Hættur á netinu

Einelti

Rafrænt einelti er ein af þeim hættum sem steðjar að börnum og ungmennum á netinu í dag. Skilningur á eðli þess og birtingarmyndum hefur aukist og umræða um skaðlega samskipti á netinu hefur verið áberandi í þjóðfélaginu. Upplýsingatækni samtímans gefur fólki óteljandi tækifæri til samskipta en um leið verkfæri sem geta valdið miklum skaða. Einelti er í auknum mæli að færast yfir á netið þar sem samfélagsmiðlar, skyndiskilaboð og spjallsvæði eru notuð til að gera lítið úr öðrum og til eru dæmi um að bloggsíður og prófílar á samskiptamiðlum hafi verið settar upp eingöngu til að niðurlægja ákveðinn einstakling. Einnig þekkist það að fólk noti snjallsíma til þess að áreita, stríða eða hræða aðra með óviðeigandi símtölum, textaskilaboðum eða myndum, hvort sem það stafar gáleysi eða einbeittum brotavilja.
Rafrænt einelti getur verið:

 • Munnlegt: uppnefningar, meinyrði, gróusögur, varanleg stríðni;
 • Tilfinningalegt: hafa að háði og spotti, niðurlæging, útilokun frá hópi eða þátttöku;
 • Kynþáttahatur: ögra vegna kynþáttar
 • Kynferðislegt:  ruddalegar, móðgandi athugasemdir.

Í skólanámsskrá hvers skóla á að vera eineltisáætlun sem ætti einnig að ná yfir rafrænt einelti.
Mikilvægt er að foreldrar séu vakandi gagnvart rafrænu einelti (hvort sem börn þeirra eru þolendur eða gerendur í slíkum málum) og taki því alvarlega. Foreldrar þurfa að vera meðvitaðir um hvaða samfélagsmiðla börn þeirra nota og athugi hvort þeim sé að berast ljótar athugasemdir, særandi skilaboð eða niðrandi myndir. Ef grunur leikur á því að barnið þitt hafi orðið fyrir áreiti með hringingum, skyndiskilaboðum eða verið sé að dreifa niðrandi myndum af því er hægt að hafa samband við lögreglu, skólayfirvöld í viðkomandi skóla eða samtök sem veita þolendum aðstoð.

Góð ráð:

 • Mikilvægt er að gefa ekki hverjum sem er símanúmerið sitt, síst af öllu ókunnugum.
 • Aldrei svara texta- eða myndskilaboðum sem ekki hefur veirð óskað eftir og innihalda óviðeigandi efni.
 • Sömu reglur gilda um samskipti í snjallsímum og í daglegu lífi. Einelti er aldrei ásættanlegt.
 • Börn eiga ekki að vera skráð fyrir símanúmerum sínum. Númer sem skráð er á kennitölu barns kemur fram í símaskrá, sem auðveldar aðgengi að barninu.
 • Börn yngri en 13 ára mega ekki vera á facebook.
 • Samfélagsmiðlar sem bjóða upp á nafnlaus samskipti eru sérstaklega hættulegir.

 

Kynferðislegt ofbeldi

Börn eiga rétt á vernd gegn kynferðislegu ofbeldi og gegn því að vera neydd til vændis eða þátttöku í kynlífsiðnaði. Börn eiga enn fremur rétt á að vera vernduð fyrir efni sem getur skaðað velferð þeirra. Börn eru einstaklingar yngri er 18 ára. Netið er í auknum mæli notað til að beita börn kynferðislegu ofbeldi, bæði með myndbirtingum þar sem börn eru sýnd á kynferðislegan hátt og beitt kynferðislegu ofbeldi, með kynferðislegum skrifum við myndir, eða á samskiptasíðum.

Myndbirting

Öll myndbirting af börnum, þar sem þau eru sýnd á kynferðislegan eða klámfenginn hátt er brot á rétti barna. Framleiðsla, varsla, dreifing og skoðun á slíku efni er ólöglegt athæfi.

Á netinu hefur orðið mikil aukning á efni, þar sem börn eru sýnd á kynferðislegan eða klámfenginn hátt. Það er mjög mikilvægt er að stemma stigu við slíku efni, finna fórnarlömbin og koma þeim til hjálpar. Ef þú rekst á vefsíður, þar sem börn eru sýnd á kynferðislegan eða klámfenginn hátt, sendu þá inn ábendingu hér.

Það er mjög mikilvægt allir átti sig á að það er aldrei í lagi að nota börn í kynferðislegum tilgangi. Slíkt er þeim skaðlegt og telst ofbeldi. Erótískar eða klámfengnar myndir af börnum eru einnig stundum notaðar í auglýsingaskini og er slíkt aldrei réttlætanlegt. Ef netþjónustuaðilar verða varir við slíkt efni bera þeim að taka það niður.

Eins hefur það orðið algengara að börn og ungmenni framleiði ögrandi myndefni og sendi sín á milli eða deili á samfélagsmiðlum og gengur það öllu jafna undir enska heitinu sexting. Um er að ræða nektarmyndir, myndskeið eða beina útsendingu en ástæðurnar fyrir því að börn og ungmenni taki þátt geta verið margvíslegar; þau geta verið að daðra, sýna staðfestu í sambandi eða gert það upp á grínið. Einnig þekkist það að börn finni fyrir félagslegum þrýstingi að senda af sér slíkar myndir. Vart þarf að taka fram að mjög auðvelt er að missa stjórn á aðstæðum þegar viðkvæmt myndefni og netið eru annars vegar; mynd sem aðeins er ætluð einum ákveðnum aðila getur auðveldlega farið í víðtæka dreifingu ef óvarlega er farið með hana. Það getur reynst ógerningur að eyða myndefni af netinu þegar það hefur verið birt einu sinni. Af þeim sökum er afar mikilvægt að ræða hætturnar sem fylgja birtingu myndefnis á netinu við börn og ungmenni.

Tæling

Tæling er þýðing á enska orðinu grooming. Með nettælingu er átt við að fullorðinn einstaklingur setur sig í samaband við barn á netinu og reynir að byggja upp trúnað, traust og vináttu barnsins, t.d. með því að hrósa barninu og sýna því umhyggju. Hann reynir enn fremur að skapa vantraust hjá barninu gagnvart fjölskyldu þess. Sá fullorðni segist yfirleitt vera annar en hann er og oft að hann sé barn eða unglingur. Hann fer svo að vera með kynferðislega tilburði og kynferðislegt tal og gera kröfur  um kynferðislegar athafnir hjá barninu t.d. í gegn um vefmyndavélar eða að barnið hitti hann.

Nettæling getur farið fram á samfélagsmiðlum, í gegn um spjallsvæði tölvuleikja og alls staðar þar sem börn geta verið í tenglum við annað fólk á netinu, séstklega þegar hægt er að vera nafnlaus.
Mikilvægt er að barn hitti aldrei netvin nema í fylgd með foreldrum, því  hann getur verið hver sem er. Enn fremur er mikilvægt að átta sig á því, að myndir sem eru teknar í gegn um vefmyndavélar er nánast ókleift að uppræta ef þær komast í dreifngu á netinu.
Mikilvægt er að segja einhverjum sem maður treystir frá því ef maður hefur lent í nettælingu.

Foreldrar ættu að vera vinir barna sinna á facebook eða öðrum samfélagsmiðlum og fylgjast með samskiptum þeirra og hverjir eru vinir þeirra. Mikilvægt er að brýna fyrir börnum að samþykkja ekki fólk sem það þekkir ekki í raun sem vini.

Blekkingar

Netglæpamenn vinna ekki lengur hver í sínu horni sem áhugamenn, heldur tíðkast skipulögð hópvinna. Þeir mæta í vinnuna á dagvinnutíma, svipað og tíðkast hjá venjulegum fyrirtækjum. Stýrikerfin frá Microsoft eru sífellt betur varin og hafa þessir glæpamenn brugðist við með því að snúa sér af fullum þunga að margs konar notkunarhugbúnaði, svo sem Microsoft Office, gagnagrunnsforritum o.fl. Auk þess reyna þeir að blekkja notandann til að framkvæma ómeðvitað það sem þeir vilja. Vertu á varðbergi gagnvart þeim ýmsu aðferðum sem netglæpamenn nota til að svindla á fólki og komast yfir upplýsingar eða fjármuni – sjá nánar undir spurningunni Hvað er blekking?

Blekking er hér notað sem samheiti yfir margs konar aðferðir sem notaðar eru til að komast yfir upplýsingar hjá fólki, upplýsingar sem það að öllu jöfnu myndi ekki láta uppi. Bragðarefurinn villir á sér heimildir, hann þykist vera nýr starfsmaður, viðgerðarmaður eða fræðimaður og framvísar jafnvel fölsuðum skilríkjum. Með því að spyrja réttu spurninganna kemst hann oft yfir upplýsingar sem duga honum til glæpaverka. Þeir sem blekkja færa sér tæknina í nyt, og eru þær í auknum mæli stundaðar á Netinu í þeim tilgangi að plata fé af fólki, eins og dæmin um Netsvindl hér að neðan sýna;

Vefveiðar (phishing) – þjófnaður á persónuupplýsingum
Hugtakið “phishing” er borið eins fram og “fishing” (veiðar) og þýðir það sama, en tölvuþrjótar eiga það gjarnan til að breyta stafsetningu þeirra orða sem þeir nota. Hugtakið er notað yfir skipulögð svindl á Netinu, sem hafa það markmið að fiska upp úr netverjum viðkæmum einkaupplýsingum sínum með blekkingum. Netsvindlararnir senda t.d. tölvupóst, eða láta sprettiglugga (pop-ups) skjótast upp, og líkja eftir tilkynningu frá virtu fyrirtæki eða stofnun. Þar er tilgreint falsvandamál “sem þarf að leysa” og móttakandinn er beðinn um að smella á veffang heimasíðu, sem er í raun fölsuð eftirlíking af heimasíðu hins virta fyrirtækis. Grunlaus staðfestir “viðskiptavinurinn” þar viðkvæmar upplýsingar, s.s. aðgangsorð eða kreditkortaupplýsingar og skúrkurinn hefur allt í hendi sér. Skv. fyrirtækinu Netcraft, hefur fjöldi slíkra svindlvefsíðna á Netinu aukist gríðarlega og skiptir fjöldi þeirra hundruðum þúsunda.

Flóknari leiðir við Netsvindl
Aðferðir svindlarana verða sífellt þróaðri og þeir nota flóknari tækni til að komast framhjá vörnum. Við hefðbundnar varnir er oft leitað að vissum texta- og orðasamböndum, sem gefa vísbendingar hvort vefsíðan er fölsuð. Svindlararnir fóru fljótlega að beita flóknari brögðum, t.d. “Javascript” tækni. Í dag færist í vöxt enn flóknari leiðir við fjársvik, svo sem;

 • Miðjumaður (Man-in-the-middle) er utanaðkomandi stýring sem er plantað í tölvur með spilliforritum. Stýringin er m.a. notuð við að beina netumferð (redirectors) annað, virkja staðgengla (proxies), eða senda afrit af öllum lykilborðs-innslætti annað (keylogger). Man-in-the-middle stýringar valda mestu fjárhagslegu tjóni allra netglæpa í heiminum í dag.
 • Phlashing tækni (dregið af flashing) líkir eftir virtum vefsíðum með Flash tækni. Flestar hefðbundnar varnir skynja þetta ekki. Ef notuð er t.d. “Shockwave Flash” tækni við að búa til falsvefsíðu, þá dugir ekkert annað en sía frá þriðja aðila, sem síar út allt “Flash” efni af vefsíðunni.

Vertu á varðbergi gegn Netsvindli, svo sem þegar þér berst hvers konar óumbeðinn tölvupóstur, sprettigluggi, símtal gegnum Netið , hefðbundið símtal, eða þú færð heimsókn þar sem spurt er um viðkvæmar einkaupplýsingar.

 • Afar mikilvægt er að hafa alltaf innbyggðar “phishing” viðvaranir virkar í þeim vefsjám sem hafa þann valmöguleika
 • Önnur leið til að fá “phising” viðvaranir í vefsjánna, er að nýta sér ókeypis þjónustu fyrirtækja svo sem Netcraft, sem sérhæfa sig í þessum efnum.
 • Hugleiddu að nota Flash-síu frá þriðja aðila í vefsjánni, sem síar út allt flash efni er birtist.
 • Hunsaðu allan tölvupóst þar sem þú ert ekki nafngreindur beint, heldur hefst t.d. með “Dear customer”
 • Forðastu að smella á vefföng sem þér berast í tölvupósti. Falsvefföng geta legið hulin bakvið virt vefföng sem sýnd eru. Oft eru vefföng svindlara löng og innihalda mörg % merki, sem ætlað er að villa um fyrir fólki.
 • Skoðaðu hvort einhver möguleiki sé á því að veffang í tölvupósti sem þér berst sé rangt ritað og endingin sé röng, s.s. “.net” ending í stað “.com”.
 • Ef þú ert í vafa um veffang, hafðu þá strax samband við réttan aðila, s.s. kreditkortafyrirtæki til að ganga úr skugga um að enginn sé að villa á sér heimildir
 • Sendu aldrei viðkvæmar einkaupplýsingar í tölvupósti
 • Forsenda þess að gefa upp einkaupplýsingar á vefsíðum er að nota dulkóðun. Kynntu þér hvernig þú getur séð hvort vefsíða notar dulkóðun í viðskiptum á netinu.
 • Hafðu í huga að dulkóðun er þó ekki 100% örugg, dæmi eru um að vefveiðimenn hafi notað þá tækni á fölsuðum heimasíðum sínum.
 • Skoðaðu yfirlit kreditkortareikninga þinna þegar þau berast
 • Ef þú telur að óprúttnir aðilar hafi komist yfir fjármálagögn frá þér með þessum hætti skaltu loka reikningnum þínum strax og snúa þér til lögreglu
 • Forðastu að nota sama aðgangsorðið víðar en á einum stað
 • Notaðu síu til að forðast ruslpóst
 • Notaðu alltaf sterka/virka eldveggi og kynntu þér varnir gegn spilliforritum við að forða m.a. laumuforritum og “Man-in-the-middle” hugbúnaði að komast í tölvuna þína.

Rangar staðhæfingar

Flest börn nota netið til að bæta og auka þekkingu sína í tengslum við nám og tómstundir. Netnotendur ættu hins vegar að gera sér ljóst að ekki eru allar upplýsingar á netinu réttar. Sýndu barninu þínu hvernig sannreyna má upplýsingar með því að bera saman mismunandi vefsetur með sama efni á netinu. Kenndu barninu þínu að trúa ekki öllu sem sér á netinu. Þar er ekkert gæðaeftirlit og mikið er um rangtúlkanir, ónákvæmni og það sem kalla mætti hvíta lygi. Skoða verður vel hver gefur upplýsingar og meta áreiðanleika þeirra.

Fjárhættuspil og tölvuleikjafíkn

Á www.spilavandi.is , sem er vefsíða áhugafólks um spilafíkn,  eru góðar upplýsingar varðandi spilafíkn.

Einnig er síðan www.spilafikn.is

Samkvæmt  spilavanda.is eiga drengir frekar á hættu að ánetjast tölvuleikjafíkn en stelpur en þó þekkist þetta hjá báðum kynjum. Einstaklingum með lágt sjálfsmat  er hættara við að ánetjast tölvufíkn.  Ekki er óalgegnt að einstaklingur með tölvufíkn eyði frá 8 uppí 16 tímum á sólarhring í tölvunotkun.  Einstaklingur í þessu ástandi vanrækir aðra hluti í lífi sínu. Eins og nám, starf og samveru með vinum og fjölskyldu.  Grunnþörfum líkamans er ekki sinnt. Einstaklingarnir sleppa svefni, hreyfingu, hollum máltíðum og þrifum. Fylgikvillar  netfíknar geta oft verið þeir sömu og hjá vímuefnaneytendum eins og sinnuleysi, félagsleg einangrun,

þunglyndi, skapofsaköst og veruleikafirring.
Foreldrar standa ráðalausir frammi fyrir þessu vaxandi vandamáli og algengt að þessa sé ekki getið í almennu forvarnarstarfi. Þegar einstaklingur er langt leiddur í tölvufíkn er erfitt að snúa honum til baka. Hann afneitar fíkninni en er í tölvunni nánast allan sólarhringinn, allt annað verður að víkja, hann fer á bak við foreldra eða nánustu aðstandendur til að komast í tölvu með öllum ráðum. Þegar hér er komið þarf einstaklingurinn á sérhæfðri meðferð að halda.  Í forvarnarskyni  er æskilegt að foreldrar stýri tölvunotkun barna sinna, þannig að börn og ungmenni sitji ekki meira en 2 klst. á dag við skjáinn.  Reynslan hefur sýnt að góð líðan barna eykst með minni tölvunotkun. Mælt með því að hafa tölvurnar miðlægt á heimilinu, ekki í svefnherbergjum barnanna.