Elsta stig

Vírus (13 – 15 ára)

Vírus er saga af þremur bekkjarfélögum sem stofna tekknóhljómsveitina VÍRUS í tengslum við tónlistarverkefni í skólanum. Tónlistin þeirra verður fljótt vinsæl meðal skólafélaganna og áður en langt um líður eru þau farin að halda tónleika um allt land og fá spilun í útvarpinu. Um leið og aðdáendum þeirra fjölgar verður erfiðara að halda einkalífinu úr sviðsljósinu. Hljómsveitin notar samfélagsmiðla til þess að vera í tengslum við aðdáendur sína en vegna óheppilegrar uppákomu þurfa þau að huga betur að netöryggi. Slástu í för með VÍRUS og fylgstu með þeim verða að tónlistarstjörnum og lærðu um netöryggi af mistökum þeirra. Námsefnið er á ensku.


virus

NÁMSEFNI TENGT STUTTMYNDINNI „FÁÐU JÁ!“

faduja

Um er að ræða þrjú sjálfspróf, sem snerta ýmis viðfangsefni stuttmyndarinnar „Fáðu já!“

  • Fyrsta prófið fjallar um Internetið og mikilvægi þess að horfa gagnrýnum augum á birtingarmyndir kynjanna á netinu. Þótt netið sé heill heimur af upplýsingum gefur það ekki alltaf rétta mynd af raunveruleikanum og því ber að umgangast það af ábyrgð og varúð.
  • Annað próf fjallar um klám og mikilvægi þess að skilja að það endurspeglar ekki kynlíf eins og vænta má í raunveruleikanum. Sumt klám er í raun ofbeldisefni og hverjum smelli fylgir ábyrgð.
  • Þriðja prófið fjallar um kynlíf og mikilvægi þess að fá já. Samþykki er grundvallaratriði í kynlífi, burtséð frá kyni og kynhneigð þátttakenda. Einnig er fjallað um getnaðarvarnir og tilfinningatengsl.

Sjálfsprófunum er ætlað að höfða til unglinga á efsta stigi grunnskóla. Höfundur sjálfsprófanna er Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, sem skrifaði handritið að „Fáðu já!“.

Tökumst á við fordóma, neteinelti og hatursræðu

ekkert hatur

Samhliða hraðri tækniþróun í upplýsingatækni undanfarin ár hefur nýjum samskiptamiðlum fjölgað gríðarlega og teljast víða ómissandi þáttur í daglegu lífi. Þrátt fyrir ótal jákvæðar hliðar tækniframfara undanfarinna ára er þróunin ekki laus við áskoranir af ýmsu tagi. Gömul vandamál eins og einelti, fordómar, hatursorðræða og neikvæð samskipti hafa fundið sér nýjan farveg á netinu og geta dreifst víðar en áður. Börn og ungmenni dagsins í dag alast upp á netinu og kynnast mörg hver skuggahliðum þess af eigin raun ung að aldri.Þess vegna er afar mikilvæg að börn og ungmenni fái vandaða fræðslu og tækifæri til þess að ræða þessar skuggahliðar samtímans á yfirvegaðan hátt undir leiðsögn.

Hér er að finna námsefni sem nota má til þess að stuðla að vitundarvakningu um alvarleika hatursorðræðu og mikilvægi miðlalæsis meðal grunnskólanema og skapa aðstæður þar sem hægt er að ræða mikilvæg málefni eins og mannréttindi, virðingu, jafnrétti og fjölbreytileika.

Áreiti á netinu er verkefni fyrir nemendur í 9. – 10. bekk þar sem þátttakendur ræða um kynbundið áreiti á netinu.

Fréttaflutningur er verkefni fyrir nemendur í 7. – 10. bekk þar sem þátttakendur ræða fréttaflutning um málefni innflytjenda og tengsl hans við kynþáttafordóma, staðalímyndir og mismunun.

Hvað skal gera? er verkefni fyrir nemendur í 7. – 10. bekk þar sem þátttakendur ræða hvernig sé best að bregðast við einelti og hatursorðræðu á netinu.

Meiðyrði og tjáningarfrelsi er spennandi leikur fyrir nemendur í 8. – 10. bekk þar sem þeir setja sig í spor sækjenda, stefnenda og dómara í meiðyrðamáli.

Ótakmarkað frelsi er verkefni fyrir nemendur í 8. – 10. bekk þar sem þeir fá tækifæri til þess að kanna hugmyndir sínar um tjáningarfrelsi með því að skoða nokkur dæmi um orðræðu á netinu.

Tölum um fordóma er verkefni fyrir nemendur í 8. – 10. bekk þar sem þeir notast við fiskabúrsumræður til að kanna fordóma í garð ákveðinna hópa í þjóðfélaginu ásamt því að styrkja þátttakendur til að hugsa gagnrýnið um viðhorf og mynda sér skoðun á móti hatursorðræðu.

Miðstig

Björgunarleiðangur (9-13 ára)

Björgunarleiðangur er saga um þrjá skólafélaga sem ákveða að fara í fjallgöngu á Víkingatind. Strákarnir hafa lengi haft áhuga á fjallinu en á því er stærsta jökul Netbæjar að finna. Þeir ákveða að afla sér frekari upplýsinga um gönguleiðir á tind fjallsins með því taka þátt í umræðum á spjallsvæði sem kallast GÖNGUR.

Á spjallsvæðinu kynnast þeir Pétri en hann segist þekkja bestu leiðina upp á topp. Strákarnir leggja traust sitt á Pétur og ákveða að hitta hann við rætur fjallsins. Þeir skrópa í skólanum og leggja af stað án þess að fá leyfi frá foreldrum sínum.

Þegar strákarnir mæta á staðinn hitta þeir fullorðinn mann sem kallar sig Pétur en þeir héldu að hann væri jafnaldri þeirra þegar þeir ræddu saman á spjallsvæðinu. Strákarnir rífast um hvort þeir eigi að halda leggja af stað í fjallgönguna – geta þeir treyst Pétri?


rescue

NÁMSEFNI TENGT STUTTMYNDINNI „STATTU MEÐ ÞÉR!“

stattumedther_

Hér geturðu tekið sjálfspróf sem tengjast myndinni Stattu með þér. Sjálfsprófin má bæði nota sem stuðningsefni við myndina og ein og sér. Sjálfsprófin eru tvö og heita Líkaminn og kynþroskinn og Útlitið og öryggisnetið. Höfundur sjálfsprófanna er Þórdís Elva Þorvaldsdóttir.

Rusleyjan

Rusleyjan, lestrarbók eftir Þórarin Leifsson er nýtt fræðsluefni fyrir miðstig grunnskóla, sem SAFT dreifir til allra skóla landsins í vetur. Bókin fjallar um ábyrga og jákvæða notkun netsins og annarra nýmiðla, með sérstaka áherslu á rafrænt einelti, og mikilvægi endurnýtingar og endurvinnslu. Henni fylgja handrit og framkvæmdarlýsing á jafningjafræðslu og spunaleikverki sem nefnist Heimkoman og er eftir Rannveigu Þorkelsdóttur leiklistarkennara. Leikritið er ætlað til uppsetningar af leiklistarhópum  skóla. Bæði lestrarbók og leikriti er dreift án endurgjalds.

Verkefnið er unnið í samstarfi SAFT, Heimilis og skóla, Háteigsskóla, Barnaheilla – Save the Children á Íslandi, Embættis landlæknis, Námsgagnastofnunar, Grænnar framtíðar og Félags um leiklist í skólastarfi. Verkefnið hefur hlotið styrk úr Sprotasjóði mennta- og menningarmála-ráðuneytisins, Samfélagssjóði Landsvirkjunar, frá Góða hirðinum/Sorpu, Reykjarvíkurborg og Símanum.

Í tengslum við verkefnið býður ungmennaráð SAFT upp á jafningjafræðslu samhliða uppsetningu leikritsins Heimkoman.  Þá geta skólar, nemendur og skólafélög safnað ónýtum og gömlum smáraftækjum (GSM símum, fartölvum, stafrænum myndavélum, stafrænum upptökuvélum, netlyklum og MP3 spilurum) í fjáröflunarskyni. Skólafélög eða einstakir árgangar geta safnað til einstakra verkefna, svo sem fyrir skólann sinn, skólaferðalög eða fyrir góðgerðarfélög.  Græn framtíð mun greiða fyrir þann búnað sem safnast, en hann verður fluttur til endurnýtingar hjá endurnýtingarfyrirtækjum í Evrópu. Þar mun búnaðurinn öðlast nýtt líf og verður meðal annars seldur aftur til þróunar-ríkja.

SAFT og samstarfsaðilar vænta góðrar samvinnu við grunnskóla landsins og vonast til þess að sem flestir lesi bókina, setji upp spunaleikritið samhliða jafningjafræðslu og taki þátt í söfnuninni.

Þeir skólar sem hafa áhuga á að fá SAFT í heimsókn samhliða uppsetningu spunaleikverks geta haft samband með því að senda tölvupóst á saft@saft.is

Fjölskyldugaman: Að ná tökum á vefnum

 

Efnið er á sviði upplýsingatækni og er ætlað 5.-7. bekk grunnskóla

Efnið er upphaflega hannað af Insafe, sem er netverk þeirra Evrópuþjóða sem starfa að netöryggisáætlun ESB. Efnið er þýtt, staðlað og heimfært af SAFT. Efnið er hugsað fyrir fimmta til sjöunda bekk grunnskóla. Vinnubók sem börn vinna með hjálp foreldra og handbók fyrir foreldra til hliðsjónar. Vinnubókin miðar að því að uppfræða börn um örugga netnotkun. Í vinnubókinni eru yfir 50 ábendingar um örugga netnotkun og æfingar til að kenna börnum að nota netið á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.

1. Tvær bækur, fjölskyldugaman og foreldrahandbók.
2. Gullnar reglur, listi til að fylla út
3. Fjölskylduskírteini
4. Límmiðar
5. 12 kort til að klippa út

Bækurnar eru báðar með litvísa til að greina á milli fjögurra lykilþema sem eru: Öryggi, samskipti, skemmtun og niðurhal og rafrænt einelti.
Foreldrahandbókin er hugsuð sem upplýsingagrunnur fyrir bæklinginn Fjölskyldugaman.
Fjölskyldugaman er fyrir foreldra og börn að nota saman. Þar er fjallað um lykilþemun fjögur með sögu af tveimur börnum, Alex og Önnu, foreldrum þeirra og tölvusnillingnum Helenu. Hver kafli samanstendur af mismunandi þáttum, s.s. verkefnum á netinu, könnunum, heilræðum og gagnlegum tenglum.

Markhópur verkefnis er öll grunnskólabörn í 5.-7. bekk grunnskóla. Námsefnið hefur sömu þýðingu fyrir öll þessi börn, óháð kyni eða búsetu, enda aðgengi að neti og netnotkun nokkuð jöfn milli kynja og búsetu. Jafnt aðgengi markhóps er að öllum líkindum tryggt þar sem rætt hefur verið um að Námsgagnastofnun annist dreifingu efnisins.

Gagnrýnin hugsun og netið

Að meta og skilja efni af netinu (Markhópur 10-15 ára). Markmið:að hvetja nemendur til að vera varkárir þegar þeir nota vefinn og hugsa um áreiðanleika, réttmæti og hlutdrægni.

Ráð til að meta og skilja efni af netinu Heilræði til að meta áreiðanleika efnis af netinu.

Tökumst á við neteinelti

Tökumst á við neteinelti er verkefni fyrir nemendur í 5. – 7. bekk. þar sem þeir velta upp mögulegum viðbrögðum við því að lenda sjálfur í eða verða vitni að einelti.

Krossgátur

SAFT-áhöfnin Krossgáta um SAFT áhöfnina.
SAFT-áhöfnin – LAUSN Lausnarorð krossgátunnar.

SAFT-heilræði Krossgáta um aukið öryggi á netinu.
SAFT-HEILRÆÐI-LAUSN Lausnarorð krossgátunnar.

Yngsta stig

 Ævintýri Emblu

Markmiðið er að kenna börnum að fara varlega á netinu. Í námsefninu er lögð áhersla á að kenna börnum varfærnari og þar með öruggari hegðun á netinu.

emblaÆvintýri Emblu í Netbæ (5 til 6 ára)

Ykkur er boðið að slást í för með vinalega og klára tölvuhundinum Emblu og fjölskyldu hennar í ævintýraferð. Embla, Freyja “systir” hennar og afi þeirra og amma fara í gönguferð í fjölskyldugarðinn.

Á leiðinni verða þau að yfirstíga nokkrar hindranir en með því að nota 1-2-3 regluna komast þau á áfangastað.

Notast er við samlíkingar um umferðaöryggi og ábyrgð á gæludýrum.

kafteinnÆvintýri kafteins Kjærnested á Nethafinu (7 til 9 ára)

Sláist í för með kafteini Kjærnested og Emblu tölvuhundi þegar þau sigla frá netbæ til Norðureyjar.

Á leiðinni verða þau vör við sjóræningjaskip og hitta ókunnugt fólk á Norðurey sem vill nálgast persónulegar upplýsingar um Emblu og kafteininn.

Þau þurfa að bregðast við leiðinlegum textaskilaboðum til Emblu frá kunningja hennar Rebba ref í Netbæ.

Lestrarbækur

Heimili og skóli og SAFT hafa látið útbúa lestrarbækur um netið sem send hefur verið sem gjöf á alla leik- og grunnskóla landsins. Bækurnar eru ætlaðar börnum í fyrsta, öðrum og þriðja bekk grunnskóla og í elstu árgöngum leikskóla. Höfundur bókanna er Þórarinn Leifsson sem vann texta og myndir í samvinnu við Námsgagnastofnun, SAFT – Samfélag, fjölskyldu og tækni og Heimili og skóla – Landssamtök foreldra. Reykjavíkurborg og Mennta- og menningarmálaráðuneytið styrktu útgáfu lestrarbókanna.
Lestrarbækurnar eru þrjár og eru aðallega ætlaðar fyrir börn á aldrinum 5 – 8 ára.

Hrekklaus fer á netið er ætluð börnum í efsta árgangi leikskóla og í fyrsta bekk grunnskóla. Bókin Leikurinn er ætluð börnum í öðrum bekk grunnskóla og Afmælisveislan fyrir börn í þriðja bekk grunnskóla.

  

Tilgangur með lestrarbókunum er að kynna netið fyrir yngstu lestrarhópunum. Jafnframt er bókunum ætlað að vera leið fyrir foreldra og starfsfólk í leik- og grunnskólum til að fræða börn á einfaldan hátt um jákvæða og örugga netnotkun. Aftast í hverri bók eru leiðbeiningar fyrir foreldra/kennara um atriði sem varða netöryggi barna og hvernig nálgast megi umræðuna við börn um netið og góða netsiði.
Það er von okkar sem stöndum að útgáfu þessara bóka að lestur þeirra verði börnum, foreldrum og starfsfólki leik- og grunnskóla bæði til gagns og gamans.

Paxel 123

PAXEL123.com vefurinn er ætlaður nemendum á leik- og grunnskólaaldri sem eru að stíga sín fyrstu skref í því að vinna með orð og hugtök tengd móðurmáli og stærðfræði.

Markmiðið með PAXEL123.com er að örva læsi í stærðfræði og móðurmáli með örvandi tölvuleikjum.

Leikirnir á PAXEL123.com örva formskynjun, talnaskilning og rökhugsun auk þess sem þar er að finna rímleiki og stafarugl. Leikirnir henta einnig sem ítarefni við sérkennslu þ.m.t. að vinna með börnum af erlendum uppruna.

Hugmyndin að þessum leikjavef er sprottinn af vinnu Önnu Margrétar Ólafsdóttur leikskólastjóra í Nóaborg í Reykjavík, en leikskólinn hefur í rúm tíu ár haft stærðfræði og ritmál sem leiðarljós í vinnu með börnunum í leikskólanum. Mikið af leikefni barnanna sem tengist þessum leiðarljósum er heimagert s.s. ýmis spil og leikir. Það sem hefur verið vinsælast hjá börnunum þennan tíma hefur nú verið útfært í tölvuleiki á PAXEL123 auk þess sem nýir leikir bætast í hópinn.

Framhaldsskóli

Road trip (16 til 18 ára)
roadtrip

Road Trip er saga um 6 háskólanema í Netbæ sem taka þátt í keppni þar sem hægt er að vinna teygjustökk úr loftbelg. Til þess að geta unnið verða þau að sýna kennara sínum fram á að þau séu orðin sérfróð í netöryggi (6 steps of Cyber Hygiene).Leyniþjónusta netbæjar telur hins vegar að einn úr nemendahópnum sé netglæpamaður! Þitt verkefni er að átta þig á hver það gæti verið og læra um netöryggi í leiðinni. Námsefnið er á ensku.

Nethreinlæti – líf á tækniöld (18 til 20 ára)
nethreinlaeti

Nemendur kynnast helstu netöryggismálum sem þjóðfélagið glímir við í dag. Þau læra um það helsta sem ógnar öryggi fólks á netinu og hvernig hægt sé að bregðast við þeim. Nemendur verða einnig kynntir fyrir hugtakinu nethreinlæti (e. Cyber hygiene) og fá heilræði um hvernig þeir geti aukið öryggis sitt í hinum rafræna heimi. Námsefnið er á ensku.

Uppalendur

Börn og miðlantokun jpeg

Heimili og skóli og SAFT gáfu nýlega út handbókina Börn og miðlanotkun en hún er ætluð foreldrum barna á grunnskólaaldri. Börn eiga rétt á að njóta öryggis og verndar gegn skaðlegu efni í fjölmiðlum. Fullorðnir bera ábyrgð á að börn fái að kynnast ólíkum miðlum og þeim tækifærum sem í þeim felast. Um leið þarf að kenna börnum að verjast skuggahliðum miðlanna og tileinka sér gagnrýna hugsun gagnvart þeim skilaboðum sem þar er að finna. Eftir því sem börn eldast og þroskast breytist hlutverk foreldra úr stjórnendahlutverki í leiðsagnarhlutverk. Með því að kenna börnum að nýta sér nútímatækni og allar þær skemmtilegu nýjungar sem í boði eru má beina þeim í heilbrigða átt og styðja þau á margvíslegan hátt.

Örugg-og-ábyrg-farsímanotkunHeimili og skóli og SAFT gáfu nýlega út bækling um fyrsta farsíma barnanna okkar í samstarfi við Símann. Í bæklingnum er að finna góð ráð um atriði sem hafa ber í huga þegar börn fá sinn fyrsta farsíma; s.s. hvort betra sé að vera í frelsi eða áskrift, hvort notast sé við þráðlaust net eða 3G/4G, ábyrga netnotkun á samfélagsmiðlum og margt fleira. Hægt er að nálgast bæklinginn á þjónustumiðstöð Heimilis og skóla að Suðurlandsbraut 24 eða á rafrænu formi: Örugg og ábyrg farsímanotkun.

Samfélagsmiðlar

Oft á tíðum getur það verið erfitt fyrir foreldra að átta sig á nýjustu samfélagsmiðlunum; hvernig þeir virka, hvaða möguleika þeir bjóða upp á og hvernig best sé að hafa öryggisstillingarnar. Hér fyrir neðan er að finna upplýsingapésa um vinsæla samfélagsmiðla.

glaerurglaerur3