Reynslusögur

Reynslusaga 1

Eftirfarandi frásögn er byggð á raunverulegu atviki og er birt hérna á síðunni með leyfi við höfunda. Grein þessi birtist upphaflega á vefsíðunni freyjur.is þann 23.4.2014 og má nálgast hana hér.

„Þú varðst fyrir misnotkun Tinna.”

Þetta sagði mamma mín við mig fyrir rétt rúmlega ári síðan. Mér hafði aldrei nokkurn tímann dottið í hug að ég hefði orðið fyrir einhvers konar misnotkun. Ég tók bara vondar ákvarðanir og var hálfviti. Það var nefnilega búið að vara mig við, ég vissi alveg að ég ætti ekki að senda strákum á internetinu nektarmyndir af mér. En sannleikurinn er sá að ég varð fyrir misnotkun.

Mér var sagt að ég væri æðisleg og frábær fyrir að senda þessar myndir og hrósin sem ég fékk fyrir líkama minn og fegurð voru meiri og fleiri en ég hafði nokkurn tímann fengið frá jafningjum mínum fyrir nokkuð annað. Ég hefði gert hvað sem er fyrir þessa (að mér fannst) jákvæðu athygli, enda var ég óvinsæl, þótti skrýtin og rugluð, auk þess að vera lögð í svo leiðinlegt einelti að þegar ég komst ári fyrr inn í Menntaskólann á Akureyri þá grét ég úr gleði og létti. Ég trúði því svo blindandi að þessir strákar (sem kom í ljós að voru ekki alltaf strákar, heldur líka fullorðnir menn) væru vinir mínir, að ég meira að segja hjálpaði einum þeirra að læra fyrir stærðfræðipróf oftar en einu sinni.

Í fyrsta skiptið sem ég sendi einhverjum nektarmynd á netinu var ég 13 ára. Ég rændi myndavél foreldra minna og notaði tölvuna hennar mömmu. Ég man ekki hvað maðurinn sem ég sendi myndirnar heitir, ég man ekki einu sinni hvað hann þurfti að spyrja mig oft (ég held þrisvar) en ég man að hann var með mynd af bláum sportbíl í prófíl á MSN og að mér fannst hann æðislega skemmtilegur. Tangarhaldið sem þessi strákur eða maður (ég veit ekkert hversu gamall hann var) hafði á mér var ótrúlegt. Hann sagði mér hversu falleg og æðisleg ég væri, en nokkrum mínútum síðar spurði hann af hverju ég væri ekki búin að raka á mér píkuna, hlutur sem mér hafði ekki dottið í hug fyrir það, og ég fór í algjöran mínus yfir því að vera að bregðast þessum félaga og fór beinustu leið að raka á mér píkuna.

Svona hélt þetta áfram í tæplega tvö ár, þar til ég byrja með strák sem krafði mig ekki um slíka hluti og studdi mig frábærlega (takk Gísli), þegar sumar myndirnar komust í mikla dreifingu á internetinu þar sem þær eru enn. Viðbrögðin hjá nýju skólafélögum mínum í MA létu ekki á sér standa og ég fékk að heyra athugsemdir eins og „Gaman að sjá þig í fötum!” nánast daglega, þó auðvitað hafi flestir séð sér sóma í því að vera ekki að nudda mér upp úr þessu. Þetta var veturinn 2007-8 og um sumarið 2008 komast myndirnar til foreldra minna. Útprentaðar, settar í ófrímerkt umslag og rennt inn um dyralúguna heima hjá mér. Ég hljóp berfætt niður götuna og ætlaði að fleygja mér út í sjó, en pabbi minn náði mér við endann á henni.

Ég lendi ennþá í því að vel meinandi aðilar senda mér skilaboð á Facebook eða í tölvupósti til að upplýsa mig um hina og þessa staði á internetinu þar sem myndirnar af mér er að finna svo ég geti reynt að fá þær teknar niður. Ég lendi líka í því að vera úti á meðal fólks og einhver dregur mig afsíðis til að spyrja hvort ég sé „þessi stelpa”. Það er ekki það versta. Það versta, er þegar fólk skellir allri ábyrgðinni á mig. Þegar það jesúsar sig hægri vinstri yfir því að ég hafi getað verið svona vitlaus, þegar það kallar mig athyglissjúka druslu og þegar það spyr hvort ég hafi virkilega haldið að þessir menn og strákar myndu ekki setja myndirnar á netið.

Ég var barn. Allar nektarmyndirnar sem eru til af mér á netinu eru teknar og sendar áður en ég varð 15 ára. Ég var einmana unglingsstelpa, sem þráði fátt meira en að vera venjuleg, vinsæl og að vera stelpa sem stákarnir yrðu skotnir í. Þó svo að ég vissi að þetta ætti ég ekki að gera, þá var þráin og löngunin í vináttu og viðurkenningu of sterk, svo ekki sé minnst á öll hvatningarorðin frá „vinum” mínum á netinu. Ég gaf engum þessara manna leyfi til að áframsenda þessar myndir, eða setja þær fyrir allra augu á internetið. Ég hélt að ég væri að gera þeim persónulegan greiða, því að þeir væru svo ofboðslega hrifnir af mér, en í rauninni var ég að framleiða fyrir þá barnaklám á kostnað geðheilsu minnar.

Það var brotið á mér og minni friðhelgi með því að opinbera þessar myndir, burtséð frá því hvort ég sendi þær í fyrsta lagi. Það er það sem ég vil minna á. Þeir sem hafa lent í því að nektarmyndir af þeim eru opinberaðar á netinu án þeirra samþykkis eru þolendur.

Við þurfum nefnilega ekki bara að kenna fólki að senda ekki af sér nektarmyndir, við þurfum líka að kenna fólki að ef það fær slíkar myndir í hendurnar þá ber það ábyrgð á því að þær séu ekki misnotaðar.

 

Reynslusaga 2

Lýsingin hér á eftir er byggð á raunverulegu atviki sem gerðist hérna á Íslandi.

Í apríl 2010, þegar ég var á öðru ári í framhaldsskóla, byrjaði ég að fá SMS sem send voru á heimasíðu ja.is. Fyrsta daginn fékk ég nokkur SMS, sem ég hélt að væru eitthvað grín og að vinkonur mínar væru eitthvað að rugla í mér. Næstu daga hélt þetta áfram og komu fleiri og fleiri skilaboð þangað til í maí, en þá fór þeim fækkandi. Suma daga var ég að fá upp undir 100 skilaboð. Skilaboðin sem mér bárust voru mismunandi gróf og eru þetta dæmi um nokkur þeirra: „Hóran þín, dreptu þig áður en ég fæ einhvern annan til að gera þetta“, „Þú ert svo ógeðsleg helvítis hóran þín, dreptu þig mella!!!“

Ég hélt þessu leyndu í nokkra daga en ákvað að segja góðum vini mínum svo frá þessu. Hann hafði samband við fullorðinn aðila sem var frekar náinn okkur báðum og hafði sá aðili samband við námsráðgjafa í framhaldsskólanum mínum. Ég var boðuð á fund með námsráðgjafa og var hann mjög erfiður, ég grét bara og grét og vissi ekkert hvernig ég átti að haga mér.

Afleiðing

Ég vildi ekki leita mér hjálpar og segja fólki frá þessu því þá fannst mér ég vera að angra fólk, þessi skilaboð höfðu farið þannig með mig. Á meðan þessu gekk hugsaði ég oft: „Á ég ekki bara að láta mig hverfa? Fólk vill ekki hafa mig í þessum heimi, hvað er ég að gera hér?“ En stuðningur frá vinum, starfsmanna heimavistarinnar sem ég bjó á og starfsmanna framhaldsskólans kom mér í gegnum það tímabil að mestu. Skólinn var dásamlegur, tók tillit til mín á allan hátt og stóð þétt við bakið á mér.

Þetta er ástæðan af hverju það er alltaf best að segja einhverjum fullorðnum aðila frá neteineltinu, því yfirleitt vita þeir hvernig á að standa að þessu til þess að veita þeim sem lendir í því réttan stuðning.