SAFT verkefnið var upphaflega hluti af Safer Internet Action Plan, aðgerðaáætlun Evrópusambandsins um öruggari netnotkun en þeirri áætlun lauk árið 2014. Verkefnið er nú hluti af netöryggishluta samgönguáætlunar Evrópusambandsins og er styrkt af ESB og íslenskum stjórnvöldum. Samningsaðili við ESB er Heimili og skóli – landssamtök foreldra sem sér um að annast útfærslu og framkvæmd verkefnisins í formlegu samstarfi við Rauða krossinn, Ríkislögreglustjóra og Barnaheill – Save the Children á Íslandi. SAFT er í samstarfi við önnur lönd í Evrópu og deilir með þeim upplýsingum, aðferðafræði og þekkingu. Markmiðið er að til verði sameiginlegur sjóður þekkingar og aðferðafræði á þessu sviði sem styður hið jákvæða og spornar gegn neikvæðum hliðum upplýsingatækninnar.

Facebook hefur áhuga á að kynnast því forvarnarstarfi sem unnið er í netöryggismálum á Íslandi og einnig að heyra hverjar eru helstu áskoranir þegar kemur að öryggi á netinu og á Facebook. Facebook er í dag langvinsælasti samfélagsmiðillinn á Íslandi og eru Íslendingar einir af helstu notendum miðilsins þegar horft er á hlutfall íbúa. Fulltrúar þeirra aðila sem vinna saman að SAFT verkefninu sögðu á fundinum frá sínu starfi og ræddu helstu áskoranir  en SAFT verkefnið samanstendur af forvarnarhluta, hjálparlínu og neyðarlínu. Einnig var fulltrúi úr ungmennaráði SAFT viðstaddur og lýsti reynslu ungmenna. Christine sagði frá starfi Facebook og stefnu og þeim möguleikum sem í boði eru þegar kemur að notkun miðilsins, auknu öryggi og betri upplifun, en ýmsar nýjungar eru nú í boði.

Flest lönd glíma við svipaðar áskoranir þegar kemur að netöryggi; s.s.: einelti á netinu, hatursorðræðu, falska prófíla og auðkennastuld, vírusa og óviðeigandi efni. Einnig kom fram að mikilvægt er að geta tilkynnt á auðveldan hátt um óviðeigandi eða ólöglegt efni og skiptir þá máli að vera í góðu sambandi við fyrirtæki á borð við Facebook sem nær til um 1,3 milljarða manna. Mikilvægt er að tilkynna um óæskilegt framferði á Facebook og gera það á skýran hátt. Þannig er líklegt að fyrirtækið geti brugðist hratt og vel við. SAFT verkefnið hefur nú þegar tengilið hjá Facebook sem tekur við ábendingum og athugasemdum frá SAFT en fundurinn í dag treysti enn frekar undirstöður þeirrar samvinnu auk þess sem ræddar voru leiðir í hvernig Facebook getur stutt við starf verkefna á borð við SAFT og sýnt þannig samfélagslega ábyrgð.

Myndatexti: Fulltrúar SAFT verkefnisins áttu góðan fund með fulltrúa Facebook í höfuðstöðvum Heimilis og skóla. Á myndinni eru frá vinstri: Loftur Kristjánsson frá Ríkislögreglustjóra, Þóra Jónsdóttir frá Barnaheillum – Save The Children á Íslandi, Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, Jónína Björg Halldórsdóttir frá ungmennaráði SAFT og Christine Grahn, framkvæmdastjóri opinberrar stefnu Facebook á Norðurlöndunum. Á myndina vantar Björn Rúnar Egilsson, verkefnastjóri hjá Heimili og skóla og SAFT og Ívar Scram, verkefnastjóra hjá Rauða krossinum sem forfallaðist en sendi inn efni á fundinn.