Heimili og skóli og SAFT hafa látið útbúa lestrarbækur um netið sem send hefur verið sem gjöf á alla leik- og grunnskóla landsins.

Bækurnar eru ætlaðar börnum í fyrsta, öðrum og þriðja bekk grunnskóla og í elstu árgöngum leikskóla. Höfundur bókanna er Þórarinn Leifsson sem vann texta og myndir í samvinnu við Námsgagnastofnun, SAFT – Samfélag, fjölskyldu og tækni og Heimili og skóla – Landssamtök foreldra. Reykjavíkurborg og Mennta- og menningarmálaráðuneytið styrktu útgáfu lestrarbókanna.
Lestrarbækurnar eru þrjár og eru aðallega ætlaðar fyrir börn á aldrinum 5 – 8 ára.

Hrekklaus fer á netið er ætluð börnum í efsta árgangi leikskóla og í fyrsta bekk grunnskóla. Bókin Leikurinn er ætluð börnum í öðrum bekk grunnskóla og Afmælisveislan fyrir börn í þriðja bekk grunnskóla.

Tilgangur með lestrarbókunum er að kynna netið fyrir yngstu lestrarhópunum. Jafnframt er bókunum ætlað að vera leið fyrir foreldra og starfsfólk í leik- og grunnskólum til að fræða börn á einfaldan hátt um jákvæða og örugga netnotkun. Aftast í hverri bók eru leiðbeiningar fyrir foreldra/kennara um atriði sem varða netöryggi barna og hvernig nálgast megi umræðuna við börn um netið og góða netsiði.

Það er von okkar sem stöndum að útgáfu þessara bóka að lestur þeirra verði börnum, foreldrum og starfsfólki leik- og grunnskóla bæði til gagns og gamans.