Neteinelti

Hvað er neteinelti?

Með tilkomu netsins eru leikvellir og skólalóðin ekki einu staðirnir þar sem gerendur eineltis geta náð til þolenda. Einelti á netinu hefur engin tímamörk því netið er aðgengilegt allan sólarhringinn. Gerendur leita því þangað til að áreita þolendur og geta náð til þeirra hratt, stöðugt og hvenær sem er. Þessi nýja tegund eineltis kallast neteinelti, rafrænt einelti eða stafrænt einelti. Hér verður notast við neteinelti. Sá tími er liðinn að börn geti falið sig fyrir kvölurum sínum með því að loka og læsa útidyrahurðinni þegar heim er komið. Árásirnar geta haldið áfram í gegnum net eða síma.

Ræðið við börnin ykkar um kosti og galla netsins, hætturnar og það sem ber að varast. Talið líka um hversu fræðandi netið getur verið, hvað það býður upp á marga möguleika og hvernig skuli umgangast það. Netið og netsamskipti breytast hratt og því er mikilvægt að forráðamenn barna og unglinga fylgist vel með og séu meðvitaðir um hvað sé að gerast.

Neteinelti er þegar símar, spjallforrit, tölvupóstar eða samfélagsvefir eru notaðir til að áreita, hóta eða ógna einhverjum endurtekið. Þar sem börn hafa stöðugt greiðari aðgang að tækjum með netaðgangi hefur neteinelti færst í aukana. Þeir aðilar sem ætla sér að leggja í neteinelti geta gert það með nafnleynd og því getur oft verið erfitt að finna gerendur. Einelti sem framkvæmt er í skjóli nafnleyndar er ekki minna skaðlegt en það einelti sem fer fram augliti til auglitis. Sú staða að vita ekki hver stendur að baki gerir fórnarlambið mun veikara fyrir en ella.

TEGUNDIR NETEINELTIS

Fyrirmyndir og verndarar

Forráðamenn eru helstu mótunaraðilar barna, mikilvægar fyrirmyndir og verndarar þeirra. Þeir ættu því fylgjast með því sem börn gera á netinu rétt eins og að fylgjast með útivist þeirra og félagsskap. Þekking er lykillinn að því að vernda barn á netinu og því þurfa forráðamenn að fylgjast vel með nýjungum, vinsælustu miðlunum og því sem barnið tekur þátt í. Kennum börnunum að umgangast netið rétt eins og við kennum þeim aðrar umgengisreglur. Það er alveg jafn mikilvægt.

Sýnum gott fordæmi

Ef barn verður vart við neikvæða og meiðandi hegðun forráðamanna sinna á netinu gæti það farið að taka upp á því sama eins og að senda frá sér niðrandi athugasemdir sem geta orðið að neteinelti. Gott fordæmi forráðamanna getur því skipt sköpum þegar kenna á barni hvernig umgangast skal netið. Samkvæmt barnalögum nr. 76/2003 3 mgr. 28 gr. felur forsjá barns í sér skyldu forráðamanna til að vernda barn sitt gegn andlegu og líkamlegu ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi. Forráðamönnum ber því að afla barni sínu fræðslu og ala með því iðjusemi og siðgæði. Barnasáttmálinn og fleiri alþjóðlegir mannréttindasamningar kveða á um að börn á Íslandi eigi rétt til verndar. Ef börn lenda í einelti eiga þau rétt á inngripi og vernd fyrir áframhaldandi einelti. Forráðamenn leggja línurnar með sinni eigin hegðun og því er jákvæð netnotkun á heimilinu mikilvæg. Að sama skapi ber forráðamönnum skylda til að bregðast við hvers kyns óæskilegri hegðun og grípa í taumana. Ef óforráða barn setur inn efni sem fellur undir meiðyrðalög gæti það átt yfir höfði sér kæru og eru það forráðamenn sem bera þá ábyrgð. Samtöl í uppeldisskyni eru því gríðarlega mikilvæg.

Ungir netborgarar

Upplýsa þarf unga netborgara vel um hætturnar sem netið hefur að geyma. Ungir netborgarar eru oft forvitnir og það er mikilvægt að setja þeim umgengisreglur og ræða hvað það er sem ber að varast. Börnin hafa alist upp með tækninni en gera sér ekki alltaf grein fyrir gildrunum. Þess vegna er mikilvægt að upplýsa þau og fræða til þess að tryggja öryggi þeirra. Heilræði tengd netöryggi eins og „komdu fram við aðra eins og þú vilt láta koma fram við þig“ og „ekki kenna sjálfum þér um“ má sjá á ungmennasíðunni. Þar eru tillögur um hvernig ber að hegða sér á netinu og hvernig hægt er að bregðast við neteinelti. Hér er myndband sem hægt er að nota sem kveikju að góðum samræðum um netöryggi og nethegðun.

Vertu vakandi!

Neteinelti getur átt sér stað hvar sem er á netinu þar sem aðilar geta sett inn texta og myndefni án ritskoðunar. Forráðamenn þurfa að átta sig á að tæknin til samskipta og þekkingaröflunar er í stöðugri þróun. Þannig skapast stöðugt ný tækifæri til að misnota þessa miðla sé vilji til þess fyrir hendi. Hér er listi yfir ýmsa miðla sem notið hafa mismikilla vinsælda en hann er ekki tæmandi. Miðlarnir sem fjallað er um eiga það sameiginlegt að auðvelt er að sýna neikvæða og meiðandi hegðun gagnvart öðrum einstaklingum, undir nafni eða nafnleynd. Það má þó ekki gleyma því að þessir miðlar auðvelda samskipti fólks og jákvæð notkun þeirra er miklu algengari en hitt.

BOÐLEIÐIR EINELTIS

Hvernig skal bregðast við?

Góð og náin samvinna heimila og skóla skiptir miklu þegar bregðast þarf við neteinelti, rétt eins og í öðrum eineltismálum. Börn leita oft fyrst til forráðamanna sinna þegar þeim er strítt eða þau verða fyrir einelti.

Forráðamenn hafa besta möguleikann á að fylgjast með líðan barna sinna og eru því oft fyrstir til að sjá hættumerki. Gott væri fyrir forráðamenn að hafa eineltisáætlun viðkomandi skóla í huga þegar eineltismál koma upp. Sama gildir um viðbrögð þegar neteineltismál koma upp en bestur árangur fæst þegar börn fá sömu skilaboð bæði frá heimili og skóla.

Það getur verið erfitt fyrir forráðamenn að komast að því að barn þeirra sé lagt í einelti. Þeir verða oft reiðir, sárir og vita ekki hvernig á að bregðast við. Ef einelti á sér stað á skólatíma, eiga forráðamenn að hafa strax samband við skólann og við umsjónarkennara barnsins.

Ef umsjónarkennari fer ekki með málið lengra er næsta skref að leita til skólastjórnenda. Það er mikilvægt að gefast ekki upp þó þú fáir ekki hljómgrunn fyrir áhyggjum þínum þegar þú hefur grunsemdir um að einelti eigi sér stað. Forráðamenn verða að treysta eigin sannfæringu og leita lausna. Ekki óttast að þú sért að valda starfsfólki skólans ónæði því velferð barnsins sem skiptir mestu máli.

Börn sem lenda í einelti þróa oft með sér brotna sjálfsmynd. Það er því sérstaklega mikilvægt að vinna að uppbyggingu sjálfstrausts til dæmis með því að styrkja jákvæða eiginleika eða hæfileika. Það er ekki gott að ofvernda barnið en samt sem áður þarf að fylgjast vel með því og vera því til staðar.

Ef skilaboð berast frá skóla eða annars staðar frá um að barn þitt sé gerandi í einelti þá er mikilvægt að taka á málinu undir eins. Það þarf að koma á jákvæðu samstarfi milli skóla og forráðamanna þolanda eineltisins. Til þess að hægt sé að vinna með vandamálið þarf að taka slíkum skilaboðum alvarlega þó svo að forráðamenn vilji oft ekki trúa neinu slæmu upp á eigin börn. Börn hegða sér oft á annan hátt í skólanum en heima hjá sér. Forráðamenn vilja vernda barn sitt og geta oft ekki ímyndað sér að barn þeirra sé gerandi í einelti og fara því í vörn eða afneitun. Að sama skapi koma upp tilfelli þar sem fregnir sem þessar koma forráðamönnum ekki á óvart, til dæmis ef barn þeirra á það til að sýna neikvæða hegðun. Forráðamenn verða því að vera virkir bæði í að vernda barn sitt og önnur börn gegn skaðlegri og óæskilegri hegðun.

Samkvæmt Kolbrúnu Baldursdóttur glíma gerendur eineltis oft við vanlíðan af einhverju tagi, hvort sem um er að ræða innan veggja heimilisins, skólaumhverfisins, vegna námsörðugleika eða annars. Því er mikilvægt að greina orsökina svo hægt sé að vinna með barninu í að uppræta vandann og vonandi þannig hægt að lágmarka þörfina eða hvötina til að legga í einelti.

Ef forráðamenn hins vegar eru meðvirkir eða í vörn þá vefst það fyrir og getur komið í veg fyrir úrlausn vandans. Forráðamenn eru lykilaðilar í því að vinna með orsakir og afleiðingar eineltis hjá börnum sínum, hvort sem þau eru þolendur eða gerendur. Mikilvægt er að heimilið sýni gott fordæmi og sú neikvæða hegðun, að leggja aðra í einelti, sé ekki liðin.

Það krefst hugrekkis forráðamanna að stíga fram þegar þeirra eigið barn er gerandi eineltis eða í eineltismálum og þeir gætu þurft á stuðningi að halda.

Umfang neteineltis á Íslandi

Reglulegir netnotendur á Íslandi eru um 95% íbúa á aldrinum 16-74 ára. Innan Evrópusambandsins er meðaltal reglulegra netnotenda 72% og eru Íslendingar með hæsta hlutfall sem mælist í Evrópu. Þannig má sjá að langflestir Íslenskir unglingar hafa aðgang að nettengingu. Því er þörf á eftirliti, fræðslu og samstöðu innan heimilis um umgengnisreglur.

Einelti er samfélagslegt vandamál sem hefur reglulega verið rannsakað hér á landi og erlendis. Í samantekt Gini og Pozzoli á 11 alþjóðlegum rannsóknum um neteinelti kom fram að 20-30% unglinga töldu sig hafa verið þolendur, gerendur eða hvoru tveggja.

Samkvæmt rannsókn Wang, Lanotti og Nansel á 7182 bandarískum grunnskólabörnum höfðu 13,6% unglinga tekið þátt í neteinelti. Þar sem netnotkun unglinga hefur stóraukist síðan þessi rannsókn var gerð má gera ráð fyrir að þessar tölur hafi hækkað.

Ársæll Arnarsson og Þóroddur Bjarnason rannsökuðu einelti á Íslandi á árunum 2006 til 2010 með því að senda spurningalista til grunnskólanemenda í 6. 8. og 10. bekk. Nemendur voru spurðir hvort þeir væru lagðir í einelti, hefðu lagt aðra í einelti eða hvoru tveggja. Í ljós kom að 8,9% nemenda töldu sig vera þolendur eineltis en 2,4% gerendur.

Skólapúlsinn hefur síðan 2011 rannsakað líðan nemenda í grunnskólum þar sem tíðni eineltis er meðal annars mæld. Nýlega var bætt við einni spurningu um neteinelti en ennþá hefur hún ekki verið nýtt í tölfræðilegri úrvinnslu. Kerfisbundnar rannsóknir á neteinelti eru á byrjunarstigi hér á landi og umfang þess virðist mögulega vera vanmetið. Álykta má að með aukinni netnotkun Íslendinga verði neteinelti algengara, þörf er því á frekari rannsóknum og áhrifaríku forvarnarstarfi.