læstu svæði, gilda eftirfarandi viðmið: Börn skulu aldrei sýnd á niðrandi eða óviðeigandi hátt, t.d. þannig að þau séu nakin eða klæðalítil, vansæl eða í erfiðum aðstæðum.

Viðmið þessi taka m.a. mið af leiðbeinandi áliti sem nálgast má á síðu Persónuverndar.

Aðrar persónuupplýsingar

Skólar og aðrir sem sinna æskulýðs- og tómstundastarfi eru hvattir til að sýna varkárni þegar persónuupplýsingar eru annars vegar og fara ávallt eftir lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Bekkjarlistar þar sem fram koma kennitala, heimilisfang, símanúmer og annað er við kemur nemendum eiga að vera á læstu svæði.

Upplýsingamiðlun ef vá ber að garði

Hvað upplýsingamiðlun í hættuástandi varðar þá hvetjum við skólastofnanir og aðra sem vinna með börnum að kynna sér vel leiðbeiningar frá almannavörnum í sínu heimahéraði. T.d. má skoða leiðbeiningar um viðbrögð við röskun á skólastarfi frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Einnig þarf að fylgjast vel með tilkynningum í fjölmiðlum og upplýsa foreldrasamfélagið í samræmi við þær.

Notkun samfélagsmiðla

Þar sem íþróttafélög, foreldrar, skólar og aðrir ákveða að notast við samfélagsmiðla til upplýsingamiðlunar er mikilvægt að stuðla að jákvæðum og vönduðum samskiptum og taka skýrt fram að málefni einstakra barna, foreldra, kennara eða þjálfara eru ekki rædd á þeim vettvangi þar sem það getur leitt til illinda og neikvæðs andrúmslofts. Einnig er gott að þeir aðilar sem málið varðar (s.s., þjálfarar, foreldrar, kennarar og skólastjórnendur) hafi aðgang að hópnum. Rétt er þó að nefna að notkun á samfélagsmiðlum sem safna saman persónuupplýsingum og reknir eru í viðskiptatilgangi (s.s. Facebook) er ekki vel samrýmanleg við  þá persónuvernd sem ung börn í skyldunámi  þurfa og eiga að hafa í rýmum sem notuð eru í skólastarfi.
Hvað persónuupplýsingar (t.d. einkunnir og verk nemenda) og myndir af einstökum börnum varðar þá eiga þær heima á læstu svæði fremur en á samfélagsmiðlum. Þegar valin er boðleið til foreldra, nemenda og annarra iðkenda er mikilvægt að huga að því að skilaboðin berist til allra og að ekki er hægt að skikka börn og foreldra til að nota samfélagsmiðla. Ef  íþróttafélög, skólar eða aðrir ákveða að nota samfélagsmiðla til að miðla upplýsingum til barna er brýnt að virða þau aldurstakmörk sem miðillinn setur, halda foreldrum og forsjáraðilum upplýstum og að kennarar eða þjálfarar hafi ekki óheftan aðgang að upplýsingum og efni sem skjólstæðingar þeirra birta úr daglegu lífi. Hægt er að koma í veg fyrir það t.d. með lokuðum Facebook hóp þar sem meðlimirnir þurfa ekki að hafa fullan aðgang að hvor öðrum til að koma skilaboðum áleiðis.