Hvar á neteineltið sér stað?

Neteinelti á sér stað þegar tölvupóstur, símar, SMS, vefsíður og samskiptamiðar eru notaðir til þess að koma skilaboðum, frá einstakling eða hópi, til einhvers með þeim tilgangi að særa eða hóta. Eineltið fer yfirleitt fram á þeim síðum sem eru vinsælastar hverju sinni. Nú þegar stærsti hluti þjóðarinnar er á Facebook er kannski ekki skrítið að mikið af neteinelti fari þar fram. Aðrir vinsælir miðlar eru YouTube, Twitter, Tumblr og Formspring. Símar eru orðnir staðalbúnaður hjá flestum í dag. Í símanum hafa flestir aðgang að samskiptamiðlunum sem taldir eru upp hér fyrir ofan, en einnig bætist við að hægt er að senda SMS og hringja úr þeim líka.

Nánar er fjallað um miðlana sem notast er við í tenglinum hér fyrir neðan.

Samskiptasíður á netinu (e. Social Networking Sites)

Það eru margvíslegar samskiptasíður til á netinu þar sem ýmist er hægt að deila hugsunum sínum, myndum, myndböndum eða svara og spyrja spurninga. Þessar samskiptasíður eru meðal annars myspace.com, twitter.com, youtube.com, formspring.me og facebook.com. Á flestum þessum síðum búa einstaklingar til heimasvæði með upplýsingum um sig (e. profile) sem aðrir geta skoðað. Oft er hægt að deila, setja athugasemdir eða líka við efni annara sem gefur gerendum tækifæri til árása (Ása Baldursdóttir, 2009; Kowalski o.fl., 2008). Einnig er hægt að hundsa viðkomandi algjörlega sem getur verið form af neteinelti.

Skyndiskilaboð (e. Instant Messaging)

Með skyndiskilaboðum getur gerandi haft beint samband við þolanda með ógnandi, dónalegum, særandi eða niðrandi skilaboðum (Helga Lind Pálsdóttir, 2012).
Bæði er hægt að koma fram undir nafni eða nafnleynd. Spjallforritið skype er dæmi um leið þar sem auðvelt er að senda þolanda nafnlaus skilaboð en facebook er dæmi um miðil þar sem samskiptin fara fram undir nafni (Kowalski o.fl., 2008; Family Safe Computers, e.d.).

Spjallsvæði (e. Chat Rooms)

Á spjallsvæðum er hægt að koma fram nafnlaust og geta hópar talað þar saman um ýmis málefni. Þar er tækifæri fyrir hóp gerenda eða einn geranda að búa til neikvæða umræðu um þolanda. Algeng birtingarmynd rafræns eineltis á spjallsvæðum er að hópur eða einstaklingur svarar öllu því sem þolandi deilir þar inn á niðrandi eða niðurlægjandi máta. Einnig er hægt að stofna til umræðuefnis sérstaklega til að niðurlægja þolanda (Heiða Kristín Harðardóttir & Kristrún Birgisdóttir, 2009).

Tölvupóstur (e. Electronic mail)

Tölvupóst er hægt að nota til að koma skilaboðum eða myndum hratt á milli margra aðila. Það er tiltölulega einfalt að koma fram nafnlaust og senda þolanda ógnandi eða særandi skilaboð (Helga Lind Pálsdóttir, 2012). Ef gerandi kemst yfir lykilorð þolanda getur hann sent tölvupósta í nafni hans. Gerandi getur einnig skráð tölvupóstfang þolanda á ýmsar vefsíður sem getur orðið til þess að skapa mikil óþægindi (Heiða kristín Harðardóttir & Kristrún Birgisdóttir, 2009). Tölvupósthólf innihalda oft mikið af persónulegum skjölum og samskiptum sem gerandi getur sent áfram eða birt til að niðurlægja eða skapa leiðindi fyrir þolanda.

Símar (e. Cell phones)

Flestir unglingar í dag eiga síma. SMS skilaboð eru send á milli síma (SAFT, 2013). Gerandi getur því sent þolanda skilaboð beint í símann hans bæði úr eigin síma eða af vefsíðum sem bjóða upp á frí nafnlaus SMS skilaboð. Reynt hefur verið að koma í veg fyrir að hægt sé að senda nafnlaus skilaboð á netinu með því að loka þeim síðum.
Símar í dag hafa flestir myndavélar og netaðgang. Auðvelt er því að ná myndum eða myndböndum af þolanda, setja efnið á netið og dreifa þeim mjög hratt. Þessi birtingarmynd neteineltis fer ört vaxandi (Kowalski o.fl., 2008).

Smáforrit – Öpp (e. Applications)

Smáforrit eins og til dæmis Snapchat spretta upp með ógnarhraða. Snapchat er forrit þar sem hægt er að senda myndir og texta milli síma í gegnum netið til margra aðila í einu. Þessar myndir eiga að eyðast eftir birtingu en hægt er að sækja forrit sem geyma þessar myndir sem síðar er svo einfalt að misnota (Spiegel, 2013).
Smáforrit koma og fara, sum verða vinsæl í einhvern tíma en önnur ekki. Það er því mikilvægt fyrir forráðamenn að vera meðvitaðir um þessi forrit og þær hættur sem þeim geta fylgt.

Blogg (e. blog)

Blogg er eins konar dagbók á netinu sem er annað hvort með opnum eða læstum aðgangi. Þar er hægt að skrifa niðrandi athugasemdir til dæmis í gestabók eða athugasemdakerfi. Einnig er hægt að birta neikvætt blogg eða myndir um þolanda á sinni eigin síðu (Kowalski o.fl., 2008) Það er enginn sem stöðvar bloggfærslur áður en þær eru birtar, þannig að ef neikvæður og særandi texti er birtur þá getur verið mjög erfitt að fjarlægja hann. Þeir sem birta myndir af einstaklingum í leyfisleysi geta átt von á því að síðunni þeirra verið lokað (Anna Margrét Sigurðardóttir, 2005).

Vefsíður (e. Web Sites)

Gerandi getur komið upp vefsíðu um þolanda, eins konar haturssíðu (e. Hate sites). Þar er til dæmis hægt að birta myndir til niðurlægingar og efninu er hægt að dreifa hratt og víða. Svona vefsíðum getur verið erfitt að loka, það er þó hægt með tilkynningum til vefhýsingaraðila og lögreglu.

Netleikir (e. Internet Gaming)

Margir tölvuleikir eru spilaðir í gegnum netið og neteinelti getur léttilega átt sér stað þar. Markvisst er hægt að skemma fyrir einstaklingi til dæmis með því að nota spjallborð (e. chat) til að koma óviðeigandi skilaboðum áleiðis (Heiða Kristín Harðardóttir & Kristrún Birgisdóttir, 2009).
Í flestum tilfellum eru tölvuleikir spilaðir undir notendanafni sem er nafnleynd, því getur verið erfitt að hafa uppi á viðkomandi og það getur tekið langan tíma.

Heimildir

Anna Margrét Sigurðardóttir. (2005) Einelti og netið. Tímarit Regnbogabarna, október 2005. Sótt 15 apríl 2014 af http://www.heimiliogskoli.is/utgefid-efni/greinar/

Ása Baldursdóttir. (2009). Lífið á Facebook: Formgerð samskipta (óútgefin meistararitgerð). Háskóli Íslands, Reykjavík

Family Safe Computers (e.d.). Instant Messaging & Chat Rooms. Sótt 15. mars 2014 af http://www.familysafecomputers.org/imchat.htm

Heiða Kristín Harðardóttir og Kristrún Birgisdóttir. (2009). Rafrænt einelti er ofbeldi, ofbeldi er glæpur. (óútgefin BA-ritgerð. Háskóli Íslands, Reykjavík.

Helga Lind Pálsdóttir. (2012). Rafrænt einelti: skilningur og þekking unglinga. (óútgefin meistararitgerð). Háskóli Íslands, Reykjavík.
Kowalski, R. M., Limber, S. P. og Agatston, P. W. (2008). Cyberbullying: Bullying in the digital age. Bandaríkin: Blackwell Publishing. Sótt 30. mars 2014 af http://books.google.is/books?id=26u_2BbA_74C&printsec=frontcover&dq=Cyberbullying:+Bullying+in+the+digital+age&hl=en&sa=X&ei=kktNU9-PHIfjO5r1gZgB&ved=0CCkQ6AEwAA#v=onepage&q=Cyberbullying%3A%20Bullying%20in%20the%20digital%20age&f=false

SAFT: Samfélag, fjölskylda, tækni. (2013). Fréttatilkynning: Niðurstöður úr SAFT könnun 2013 um netnotkun barna og unglinga. Sótt 12. febrúar 2014 af http://www.saft.is/wp-content/uploads/2013/11/Ólinkuð_Fréttatilkynning_V_SAFT_051113.pdf

Speigel, E. (2013). It´s finally here! Sótt 8. apríl 2014 af http://blog.snapchat.com/page/3