Samhliða hraðri tækniþróun í upplýsingatækni undanfarin ár hefur nýjum samskiptamiðlum fjölgað gríðarlega og teljast víða ómissandi þáttur í daglegu lífi.

Þrátt fyrir ótal jákvæðar hliðar tækniframfara undanfarinna ára er þróunin ekki laus við áskoranir af ýmsu tagi. Gömul vandamál eins og einelti, fordómar, hatursorðræða og neikvæð samskipti hafa fundið sér nýjan farveg á netinu og geta dreifst víðar en áður. Börn og ungmenni dagsins í dag alast upp á netinu og kynnast mörg hver skuggahliðum þess af eigin raun ung að aldri.Þess vegna er afar mikilvæg að börn og ungmenni fái vandaða fræðslu og tækifæri til þess að ræða þessar skuggahliðar samtímans á yfirvegaðan hátt undir leiðsögn.

Hér er að finna námsefni sem nota má til þess að stuðla að vitundarvakningu um alvarleika hatursorðræðu og mikilvægi miðlalæsis meðal grunnskólanema og skapa aðstæður þar sem hægt er að ræða mikilvæg málefni eins og mannréttindi, virðingu, jafnrétti og fjölbreytileika.

Áreiti á netinu er verkefni fyrir nemendur í 9. – 10. bekk þar sem þátttakendur ræða um kynbundið áreiti á netinu.

Fréttaflutningur er verkefni fyrir nemendur í 7. – 10. bekk þar sem þátttakendur ræða fréttaflutning um málefni innflytjenda og tengsl hans við kynþáttafordóma, staðalímyndir og mismunun.

Hvað skal gera? er verkefni fyrir nemendur í 7. – 10. bekk þar sem þátttakendur ræða hvernig sé best að bregðast við einelti og hatursorðræðu á netinu.

Meiðyrði og tjáningarfrelsi er spennandi leikur fyrir nemendur í 8. – 10. bekk þar sem þeir setja sig í spor sækjenda, stefnenda og dómara í meiðyrðamáli.

Ótakmarkað frelsi er verkefni fyrir nemendur í 8. – 10. bekk þar sem þeir fá tækifæri til þess að kanna hugmyndir sínar um tjáningarfrelsi með því að skoða nokkur dæmi um orðræðu á netinu.

Tölum um fordóma er verkefni fyrir nemendur í 8. – 10. bekk þar sem þeir notast við fiskabúrsumræður til að kanna fordóma í garð ákveðinna hópa í þjóðfélaginu ásamt því að styrkja þátttakendur til að hugsa gagnrýnið um viðhorf og mynda sér skoðun á móti hatursorðræðu.